«

»

Molar um málfar og miðla 791

Molavin minnir okkur á að hún Bibba á Brávallagötunni stendur fréttavaktina alla daga. Hann vitnar í visir.is (11.12.2011): ,,Mennirnir fundnir heilir á höldnu
Gott að vita að þeir voru heilir á húfi. Vonandi komust þeir heim heilu og höldnu.” Ja, hérna !

Björn G. Björnsson sendi Molum eftirfarandi (12.12.2011): ,,Mikið er tönnlast á orðskrípinu lágvöruverðsverslun þessa dagana, m.a. í verðkönnunum opinberra aðila. Ég veit ekki hvaða vara það er sem hér er kölluð lágvara? Er það kannski léleg vara?
Orðinu -vöru- er algjörlega ofaukið í þessari samsetningu.
Hins vegar kannast ég við lágt verð og sjálfsagt að benda neytendum á hvar það er að fá. Er ekki hægt að fá menn til að útrýma þessu með sameinuðu átaki?
Kannski finnst mönnum óþjált að segja lágverðsverslun og kannski þarf að finna nýtt og betra orð? Ég sting upp á að nota orðið sparbúðir.” Molaskrifari þakkar gömlum samstarfsmanni góða sendingu og tekur undir tillögu hans . Hún er góð.

Egill sendi eftirfarandi (11.12.2011): ,,Já, þarna er talað íslensku, sagði íþróttafréttamaður á Stöð 2 nú áðan.”

Hér á … RÚV konuröddin leikur enn lausum hala í Ríkissjónvarpinu. Undarlegt að Ríkisútvarpið skuli tileinka sér það að tala um að efni sé flutt á Ríkisútvarpinu þegar föst málvenja er að tala um að eitthvað sé flutt í Ríkisútvarpinu ekki á Ríkisútvarpinu. Eitthvað sé sýnt í Ríkissjónvarpinu, – ekki á Ríkissjónvarpinu. Enn er auglýst eftir málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Hvað segir hann um þetta síbylju Hér … á Rúv með undarlegum áherslum ?

De Villepin í forsetann, segir í fyrirsögn á mbl.is (11.12.2011). Molaskrifari er íhaldssamur. Honum finnst ekki við hæfi að tala um að sá sem ætlar í forsetaframboð fari í forsetann. Að auki ætti að standa þarna de Villepin, ekki De Villepin.

Molaskrifara finnst það ævinlega misskilinn málvöndun þegar talað er um að fyrirtæki sem verða gjaldþrota fari á höfuðið. Þetta hefur til skamms tíma heitið á fara á hausinn og það er hreint ekkert athugavert við það orðalag.

Í endurteknum þætti í Útvarpi Sögu ( ekki á Útvarpi Sögu) var talað um þessa tvo tíma. Ekki var verið að tala um tvær klukkustundir. Heldur var verið að tala um tímana tvenna. Tvö tímaskeið þar sem aðstæður voru mjög ólíkar.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (12.12.2011) þar sem sagt var frá röskun á flugi á Gardermoen flugvelli í Noregi: Rignt hefur á flugvöllinn og frýs úrkoman um leið og hún sest, svo flugbrautin er ein glæra. Þetta er gott og gilt orðalag , en þarna hefði líka legið beint við að segja að flugbrautin hefði verið flughál!

Snjallir geta þeir verið fyrirsagnasmiðir á mbl.is (12.12.2011): Al-Quadealiðar sluppu í fangelsi. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að þeir sem þarna var sagt frá sluppu úr fangelsi, ekki í fangelsi. Á þessu er nokkur munur.

Nú er Dans,dans,dans, dekrinu lokið ( sem betur fer) í Ríkissjónvarpinu. Sannarlega væri gaman að vita hvað þessi dagskrárgerð kostaði. Fyrir utan eina milljón króna í verðlaunafé. Þeirri spurningum verður aldrei svarað. Slíkt kemur okkur áhorfendum ekkert við.
Hvernig væri nú að Ríkissjónvarpið efndi til annarrar keppni? Keppni ungra tónlistarmanna sem stunda nám í sígildri tónlist. Það þyrfti ekki eins íburðamikla og dýra umgjörð. Það þyrfti heldur ekki neina trúðleika eða skræki í kringum efnið. Danska sjónvarpið hefur sýnt og sannað að það er hægt að gera skemmtilega og áhugaverða þætti þar sem ungir tónlistarmenn leyfa okkur að njóta hæfileika sinna. En auðvitað er borin von að nefna þetta. Geri það samt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorgeir Tryggvason skrifar:

    Mig rak í rogastans að sjá þessa afgreiðslu þína á „Dans dans dans“. Frábær dagskrárgerð sem dró fram í dagsljósið fullt af hæfileikafólki sem áður var almennt ósýnilegt. Vel lukkaðir þættir þar sem tókst að sýna hlið við hlið klassískan ballett, götudans og samkvæmisdans.

    Rétt er hinsvegar að keppnisþáttur með klassískum hljóðfæraleikurum væri flott efni – og reyndar sé enga sérsaka ástæðu til að hljóðfæraleikarakeppni væri bundin við klassík. Dans, dans, dans hefur sýnt okkur að það er hægt að rjúfa heimskulega múra milli geira.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>