«

»

Molar um málfar og miðla 781

Undarlegt er að fréttamönnum skuli takast að ruglast á forsetningum með staðaheitunum Akranesi og Borgarnesi. Við tölum um að fara upp á Akranes og upp í Borgarnes. Þetta hefur lengi verið fast málinu og engin ástæða til að breyta því. Í frétt klukkan sex að morgni í Ríkisútvarpinu (01.12.2011) var talað um lögregluna í Akranesi. Þetta leiðrétti þulur svo í sjö fréttum, greinilega í lestri því hann hikaði aðeins áður en hann talaði um lögregluna á Akranesi Í áttafréttum var svo talað um lögregluna á Borgarnesi. Undarlegt. Þetta er nefnilega ekkert flókið, Á Akranesi. Í Borgarnesi.
Í framhaldi af þessu, fyrst minnst er á Borgarnes – þá kemur hér vísa sem vinur Molaskrifara sendi honum á dögunum. Vísan er eignuð framhaldsskólakennnara sem orðinn var langþreyttur á að leiðrétta málfar nemenda sinna. Vísan er svona:
Ekki málið er það mar
að aka þér til Borgnesar.
Jeldú getið húkkað far
hinn daginn til Selfossar.

Egill sendi eftirfarandi: (01.12.2011): ,,Dagur íslenskrar músíkar, sagði Andri Freyr á Rás 2 nú áðan. Uss!” Ríkisútvarpið hefur alveg sérstakt dálæti á þessum manni sem er ekki vel máli farinn, að ekki sé nú fastar að orði kveðið. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ætti að ættleiða hann, að minnsta kosti frá klukkan 09 00 til 12 00.

Umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö ættu að huga að beygingu heitis götunnar sem nefnd er Miklabraut (02.12.2011). Verið var að ræða um bíla sem væri illa búnir til aksturs í snjó og hálku: Ég sá einn á Miklabrautinni í gær. Miklabraut, um Miklubraut frá Miklubraut til Miklubrautar. Það er líka hægt að orða það sem átt er við öðru vísi en að segja um Gunnar Gunnarsson rithöfund að hann hafi verið örlítið að flörta við nasistann. Ríkisútvarpið á að gera meiri kröfur en þetta til þeirra sem trúað er fyrir umsjón morgunþátta. Í lokin: Það er óboðlegt að segja ítrekað hljóstin , þegar segja hefði átt hljómsveitin.

Í fréttum Ríkissjónvarps (01.12.2011) var talað um viðskipti sem nema á annað hundrað milljarða króna. Molaskrifari hefði sagt: Viðskipti sem nema á annað hundrað milljörðum króna.

Kostnaður fangelsis ræddur segir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (02.12.2011). Hér hefði farið betur á því að tala um kostnað vegna fangelsis eða kostnað við fangelsi.

Framlag Ríkisútvarpsins til málvöndunar var á sínum stað á föstudagsmorgni á Rás tvö (02.12.2011). Slúðurfréttaritarinn í Los Angeles talaði þrisvar sinnum um kanselleraða sjónvarpsþætti. Yfirmenn í Efstaleiti geta verið og eru líkast til afar stoltir af þessu vikulega menningarframlagi stofnunarinnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>