«

»

Molar um málfar og miðla 790

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.12.2011) var sagt frá árekstri við brúna á Blikadalsá á Kjalarnesi. Áin heitir Blikdalsá og hún hafði verið nefnd sínu rétta nafni í nokkrum fréttatímum á undan þessum. Ekki þarf að undirstrika mikilvægi þess að rétt sé farið með örnefni í fréttum. DV kallaði ána einnig Blikadalsá (12.12.2011) Ýmislegt þóttist Molaskrifari heyra í sjöfréttum Ríkisútvarps að morgni mánudags (12.12.2011) sem betur hefði mátt fara. Meðal annars taldi hann sig heyra rangt farið með örnefni. Ekki hefur tekist að sannreyna þetta með því að hlusta á þennan fréttatíma á vef Ríkisútvarpsins. Kannski er það klaufaskapur. Ef til vill eru aðrir klókari í netleit.

Meira um morgunfréttir Ríkisútvarps (12.12.2011). Forsætisráðherra ( First Minister ) Skotlands var ítrekað kallaður Alex Salmon eða Alex Salmond framborið eins og það er ritað. Ráðherrann heitir vissulega Alex Salmond en eftirnafn hans er í BBC borið fram sammon, alveg eins og laxinn, salmon. Meðal þess fyrsta sem fólk lærir um enskan framburð er að í heiti þessa göfuga fisks er l-inu sleppt í framburði.

Einar sendi eftirfarandi athugasemd (11.12.2011): ,, Í Sandkorni dv.is (11.12.11): Sú tíðindi að Jón Baldvin Hannibalsson ætli að halda námskeið um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á vegum Samfylkingarinnar vakti nokkra athygli og viðbrögð í vikunni. Þetta er eitt versta tilfelli af málvillu, sem ég hef séð lengi. Sú tíðindi – já, það eru mikil tíðindi þegar þannig er haldið á penna. Auðvitað á þetta að vera þannig: Þau tíðindi að JBH ætli að halda námskeið …. vöktu nokkra athygli.

Í öðru Sandkorni dv.is (10.12.11):Jón Baldvin er vitanlega mikill karakter, skörungur, sem var afar dómínerandi stjórnmálamaður. Er dagur íslenskrar tungu löngu liðinn hjá þessum ágæta fréttamiðli?” Já, hann er liðinn og er ekki einu sinni árlega hjá sumum ! Björn B. skrifaði einnig athugasemd við þetta í athugasemdadálk Mola.

Svo kemur hér enn ein góð sending frá Molavin (11.12.2011) ,,Lögreglan í bænum Cologne í Þýskalandi.. Þannig hefst frétt á visir.is. Ef fólk þekkir ekki borgina Köln í Þýzkalandi á það ekki að geta fengið vinnu við fjölmiðla. En í þessu liggur trúlega einn helzti vandi íslenzkra fjölmiðla í dag; nýliðar þurfa ekki að sanna hæfni sína áður en þeir eru ráðnir til starfa.” Mikið rétt, félagi Molavin.

Húsasmiðjan ( enn einu sinni) og auglýsingadeild Ríkisútvarpsins (enn einu sinni) fá skömm í hattinn fyrir auglýsinguna. Taxfree af öllum vörum.. Hvar er margumtöluð máklstefna Ríkisútvarpsins. Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins? Hefur hann látið af störfum?

Fyrir nokkuð löngu var sagt í þessum Molum að vísan ágæta og landskunna:
Hver er þessi eina á, sem aldrei frýs ….. væri ekki eftir Halldór Blöndal , alþingismann.
Hér var sagt að vísan væri eftir Pétur B. Jónsson sem lengi var starfsmaður Iðunnar á Akureyri. Studdist Molaskrifari þar við skrif sonar Péturs, Þorsteins Péturssonar sem segir föður sinn hafa ort þessa vísu og mörgum sé kunnugt um það Þessum fullyrðingum Þorsteins hefur Molaskrifari aldrei séð mótmælt. Um þetta má lesa í Morgunblaðinu 25. apríl 1996 og 18. mars 2000. Halldór hefur ekki tekið þessum ummælum mínum vel. Hann hefur tvisvar með einkar eftirminnilegum hætti sett ofan í við mig vegna þessara ummæla sem þó voru eftir öðrum höfð. Ég hef engan sérstakan áhuga á að troða illsakir við þennan gamla kunningja, – við hittumst fyrst veturinn 1947- 1948 í ylfingasveit í gamla skátaheimilinu, – bröggunum við Snorrabrautina. Ég hef heldur engan áhuga á að gera honum rangt til, – er raunar heldur hlýtt til hans. Dreg eindregin orð hans ekki í efa. Megi honum og hans fólki sem best farnast:
Hver er þessi eina á
sem aldrei frýs.
Gul og rauð og græn og blá
og gjörð af SÍS.

Halldór Blöndal orti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>