«

»

Molar um málfar og miðla 782

Það er rétt sem Halldór Halldórsson blaðamaður segir á fésbókinni að þessi fyrirsögn úr Fréttatímanum (02.12.2012) er að líkindum fyrirsögn ársins: Konur bundnar nálægt klósetti í biðröð sem sífellt lengist . Molaskrifari sá fyrir sér langa röð bundinna kvenna sem biðu einhvers. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að verið er að segja frá því að bið eftir legsigsaðgerðum sé löng og lengist sífellt. Konur sem bíði eftir aðgerð þurfi að eiga greiðan aðgang að salerni. Ótrúlegt klúður.

Hreiðar sendi eftirfarandi úr mbl.is (02.12.2011): ,,Á www.mbl.is í dag stendur: …breska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Þar segir að í yfirlýsingu, sem ríkisstjórn landsins sendi frá sér, komi fram að hún hafi samþykkt að giftast manninum sem nauðgaði sér. Mér leikur forvitni á að vita hvernig maðurinn fór að því að nauðga sér. Þetta á auðvitað að vera ..nauðgaði henni . Molaskrifari bætir við: Villur af þessu tagi því miður of algengar.

Molavin sendi eftirfarandi ádrepu (02.12.2011): ,,Undirfyrirsögn á dv.is í dag: „Hin grunaði yfirheyrður í dag“
Það líður ekki sá dagur að helztu netmiðlar landsins birti þvílíkar ambögur að ekki verður hjá því komizt að álykta að ritstjórar og ábyrgðarmenn þessara miðla lesi ekki eigin miðla og hafi engan metnað fyrir þeirra hönd. Nýliðar virðast ráðnir til starfa án þess að nokkrar kröfur séu gerðar um íslenzkukunnáttu þeirra. Þegar að auki er litið til fréttavals, sem samanstendur í vaxandi mæli af enskuskotnu slúðri og persónulegum vangaveltum af bloggi eða fasbókarsíðum, þá neyðist maður til þess að álykta að íslenzk fréttamennska sé komin að fótum fram.
Þetta er afmarkað, íslenzkt vandamál og verður ekki afsakað með því að þetta sé heimsþróunin. Erlendir fjölmiðlar stunda enn fréttamennsku og þar er fagmennskan í heiðri höfð. En eitthvað hefur gerzt á Íslandi, sem er í ætt við það hrun, sem varð í fjármálum þjóðarinnar; metnaðarleysi, óvandvirkni og andleg auðn eru orðin einkenni fjölmiðla, jafnt ljósvaka-, prent- og netmiðla.
Það er misskilningur að halda því fram að hér sé á ferð eðlileg þróun, sem verði að fara sínu fram. Við erum ein um þetta.” Molaskrifari bætir við: Því er þetta hverju orði sannara.

Það hefur stundum verið sagt hér í Molum að með hæfilegri gamansemi sé stundum hægt að hafa lúmskt gaman af Mogga. Í pólitískum skrifum blaðsins og oft í fréttflutningi ríkir hér kreppa og hvergi sér til sólar úr höllinni í Hádegismóum við Rauðavatn. Stundum birtast þó fréttir sem bera það með sér að hér er hreint ekki sú kreppa sem Moggi vill vera láta. Þannig voru lesendum fluttar fréttir af því ( 03.12.2011) að snjallsímar og spjaldtölvur seldust vel, – kosta oft á annað hundrað þúsund krónur og þess væru dæmi að fólk keypti sjónvarpstæki sem kostuðu 800 þúsund krónur. Þá var okkur líka sagt að salan væri að nálgast svipað stig og var fyrir hrun og að þúsundum saman flykktust Íslendingar í innkaupaferðir til Bandaríkjanna. Það er alveg ný hagfræði hjá Mogga að þetta séu sérstök kreppueinkenni.
Það gleymist hinsvegar í þessari umræðu að það hefur alltaf verið til fólk og fjölskyldur á Íslandi sem hafa átt erfitt, haft úr litlu að spila og ekki getað gert sér og sínum mikinn dagamun um hátíðarnar. Það hefur bara ekki verið talað mikið um það fyrr en núna. Við eigum að hugsa til þessa fólks á aðventunni og sýna það í verki til dæmis með því að styrkja Mæðrastyrksnefnd eða Hjálparstofnun kirkjunnar.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Má ég minna á aðra fyrirsögn úr Morgunblaðinu sem gæti líka verðskuldað titilinn „Fyrirsögn ársins“
    Flutt var frétt þess efnis að það yrði sífellt algengara að lík væru brennd . Fyrirsögnin var svona:

    „BÁLFARIR AÐ VERÐA HEITASTAR Í ÚTFÖRUM “

    Býður einhver betur ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>