«

»

Molar um málfar og miðla 785

Áskell sendi Molum þetta (04.12.2011): ,,Á mbl.is er stutt frásögn um ferð Halldóru Geirharðsdóttur, leikkonu, til Úganda. Fyrirsögnin er þessi: Steig inn í hræðilegar aðstæður. Um það bil 20 orðum síðar stígur hún aftur inn í hræðilegar aðstæður. Í lok fréttarinnar stígur hún í þriðja skipti inn í hræðilegar aðstæður. Í beinni tilvitnun segir Halldóra að hún hafi aldrei hitt … fólk sem var að koma út úr stríðsátökum. Satt best að segja þá finnst mér hræðilegt að lesa svona texta.” Molaskrifari tekur undir að ekki er hér góður texti á ferð.

Lesandi sendi eftirfarandi (05.12.2011): ,,Í fréttum Bylgjunnar (kl. 15:00 þann 2. desember) mátti heyra fréttalesara segja hátt og snjallt: Miklir komplexar eru present í pólítíkinni í Seltjarnarnesi. Mógúll bæjarins segir alla vera sérhlífna eiginhagsmunasteggi. Réttara væri að tala um vandamál í stað komplexa, að eitthvað sé til staðar frekar en að það sé present og um öldung fremur en mógúl. Þá er orðið sérhagsmunaseggur til en eiginhagsmunasteggur ekki.” Þetta er auðvitað með ólíkindum. Er þó ónefnt að segja í Seltjarnarnesi. Fólk sem talar svona á ekki að fá að koma nálægt hljóðnemum.

Farmiðasalinn Iceland Express heldur sig við það að væntanlegir viðskiptavinir séu heldur vitgrannir. Félagið auglýsir (05.12.2011) flugferðir til útlanda á spottprís, lægra verði en áður hefur staðið til boða. Í frétt í Morgunblaðinu segir að samkvæmt upplýsingum frá félaginu sé þetta lága til komið vegna stærðarmunar á nýjum og gömlum flugvélum. Nýju vélarnar geti flutt nokkru fleiri farþega en þær gömlu. Ef farmiðasalinn Iceland Express skipti við flugfélag sem notaði 350 manna breiðþotur yrði farið ókeypis eða farþegum borgað fyrir að ferðast samkvæmt þessari hundalógikk.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (05.12.2011) var sagt frá þakleka í Tollhúsinu í Reykjavík og sagt: .. því sé ljóst að eitthvað viðhald þurfi að fara fram. Þetta finnst Molaskrifara ekki ákjósanlegt orðalag. Betra hefði verið segja að ljóst væri að gera þyrfti við þakið.

Í þættinum Virkum dögum á mánudagsmorgni (05.12.2011) sagðist stjórnandi hafa farið út í búð og keypt eitthvað svona beisik (enska: basic). Í íslensku Ríkisútvarpi á að tala íslensku. Er enginn sem getur tekið í hnakkadrambið á svona liði?

Egill sendi eftirfarandi (05.12.2011): ,,Í viðtali á Rás 2, við Jakob F. Magnússon, þar sem hann talaði um hve gaman hann hefði af spuna, sagði Andri Freyr: En í Miðborgarstofu, þú færð ekkert að spuna neitt þarna, er það? Þarna hefði hann átt að tala um að spinna. Og hann hélt áfram: Og svo er komið við í Mál og menningu og fengið sér kaffibolla. Þetta er smábarnamál.” Satt segirðu, Egill. Ríkisútvarpið er greinilega hætt að gera kröfur um að fólk sem þar stýrir þáttum sé vel máli farið.
Einn af íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarps sker sig úr hvað málfar varðar. Nýlega (04.12.2011) Nýlega talaði hann um eigin heimavöll. Nægir ekki að tala um heimavöll? Síðan sagði hann um leikmann: … var ískaldur er hann fagnaði markinu ef fagn skyldi kalla. Hvaða rugl er þetta eiginlega?

Gaman var að heyra frá því sagt í morgunþætti Rásar tvö (05.12.2011) að flatbakan , pizzan, væri upprunnin í borginni Napolí á Ítalíu á miðöldum. Þar hefði fátækt fólk bakað brauð og farið svo í ísskápinn …..! Það var og!

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Réttmæt ábending. Jarðarför ætti þetta að vera , – eki jarðaför.

  2. Gústaf Hannibal skrifar:

    Sá á ruv.is eftirfarandi fyrirsögn: „Jarðaför Speeds ekki auglýst“.

    Einhverjir hefðu sagt að jarðaförin færi fram í kyrrþey.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>