Orðið þágufallssýki sem margir reiðareksmenn amast við hefur lengi verið notað. Nú er ef til vill tímabært að tala um nefnifallsýki því oft virðast fjölmiðlamenn hræðast beygingar og vilja hafa allt í nefnifalli. Dæmi um þetta var í níufréttum Ríkisútvarps (09.11.2011), en þá var sagt um stjórnmálaástandið í Grikkklandi : Talið er að (G.P.) fráfarandi forsætisráðherra og (A.S.) leiðtogi Nýja lýðræðisflokksins greini á um hver eigi að …. Hér á orðið leiðtogi að vera í þolfalli, ,- leiðtoga. Forsætisráðherra og leiðtoga greinir á. Það er æ algengara að heyra og sjá villur af þessu tagi. Því miður.
Molaskrifari amaðist við því á dögunum að sífellt væri talað um Hörpuna, – ekki Hörpu hljómleikahöllina við höfnina. Góð vinkona sagði: Talar þú ekki alltaf um Esjuna? Heitir fjallið ekki Esja? Molaskrifari dregur í land. Skák og mát. Harpa. Harpan. Og bætir við, – áreiðanlega gleymir enginn viðstaddra flutningi Sinfóníunnar á níundu sinfóníu Mahlers í gærkveldi undir stjórn Petri Sakari. Snerti innstu sálarstrengi.
Frægðarsól Ásdísar Rán heldur áfram að hækka segir í fyrirsögn á dv.is (08.11.2011) Þetta ætti að vera Frægðarsól Ásdísar Ránar …. Eignarfall kvenmannsnafnsins Rán er Ránar , en ekki Rán eins og segir í fyrirsöginni. Molaskrifari játar fáfræði sína um frægð þessarar konu sem sumir íslenskir fjölmiðlar hampa svo oft af engu tilefni að því er virðist.
Egill segir (08.11.2011): ,,Hvorki Hilda G. Birgisdóttir né Jón Haukur Brynjólfsson, þýðendur á Stöð 2, virðast vita að grape juice er vínberjasafi en ekki grapesafi Þetta er annars þýðingarvilla sem sést of oft. Ekki veitir af að þýða rétt í sjónvarpi, svo áhorfendur taki ekki vitleysurnar upp eftir þeim.” Molaskrifari bætir við að hann hefur einnig heyrt talað um drúfusafa og þrúgusafa. En Egill segir fleira: ,,Ég veit að þig hefur klæjað í fingurna … sagði Hallgrímur Thorsteinsson á Rás 2 áðan. Ég hef heyrt talað um að klæja í fingurgómana (vegna einhvers) en aldrei fingurna. En þú?” Molaskrifara rámar nú í að heyrt talað um að klæja í puttana, — langa til einhvers, girnast eitthvað. En algengara er áreiðanlega að tala um fingurgómana í þessu sambandi. Annars er Hallgrímur prýðilega máli farinn fréttamaður, þó honum hætti svolítið til að sletta.
Það er undarleg árátta sumra sem sjónvarpsmenn ræða við að halda á smábörnum í viðtölum í sjónvarpi. Þjónar engum öðrum tilgangi en þeim að athygli þeirra sem horfa og hlusta beinist öll að smábarninu sem venjulega á iði og fangar athyglina þannig að það sem verið er að segja fer meira og minna forgörðum. Stundum er það líka allt í lagi.
…nýjar tölur sem morgunútvarpið hefur undir hendinni, sagði umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (9.11.2011). Útvarpsmenn eiga ekki að nota íslensk orðtök nema þeir skilji þau og kunni með að fara. Svo á beyging algengra orða eins og orðsins bróður ekki að vefjast fyrir umsjónarmönnum fastra þátta. Málfar á morgnana á Rás tvö alveg fram undir hádegið er oft slæmt. Undarlegt að stjórendur Ríkisútvarpsins skuli ekkert gera í málinu. Stundum ætti frekar að tala um málfár en málfar.
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (09.11.2011) hvarf hljóðið um stund, að minnsta kosti sums staðar. Engin skýring, engin afsökun. Bara allt í lagi? Það hefði til dæmis verið ágætt að heyra hvað Þráinn Bertelsson var að segja þar sem hann stóð í ræðustóli Alþingis um lokun athvarfs við Hverfisgötu.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/11/2011 at 11:38 (UTC 0)
Ekki ósennilegt. Oft held ég fólk sé að sýna hversu barnvænt og nútímalegt það sé, – mætir með börn til mótmælaaðgerða og kemur með hrínandi ungbörn á tónleika. Allt hefur sinn stað og tíma.
Kristján skrifar:
11/11/2011 at 11:13 (UTC 0)
Ég hef velt fyrir mér hvers vegna menn halda á börnum sínum í sjónvarpsviðtölum. Þetta er sérstaklega áberandi í heimi íþróttanna, þegar þjálfarar eða leikmenn eru í viðtali eftir leik.
Sumir vilja sína hversu miklir fjölskyldumenn þeir séu. Aðrir vera öruggari með sig. Sumir halda á barni og vona að spyrjandi verði ekki eins aðgangsharður vegna þess. Þetta á sérstaklega við ef gengið er lélegt og þjálfari hefur sætt mikilli gagnrýni.