«

»

Molar um málfar og miðla 786

Einstæð uppákoma varð í þingsal þriðjudaginn 6. desember þegar Vigdís Hauksdóttir alþingismaður fór með fleipur og dylgjur í ræðustóli. Öðrum þingmanni Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttur, var nóg boðið. Siv fór í ræðustól og veitti flokkssystur sinni verðskuldaða hirtingu. Molaskrifari minnist þess ekki að svipað atvik hafi áður átt sér stað í þingsal.
Þeir sem horfðu á fréttir Stöðvar tvö þetta kvöld fengu að heyra þessi orðaskipti flokkssystranna í Framsókn. Ríkissjónvarpinu fannst þetta hinsvegar ekki fréttnæmt. Enn eitt dæmið um dómgreindarbrest ríkisfréttastofunnar í Efstaleiti.

Ármann sendi eftirfarandi (05.12.2011): ,,Á mbl.is mátti lesa fyrirsögnina: Bíll valt í Fífunni (5. desember 2011) en þegar fréttin er lesin kemur í ljós að bíllinn valt á aðrein frá Fífunni. Réttari fyrirsögn hefði verið Bíll valt nálægt Fífunni eða Bílvelta við Fífuna . Vitaskuld veit blaðamaður betur, þetta er dæmi um óvandvirkni en ekki vankunnáttu. Ekki boðleg vinnubrögð hjá mbl.is.
Vinsælasta frétt mbl.is í dag (5. desember 2011) birtist undir fyrirsögninni: Heldur hjónabandinu heitu í gegnum Skype . Þvílík ambaga. Að halda hjónabandinu heitu er léleg íslenska. Betra væri að tala um að halda ástareldinum logandi eða að rækta sambandið . Þá er Skype vitaskuld enskt heiti á samskiptaforriti sem á sér gott og gilt íslenskt nafn, Netsíminn. Blæs í glæður ástareldsins með hjálp Netsímans hefði verið betri fyrirsögn.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Gaman að sjá í fréttum Ríkissjónvarps (05.12.2011) að verið er að lengja flugbrautina á Vágaflugvelli í Færeyjum. Það kom hinsvegar ekki fram að brautarlengingin er að hluta vegna þess að í flugflota Atlantic Airways bætist ný Airbus 319 farþegarþota í mars á næsta ári. Núna notar félagið fjögurra hreyfla breskar þotur BAE 146 sem eru óhagkvæmar í rekstri og komnar nokkuð til ára sinna. Félagið sem dafnar vel undir stjórn Magna Arge á forkaupsrétt á annarri Airbus þotu sömu tegundar.

Í fréttum Stöðvar tvö (05.12.2011) var tekið svo til orða að kannað yrði hvort viðskiptin hefðu hugsanlega brotið lög. Viðskipti brjóta ekki lög. Þau geta hinsvegar brotið í bága við lög eða verið lögbrot.

Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Atkvæði eru greidd um frumvörp og þingsályktunartillögur. Atkvæðagreiðslan er hafin, segir þingforseti við upphaf atkvæðagreiðslu. Þetta er föst málvenja sem fjölmiðlar hafa ekkert umboð til að breyta. Í morgunútvarpi Rásar tvö (06.12.2011) sagði umsjónarmaður: Nú verur kosið um fjárlögin á morgun. Hann átti við að atkvæði yrðu greidd um fjárlögin á morgun. Hvar er nú málfarsráðunautur? Sama ruglið veður uppi (ásamt svo mörgu öðru) í Útvarpi Sögu. Þar er spurning lögð fyrir lesendur á vefsíðu stöðvarinnar (stjórnendur kalla það skoðanakönnun sem er rugl og rangnefni). Svo er spurt í síbylju í dagskránni: Ertu búinn að kjósa í dag ? Átt er við hvort búið sé að svara spurningunni á vefsíðunni.

Það er til dæmis um vinnubrögð í Útvarpi Sögu að í morgun (06.12.2011) sagði símadóni við útvarpsstjórann Arnþrúði Karlsdóttur um Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra: Steingrímur hagar sér eins og Hitler. Útvarpsstjórinn sagði ekki orð. Þagði bara sínu þunna hljóði. Þögn er sama og samþykki, segir gamalt íslenskt orðtak. Gerir fólk sér grein fyrir því hvað verið er að segja þegar einhverjum er líkt við Hitler?

Í Staksteinum Morgunblaðsins (06.12.2011) er Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra Bretlands kallaður gamall skrifstofumaður úr Brussel. Líklega verður mönnum lagt það til lasts í Mogga ef upp kemst að þeir hafi borðað í Brussel !

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Aldrei að gefast upp!

  2. Ari skrifar:

    Gaman frá því að segja (hmm…. nei, reyndar leiðinlegt) að Ómar gafst upp á því um daginn að reyna að leiðrétta amböguna „bílvelta varð“ http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1209294/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>