Í dag, 16. nóvember, er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Dagurinn er helgaður tungunni, dagur íslenskrar tungu. Allir dagar eiga að vera dagar íslenskrar tungu.
Úr mbl.is (13.11.2011): …. en barnið var næstum því búið að kafna þegar blautklútur festist í hálsinum á því. Næstum því búið að kafna? Næstum kafnað, hefði verið betra orðalag í frásögn um hörmulegt atvik. Í fréttinni er notað hálfgert barnamál.
Mynd þeirra Brynju Þorgeirsdóttur og Egils Eðvarðssonar um ,,Snúið líf Elvu” (13.11.2011) var mjög vel gerð. Fjallað var um vandmeðfarið efni af smekkvísi og næmi. Það er hrósvert. Kærar þakkir. Þessa mynd ætti að sýna víðar en á hinum smáa íslenska markaði. Hún þarf að koma fyrir augu fleiri áhorfenda.
Aðalbögubósinn á Alþingi Íslendinga við Austurvöll sagði þjóðinni í dag (14.11.2011): … að hún liti málið mjög grafalvarlegum augum ! Haft er eftir öðrum þingmanni í Fréttablaðinu (15.11.2011) : … trúir hæstvirtur ráðherra því að einhver kaupi þetta? Þarna var ekki verið að tala um viðskipti. Þarna var verið varpa fram þeirri spurningu hvort ráðherra héldi að einhver tryði því sem um var fjallað. Sumir þingmenn bera ekki mikla virðingu fyrir tungunni.
Í fréttayfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins (13.11.2011) var sagt:… hún vonast jafnframt að … Þetta hefur sjálfsagt verið mismæli, þótt ekki væri það leiðrétt. Í fréttinni sjálfri var hinsvegar réttilega sagt: ….hún vonast jafnframt til að …
Molaskrifari hlustaði á hluta af sunnudagsþætti Sirrýjar á Rás tvö (13.11.2011). Gaman var að heyra að til skuli venjulegt og ágætlega skynugt fólk sem hringir í útvarpsþætti. Það er nefnilega nokkuð algengt að heyra í annarskonar fólki ef maður slysast til að opna fyrir Útvarp Sögu. Mörg börn hringdu til þáttarins í efni svokallaðs feðradags sem er innflutt fyrirbæri. Athyglisvert var að næstum öll börnin kvöddu og luku símtalinu með því að segja: Bæ. Það væri verðugt verkefni á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ef kennarar í grunnskólum landsins tækju að sér að vekja athygli nemenda á því að það er líka hægt að segja : Bless.
Í áður nefndum þætti talaði umsjónarmaður um fjáröflun til styrktar manni sem missti báða handleggi í vinnuslysi en reyna á að græða á hann nýja handleggi og slík aðgerð er dýr. Talað var um að safna fé fyrir Guðmundi F. Grétarssyni. Það er ekki rétt. Það var verið að hvetja til þess að safna fé fyrir Guðmund eða til styrktar Guðmundi. Þetta ætti ekki að þurfa að útlista frekar.
Molaskrifari les yfirleitt Tungutakspistla í Sunnudagsmogga sem oft eru hið ágætasta efni. Hann hvarflaði hinsvegar frá síðasta pistli (13.11.2011) þegar hann las um Jónas Hallgrímsson: …mörgum þótti hann hafa jákvæð áhrif á tungumálið. Jónas var öflugur málnotandi … Einhvern veginn missti ég áhugann þegar ég las að mörgum hefði þótt Jónas hafa jákvæð áhrif á íslenska tungu og verið öflugur málnotandi . Velti fyrir mér hvað mínir gömlu íslenskukennarar Jón S. og Guðrún Pálína hefðu sagt um svona orðalag.
Skildu eftir svar