«

»

Ósannindafléttan um Þorláksbúð Í Skálholti

Nú er komið í ljós að svokölluð „endurbygging“ Þorláksbúðar í Skálholti er byggð á ósannindum sem Árni Johnsen alþingmaður hefur spunnið og vélað kirkjuráð þjóðkirkjunnar til verksins með sér.
Kirkjuráð hefur samþykkt (2. nóv. sl.) að gera ,,ekki athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki framkvæmd verksins þar sem fyrir liggi að byggingarleyfi verði gefið út,” (leturbreyting mín) sagði í frétt á mbl.is 5. nóvember sl. Í Morgunblaðinu 9. september síðastliðinn var haft eftir Árna Johnsen talsmanni Þorláksbúðarfélagsins: ,,Þetta var allt formlega samþykkt og fengust leyfi fyrir framkvæmdum frá réttum aðilum.” Aftur sagði þingmaðurinn í Morgunblaðinu 23. september ,,að öll réttmæt stjórnvöld hafi samþykkt verkefnið.” Þetta eru hrein ósannindi, því eins og fram kemur í bókun kirkjuráðs var ekki búið að gefa út byggingarleyfi 2. nóvember. Í byrjun nóvember var sem sé ekkert byggingarleyfi til staðar. Það kom svo fram í Morgunblaðinu 8. nóvember að 4. nóvember 2011 hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi . Leyfi fyrir framkvæmdum sem hófust á árinu 2010 ! Skýring byggingarfulltrúa er sú að sögn Morgunblaðsins að leyfið hafi ekki verið gefið út fyrr vegna beiðni umsækjanda! Einnkennileg stjórnsýsla, vægast sagt. Gilda önnur lög í þessu landi um Árna Johnsen og Þorláksbúðarfélagaið en aðra borgara og félög í landinu? Þá hefur líka komið fram að aldrei hefur verið haft samband við afkomendur Harðar Bjarnasonar arkitekts sem fara með höfundarrétt að verki hans, Skálholtskirkju. Leyfi frá börnum hans lá sem sé ekki fyrir. Við þau var aldrei rætt.
Rétt yfirvöld og rétthafar hafa því ekki samþykkt þessa tóftarbyggingu sem nú er að rísa við kirkjuvegg Skálholtskirkju. Bókun kirkjuráðs staðfestir að Árni Johnsen sagði ósatt. Ormar Þór Guðmundsson arkitekt hefur greint frá því í grein í Morgunblaðinu 17. september að það sé rangt sem Árni Johnsen hefur haldið fram í sama blaði að Þorláksbúð tengist 800 ára kirkjusögu Skálholts því Þorlákur biskup hafi reist hana á tólftu öld. Þorláksbúð var ekki reist fyrr en eftir bruna svonefndrar Árnakirkju árið 1527 og þá sem bráðabirgðaskýli fyrir messuhald. Þetta er enn einn þátturinn í þessari löngu fléttu ósanninda. Kirkjan verður að hreinsa sig af þessu máli og það er óskiljanlegt að kirkjuráð skuli hafa látið blekkja sig eins og nú er berlega komið í ljós.
Biskup Íslands sagði í grein í Morgunblaðinu 17. september síðastliðinn (um Þorláksbúð í Skálholti): ,,Þorláksbúðarfélagið hefur borið hitann og þungann af verkefninu. Kirkjuráð og biskup Íslands bera ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti og geta ekki vikist undan því.“ Fram hefur komið að biskup sat hjá við afgreiðslu málsins í kirkjuráði í sl. viku. Kirkjuráð hefur þannig beitt valdi sínu gegn biskupi sínum, biskupi Íslands. Það er ótrúlegt, en sorglega satt.
Það er svo annar angi þessa máls að starfsfólk Skálholtsskóla hlýtur þessa daga að hugsa sitt. Þar hefur öllum verið sagt upp störfum. Samtímis er varið milljónum í þetta skemmdarverk við Skálholtskirkju.
Því verður ekki trúað að kirkjan haldi áfram byggingu þessa
torfkofa við Skálholtsdómkirkju, torfkofa sem byggður er á hreinum og rakalausum ósannindum. Nú þarf annaðhvort kirkjuþing eða Húsafriðunarnefnd að grípa í taumana og koma í veg fyrir þessa makalausu framkvæmd. Ég heiti á biskup Íslands að veita því lið. Ef þetta óþurftarverk verður til lykta leitt verður þetta vanhelgur kofi á helgum stað, minnisvarði um ósannindi, óheilindi og blekkingar við hlið dómkirkju Skálholtsstaðar. Það má aldrei verða.

Það er svo sérstakt umhugsunarefni hversvegna þjóðkirkjan fól Árna Johnsen alþingismanni umsjón með þessu verkefni sem kann að kosta um tuttugu milljónir króna eða svo. Það fé kemur fyrr eða síðar úr vösum okkar skattgreiðenda. Varla hefur það verið gert með hliðsjón af reynslu þessa þingmanns við meðferð opinberra fjármuna sem honum var trúað fyrir. Erum við ekki reynslunni ríkari í þeim efnum?

Eiður Svanberg Guðnason
Greinin birtist fyrst í Mbl.10.11.2011

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , þetta er mjög athyglisvert.

  2. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur skrifar:

    Sæll Eiður, kerfið brást löngu áður en að Kirkjuráð kom inn í myndina.

    Þér og lesendum þínum þætti kannski áhugavert að lesa þessa færslu Fornleifs:

    http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1203774/

    Fornleifavernd Ríkissins, eða réttara sagt yfirmaður þeirrar stofnunar, Kristín H. Sigurðardóttir, átti ekkert með að veita leyfi til að byggja gervifornminjar ofan á ekta fornleifum. Rúst svokallaðrar Þorláksbúðar var friðuð árið 1927. Sú friðun hefur ekki verið dregin til baka svo mér sé kunnugt um.

  3. Óðinn skrifar:

    Já, þær eru leyna á sér ósannindaflétturnar, eins og talsmenn hrægammasjóðanna .
    http://halldorjonsson.blog.is/blog/halldorjonsson/entry/1203857/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>