«

»

Molar um málfar og miðla 765

Viðtal Egils í Silfrinu í gær við írska prófessorinn dr. Kirby frá háskólanum í Limerick var með athyglisverðasta efni sem Molaskrifari lengi hefur séð í Ríkissjónvarpinu. Takk fyrir það, Egill. Þar kom ótrúlega margt athyglisvert fram um hvað er líkt og ólíkt kreppu og hruni í Írlandi og á Íslandi. Eftirtektarvert hvernig írskir kjósendur refsuðu flokknum sem í áratugi bar höfuð og herðar yfir aðra flokka þar í landi og hafði alla þræði spillingarinnar í hendi sér. Flokkurinn var nánast þurrkaður út. Hér halda kjósendur bara áfram að styðja aðalhrunflokkana Íhald og Framsókn eins og ekkert hafi í skorist. Það er fengur að því að fá þennan írska fræðimann til kennslustarfa við Háskóla Íslands. – Fyrr í þættinum var rætt um formannskjörið í Sjálfstæðisflokknum. Það var huggulegt rabb um ekki neitt því eins og Stefanía Óskarsdóttir réttilega benti á er þetta formannskjör á landsfundinum um næstu helgi lítið annað en einskonar pólitísk fegurðarsamkeppni.

Í yfirliti sexfrétta Ríkisútvarpsins (10.11.2011) var sagt: Af hverju allt fór handaskolum. Málvenja er að segja að eitthvað hafi farið í handaskolum. Þegar allt fer í einhverja vitleysu eða ringulreið skapast. Í fréttinni sem þetta átti við hafði Gíslí Kristjánsson í Osló þetta alveg rétt. Í fréttatímanum var einnig sagt að refsingar hefðu engan árangur borið. Eðlilegra hefði ef til vill verið að segja að refsingar hefðu engin áhrif haft.

Bæði varnarlega og sóknarlega hefur gengið hörmulega hjá þeim sagði sá sem lýsti handboltaleik í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn (13.11.2011). Málfarslega er heldur ekki allt eins og best verður á kosið í Ríkissjónvarpinu.

Úr mbl.is (12.11.2011): Sólheimajökull er erfiður yfirfærðar og landslagið meðal annars svart af ösku. Hér hefði verið betra að segja, til dæmis: Sólheimajökull er erfiður yfirferðar og svartur af ösku.

Við erum að vinna okkar verk og erum að koma í veg fyrir að hlutir sem búið er að setja mikla peninga í skemmist ekki, bætir Árni við. Þetta er úr frétt á mbl.is (09.11.2011) Ekki verður sagt að skýr hugsun sé að baki þessum ummælum, en sá sem rætt var við er kennaramenntaður alþingismaður.

Verkfæri eru geymd í verkfæraskápum. En eru starfsmenn geymdir í starfsmannaskápum sem sífellt er verið að auglýsa í Ríkisútvarpinu?

Mbl.is (11.11.2011): … en Lýsing framkvæmdi vörslusviptingu á bíl eiginkonu hans fyrir mistök í morgun. Enn eitt dæmi um hinn nýja kansellístíl. Starfsmenn Lýsingar tóku bíl konunnar.
Í dagskrárauglýsingu á sunnudagsmorgni á Rás tvö var auglýstur þátturinn Virkir morgnar á Rás tvö. Auglýsingin var eiginlega ekki á íslensku. Hún var ein sletta. Makalaust að umsjónarmenn þessa þáttar skuli enn ganga lausir í Efstaleiti. Það ætti að minnsta kosti að gæta þess að þei komist ekki inn í hljóðstofur. Vonandi verður þeim gefið frí á degi íslenskrar tungu 16. nóvember.
Meðal þess sem Molaskrifari reynir að missa ekki af á Rás eitt er tónlist úr hljóðstofu snemma á laugardagsmorgnum. Þar er smekkvísi í tónlistarvali og kynningum nánast óbrigðul.
Frá Agli (12.11.2011): ,,Þetta JARÐAR við einelti, sagði forsvarsmaður Players í sjónvarpsviðtali í kvöld. Það jaðrar hins vegar við klámdýrkun á staðnum. Og … á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun, sagði lögreglumaður að það væri mikill styrkleikur á eiturlyfjunum.” Fréttirnar af þessu klámrugli voru einstaklega ógeðfelldar, en það var gott hjá fréttastofunum að vekja athygli á þessum sóðaskap.
Í íþróttafréttum í áttafréttum Ríkisútvarpsins (12.11.2011) var sagt: Sjötta umferðin í úrvalsdeildinni í körfuknattleik lauk … Af hverju les enginn fréttahandritin yfir áður en fréttirnar eru lesnar fyrir okkur? Sjöttu umferðinni lauk, ekki sjötta umferðin. Í sama fréttatíma var sagt í veðurlýsingu: Hiti mældist víða tólf stig á Vesturlandi en þrír til fimm norðanlands. Betra hefði verið: .. en þrjú til fimm stig norðanlands.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Höfuðábyrgð bera íhald og Framsókn.og komast aldrei undan því. Samfylking kom seint inn á og lék illa þegar allt var komið í óefni. ISG vildi öllu fórna til að komast í stjórn. Tækist það ekki væru dagar hennar á foringjastóli taldir. Verst léku þó Samfylkingarmenn sem sáu til þess að GHH yrði einn dreginn fyrir pólitískan dóm en þeirra foringi slyppi. Það var reginhneyksli.

  2. GlG skrifar:

    Bara tveir Hrunflokkar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>