«

»

Molar um málfar og miðla 789

Úr dv.is (08.12.2011): Myndbirtingar Pressunar í gær virðast vera mjög afdrifarík,… Það væri synd að segja að þarna væru menn að vanda sig. Sama gildir um eftirfarandi setningu úr Morgunblaðinu (09.12.2011): Öllum ábendingar sé þó vel tekið og þeim haldið til haga. Prófarkalesarar óskast.

Ólafur sendi eftirfarandi (08.12.2011): ,,Mig langar að benda þér á eina línu í FB í dag á bls. 74.Textinn er við mynd af Laxness.
Halldór upplifði margt sem hafði mikil áhrif á hann á ferðalögum sínum.
Ég hefði viljað orða þetta næstum í hina áttina. ,,Á ferðalögum upplifði Halldór margt sem hafði áhrif á hann“
Það má líka sleppa þessu ,,sínum’’ því varla upplifði hann eitthvað á ferðalögum annarra”.

Eftirmálar umdeildra ummæla, segir í fyrirsögn á baksíðu DV (09.12.2011). Hér er ruglað saman eftirmála og eftirmálum. Eftirmáli er grein eða skýring í lok bókar. Eftirmál eru hinsvegar eftirköst eða vandræði sem hljótast eftir á vegna einhvers sem gert hefur verið eða ógert látið. Nokkuð algeng villa.

Staðfest: Karlmönnum eiga í erfiðleikum með þvottavélina. Hvaða heimilistæki kunna þeir að nota? Þessi snilldarfyrirsögn er af pressan.is (09.12.2011) Hvað kemur fólki til að skrifa svona? Hvað kemur miðlum sem þykjast vera marktækir til að birta svona?

Það er eftirtektarverk hve erlendar útvarps- og sjónvarpsstöðvar leggja sig í líma við að velja þuli og fréttamenn sem hafa það sem kallað er góðar útvarpsraddir. Þuli með þægilega rödd sem flytja talað mál vel. skýrt og skilmerkilega. Þetta heyrist vel í norrænu stöðvunum og BBC svo dæmi séu nefnd. Þessari reglu hefur lengi verið fylgt í Ríkisútvarpinu og þar eru margir prýðisgóðir þulir og fréttamenn. Undanfarin misseri er þó eins og slakað hafi verið á í þessum efnum. Til sögu hafa komið lesarar og fréttamenn með raddir sem ekki láta vel í eyrum. Það er ekki breyting til batnaðar.

Undirfyrirsögn á dv.is (10.12.2011): Egill Helgason segir fólk vilja ganga að fjölmiðlum dauðum. Hér hefur eitthvað skolast til. Talað er um að ganga af einhverjum dauðum, deyða einhvern , kála einhverjum. Það er ekkert til sem heitir að ganga að einhverjum dauðum.

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (10.12.2011) var sagt: yfirspilaði gestina á löngum köflum ( er hægt að undirspila í knattspyrnu?),Hvað er annars að yfirspila ? …. nokkrar hágæða markvörslur, markvarsla er eintöluorð, – ekki til í fleirtölu.

Þegar norska ríkissjónvarpið er með beinar útsendingar frá skíðamótum (11.12.2011) á báðum rásum veit maður að það er hávetur !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Þótt þér finnist athugasemdir vera hártoganir þá verðurðu að hafa forsendurnar réttar. Vel má vera að það „að ganga að einhverjum dauðum“ geti ekki, miðað við „viðurkennda“ og „viðeigandi“ (og þess má geta að gæsalappirnar notaði sá mæti málfræðingur Halldór Halldórsson, lærifaðir minn, um „rétt“ mál) málnotkun ekki þýtt „að drepa einhvern“. En þú tókst fram að þetta málfar væri aldrei réttlætanlegt; væri ekki til. Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér. Menn sem vilja hafa vit fyrir öðrum, sem auðvitað getur verið góðra gjalda vert; á því til dæmis lifi ég, verða að vera nákvæmir og láta ekki hanka sig á smáatriðum.

  2. Eiður skrifar:

    Svo sannarlega er þetta hártogun, sem ekki er nokkur ástæða til að elta ólar við.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    „Það er ekkert til sem heitir að ganga að einhverjum dauðum.“
    Nú er ekki ætlunin að vera með hártoganir, en ertu viss um þetta? Nú sé ég dauðan mann og nálgast hann gangandi. Geng ég þá ekki að honum dauðum?
    Að sönnu drap ég hann ekki og gekk því ekki af honum dauðum, en hitt getur fyllilega staðist.

  4. Hlynur Þór Magnússon skrifar:

    Já, orðunum eftirmál (fleirtala) og eftirmáli er mjög oft ruglað saman. Það sama gildir um orðin áreiti og áreitni. Hvort tveggja þykir mér hvimleitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>