Oft er gott og áhugavert efni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Stundum mjög gott, ekki síst á stundum er kafað er ofan í umdeild mál. Viðtal og umfjöllun um systurnar ungu sem haldnar eru sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi (11.11.2011) var gott efni. En í sama þætti var viðtal við tvo leikara, svokallaða uppistandara sem var svo dæmlaust langdregin og ófyndin auglýsing um sýningu sem þeir eru með í Gamla bíói að með ólíkindum var. Sjálfsagt eru þeir félagar hinu ágætustu listamenn,ekki skal það dregið í efa en þetta hallærislega framlag Kastljóssins var ekki beinlínis hvatning til nokkurs manns um að gera sér ferð til þess að horfa á þá.
Dyggur Molalesandi sendi eftirfarandi sem hér er birt í heild:
,,Á mbl.is (8.11.11): „Breskur orrustuflugmaður lét lífið í dag þegar hann skaut sér út úr orrustuþotu sem hann flaug á meðan hún var enn á jörðinni.“ Einstaklega klúðurslegt orðalag. Blaðamaður hefði betur sagt að flugmaðurinn lét lífið þegar hann skaut sér út úr orustuþotunni meðan hún var enn á jörðinni. Auk þess er orustuflugmaður og orustuþota með einu r-i skv. rittilfinningu minni, ekki orrustuflugmaður eða orrustuþota. Orðið orusta kann þó að vera eitt af þeim orðum í málinu sem hafa mismunandi stafsetningu, sbr. einnig skrímsli-skrýmsli, skrítinn-skrýtinn, Krísuvík-Krýsuvík. Hvað segir þú Eiður?” Eiður svarar: Stafsetningarorðabókin segir tvö r í orrusta, en hinn rithátturinn er svo sem einnig vel kunnur. Báða rithættina er að finna á vef Árnastofnunar um beygingar í íslensku nútímamáli.
Áfram heldur Molaalesandi: ,, Á mbl.is (8.11.11) er frétt með fyrirsögninni „Stækkar brjóstin um heila skálastærð á mánuði“. Mér fannst þetta undarleg fyrirsögn og vakti spurningu um það hvort brjóstin myndu þá stækka um fjórar skálarstærðir á fjórum mánuðum, þar sem hugtakið „á mánuði“ vísar gjarnan til áframhaldandi ferils, sbr. einnig „á ári“. Við nánari athugun kom í ljós að fréttin fjallar um undraefni, sem hefur þessi brjóstastækkandi áhrif, en fyrirsögnin er villandi. Miðað við innihald fréttarinnar hefði fyrirsögnin verið betri þannig: „Stækkar brjóstin um næstum skálarstærð á einum mánuði.“
Uppistaða fréttarinnar var þessi: „Serumið Bust Fix gæti mögulega þýtt endalok fylltra brjóstahaldara og kostnaðarsamra lýtaaðgerða en það er nýtt líkamsserum sem getur stækkað brjóstin um allt að ¾ hluta skálastærðar á einungis fjórum vikum. Þessi meðferð, sem hefur fengið viðurnefnið „brjóstastækkun úr túbu“, virkar þannig að serumið örvar myndun og geymslu náttúrulegra fitufrumna í brjóstunum og eykur stærð þeirra.“
Hér er vert að staldra við þrjú atriði:
1. Orðskrípið „serumið“ hefur verið að ryðja sér til rúms á íslenskum samskiptavefum, bæði meðal almennings og innflytjenda húðsnyrtivara. Þetta á að vera íslensk þýðing á enska orðinu „serum“ eða „blood serum“, þ.e. blóðvatn eða blóðvökvi án storknunarefna. Með ið-endingunni er vísað til ákveðins greinis. Við höfum mjög gott íslensk orð yfir þetta hugtak, þ.e. orðið „sermi“. Í stað þess að tala um serumið væri nær að segja sermið, í stað líkamsserum væri nær að segja líkamssermi. Íslenskir innflytjendur og fjölmiðlamenn á þessu sviði mættu gjarnan leggja sitt af mörkum til að festa þetta þjála og fallega íslenska orð í sessi fyrir húðvörur sem innihalda sermi.
2. Í fréttinni segir að brjóstin geti stækkað um allt að ¾ hluta skálarstærðar á einungis fjórum vikum. Það er ekki sama og heil skálarstærð eins og segir í fyrirsögninni. Auk þess er gert ráð fyrir heildarvirkni efnisins á fjórum vikum, en ekki áframhaldandi virkni „á mánuði“.
3. Ævinlega er talað um skálarstærð (með r-i) og vísað til kvk-orðsins „skál“. Í fréttinni er hins vegar talað um skálastærð, sem vísar til kk-orðsins „skáli“, en það er væntanlega ekki það sem vakti fyrir blaðamanni.
Fréttin var mun lengri og ítarlegri og í raun auglýsing fyrir viðkomandi vörutegund, eins og hún væri skrifuð af seljanda vörunnar. Hvaða erindi á það inn á fréttamiðil? Á viðkomandi blaðamaður persónulegra hagsmuna að gæta?¨
Ekki getur Molaskrifari svarað því en þakkar þennan ágæta pistil.
Skildu eftir svar