Í morgunfréttum Ríkisútvarps var talað um mikla vinnustöðvun í Bretlandi (30.11.2011). Að mati Molaskrifara hefði verið eðlilegra að tala um víðtæka vinnustöðvun. Í frétt Ríkissjónvarps sama dag var réttilega talað um umfangsmikla vinnustöðvun.
Ritsnilldin á vefnum pressan.is bregst ekki þennan dag frekar en aðra daga (30.11.2011): Hannes segir alla frjálst að segja sína skoðun, en segir nafnleysið segja margt um þá sem halda síðunni úti. Hér ætti að standa: Hannes segir öllum frjálst að segja … Bæta má við að nafnleysið segir einnig sitt um sóðavefinn amx.is sem nefndur Hannes hefur ítrekað verið bendlaður við.
Móðurmálskunnáttu þeirra sem semja auglýsingar er stundum ábótavant. Í stórri auglýsingu á baksíðu Fréttablaðsins (30.11.2011) fyrir fyrirtækinu Rekkjunni stendur: Fyrstu fimm fjölstillanlegu hjónarúmin sem seld eru í dag fylgir iPAD 2. Hér hefði átt að standa: Fyrstu fimm fjölstillanlegu hjónarúmunum sem seld eru í dag fylgir iPAD2. Óafsakanleg vankunnátta í meginreglum íslenskrar málfræði hefur stýrt penna þess sem þessa auglýsingu samdi.
Það er engu líkara en búið sé að gera það útlægt úr fréttaflutningi að segja í fyrra sumar. Þess í stað er sífellt sagt síðasta sumar (enska: last summer) eins og gert var í sexfréttum Ríkisútvarpsins (30.11.2011). Það er ekki breyting til bóta.
Í þróttafréttamaður Ríkissjónvarps var í fréttum (30.11.2011) að segja frá knattspyrnuliði (aldrei þessu vant) sem hafði vegnað vel , leikið vel, sýnt góðan leik. Hann sagði að liðið hefði leikið á als oddi. Molaskrifara finnst þetta orðalag orka tvímælis því það að leika á als oddi er ekki að leika vel, heldur það að vera glaður og reifur , leika við hvern sinn fingur.
Hvað á varaformaður Framsóknarflokksins við þegar hann segir í ræðustóli þingsins að forsætisráðherra sé að gefa fólki fingurinn ?
Egill spyr (30.11.2011): ,,Gylfi Arnbjörnsson sagði í tvígang, í útvarpsviðtali á Rás 2: Við þurfum að fara í gegnum saumana á þessu. Ég lærði nú að menn færu „ofan í saumana“ á einhverju. Hefur það eitthvað breyst?” Ekki hefur Molaskrifari haft neinar fregnir af slíkri breytingu. Egill spyr einnig: ,,Hvernig stendur á því að auglýsingaþulur fyrir Ölgerðina þarf að segja: Íjils og nota sterkan Í-framburð í stað Ei-framburðar? Þetta ber vott um metnaðarleysi fyrirtækisins og auglýsingastofunnar sem lét gera auglýsinguna.” Það er víða pottur brotinn, Egill, þegar kemur að málfari og málnotkun hjá auglýsingastofum. Þar er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé, – en auglýsingamenn þurfa að vanda sig meira.
Dæmi um vonda auglýsingu er að finna í Bókatíðindum 2011. Þar er á bls. 129 auglýsing frá fyrirtækinu Office One. Þar segir: Verslaðu jólagjafirnar þegar þér hentar. Hér ætti annaðhvort að standa. Verslaðu þegar þér hentar , eða: Kauptu jólagjafirnar þegar þér hentar. Að versla jólagjafir er vont mál, en Molaskrifari minnist þess að hafa séð þessa sömu ambögu frá þessu sama fyrirtæki áður. Svo segir: Opið 24 tíma. Ólíkt betra væri: Opið allan sólarhringinn. Eitt er víst. Molaskrifari mun ekki leggja leið sína í verslunarerindum í þetta fyrirtæki. Egill benti á eftirfarandi (01.12.2011): ,,Í auglýsingu Slippfélagsins er sagt: Viltu breyta um lit á stofuna … ?, Furðulegt málfar.” Það má með sanni segja. Í Garðapóstinum (01.12.2011) var hinsvegar góð auglýsing frá versluninni Víði. Þar stóð: Víðir – góð búð gott verð. Maður er orðinn svo vanur að sjá orðinu verð misþyrmt með fleirtölunotkun að það gladdi gamalt málvöndunarhjarta að sjá orðið verð rétt notað!
—
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
08/12/2011 at 21:08 (UTC 0)
Rétt athugað, Sveinn.
Sveinn Magnússon skrifar:
08/12/2011 at 20:53 (UTC 0)
Ég hnýt oft um hverning fjallað er um Bretlandseyjar. Eftir því sem ég best veit ber að tala um á Englandi, í Wales og á Skotlandi. Þessi tilvísun „í Bretlandi“ er að mínu mati einhver skortur á þekkingu um skipulag Bretlandseyja.
Eiður skrifar:
02/12/2011 at 22:34 (UTC 0)
Makalaust!
Emil Ragnar Hjartarson skrifar:
02/12/2011 at 21:20 (UTC 0)
Tvær stórkostulegar fyrirsagnir eru á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag. Þær eru:
„HEF BULLANI ÞOLINMÆÐI“ Þetta er haft eftir þjálfara en óþarfi að gera að fyrirsögn.
Hin fyrirsögnin er ; STURLUÐ YFIRVEGUN Á ÖGURSTUNDU.—–fyrr má nú gera að gamni sínu.