Guðbrandur sem oft gaukar efni að Molum sendi eftirfarandi (03.12.2011): ,,Bleikjuveiði á veituleið Blönduvirkjunar er að meðaltali fimm til átta sinnum minni en í viðmiðunarvötnum á sömu slóðum. Fiskurinn er jafnframt mun minni vegna breytinga á æti.
Þetta er upphaf á frétt á visir.is í morgun. Ég er ekki sérmenntaður í stærðfræði, en veit þó að rökhyggja er undirstöðuatriði í þeim göfugu vísindum. Að þessu sögðu þykir mér óhætt að minnast á að mér finnst óþægilegur sá háttur þeirra sem segja og skrifa fréttir að margfalda niður á við með þessum hætti. Þetta er þó orðin nánast regla og ég veit að ansi mörgum fleirum en mér þykir þetta ekki heppilegur framsagnarmáti.” Guðbrandur biður um álit Molaskrifara á þessu. Molaskrifari játar að hann velkist nokkuð í vafa , finnst ekki óeðlilegt að segja að eitthvað sé margfalt minna en eitthvað annað sem miðað er við. Hvernig ætti annars að orða þetta? Molaskrifari játar jafnframt að hafa aldrei verið sterkur á svellinu þegar að stærðfræðinni kemur og er það heldur vægt orðað. Hvað segja lesendur um þetta orðalag sem Guðbrandur vitnar til ?
Óttalega hafa þeim verið mislagðar hendur sem samdi þessa fyrirsögn á dv.is (03.12.2011): Segja fjölskyldumeðlim hafa dáið út af máltíð í flugvél. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta.
Það var ágætlega orðað í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.12.2011) að ýmsum hefði skrikað fótur í hálkunni sem fengið hefðu sér í aðra tána kvöldið áður! Það var líka góð tilbreyting að fá fréttir frá Færeyjum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og í kvöldfréttum sjónvarps sama dag. Stundum finnst Molaskrifara eins og Bogi Ágústsson sé eini fréttamaðurinn sem veitir Færeyjum og Færeyingum athygli og segir fréttir þaðan.
Áskell sendi eftirfarandi (03.12.2011): ,,Í frétt á visir.is segir að Kolaportinu verði lokað í allt að átján mánuði á næsta ári vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda í Tollhúsinu. Þetta er svolítið sérkennilegt orðalag. Í árinu eru 12 mánuðir og það væri eðlilegra að segja að Kolaportinu yrði lokað í átján mánuði frá og með einhverjum tilteknum mánuði á næsta ári.” Molaskrifari þakkar sendinguna og bætir við að orðalagið beri vott um hugsunarleysi og vissulega er það sérkennilegt.
Ágætur fjölmiðlamaður sendi Molum eftirfarandi (03.12.2011): ,, Í pistli Íslandsbanka er talað um verðbólguvæntingar og þetta er tekið upp af fjölmiðlum mjög víða. Væntingar tengjast orðinu von; ég hef aldrei heyrt nokkurn einasta mann vonast eftir verðbólgu. Talað var hér áður fyrr um verðbólgubál og –draug – og þannig mætti áfram telja. Þetta er kórvilla í málnotkun, skrifuð af bankamönnum sem skilja ekki alveg samhengi orðsins. Þetta verður að leiðrétta. Rétt væri að tala um reikna með verðbólgu, búast við og svo framvegis”. Molaskrifari þakkar sendinguna og réttmæta ábendingu.
Í lokin kemur hér sending frá Áskeli (03.12.2011) en hann segir: ,,Ég skil ekki hvernig fréttamaður Pressunnar getur látið eftirfarandi frá sér fara: Forseti Afganistan hefur látið lyfta fangelsisdómi yfir konu sem sat inni fyrir ,,þvingað framhjáhald“. Fólk óttast afleiðingar lyftingarinnar, en líklegt þykir að konan muni nú giftast nauðgara sínum.
Það hefur aldrei tíðkast hér á landi að tala um að lyfta fangelsisdómi hvað þá að ræða um „afleiðingar lyftingarinnar“. Manni verður flökurt við að sjá svona endemis þvælu.” Takk fyrir þetta Áskell. Þetta er með endemum. Það eru greinilega ekki gerðar neinar kröfur um móðurmálskunnáttu til þeirra sem skrifa fréttir á pressan.is. Útkoman er eftir því.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
07/12/2011 at 18:24 (UTC 0)
Falls er von af fornu tré, þótt margur eigi sér einskis ills von.
Það er sem sagt ævagömul hefð fyrir því í voru máli að mega eiga von á illum tíðindum.
Þór Jónsson skrifar:
05/12/2011 at 08:27 (UTC 0)
Ég vænti mér einskis góðs af verðbólgu en vil heldur hafa verðbólguvæntingar en vera dauðvona.
Gunnar Jónsson skrifar:
04/12/2011 at 23:34 (UTC 0)
Sammála Guðbrandi. Veiðin hefur minnkað og er núna fimmtungur eða áttundi partur þess sem áður var.