«

»

Molar um málfar og miðla 792

Þáttur Kastljóss Ríkissjónvarpsins (13.12.2011) um meinta markaðsmisnotkun Kaupþingsforkólfanna. var sannkölluð hrollvekja. Jóhannes Kr. Kristjánsson á hrós skilið fyrir þetta innslag. Að baki þessu lá greinilega mikil vinna og í lokin sló Sigmar hæfilega marga varnagla. En mörgum áhorfendum hlýtur að hafa verið brugðið. Boðað var framhald á þessari umfjöllun, – og koma þá hinir stóru bankarnir væntanlega einnig við sögu. En alltaf er það sama brennandi spurningin, – hvenær á að draga þá til ábyrgðar sem báru ábyrgðina á einkavæðingu bankanna, sem ,,gáfu” vildarvinum sínum þennan þjóðarauð? Hrunið hér má að stærstum hluta rekja til þess hvernig þáverandi ráðamenn einkavinavæddu ríkisbankana. Það vita allir sem vita vilja.

Þingmönnum lætur misvel að koma fyrir sig orði. Þar virðast þingmenn eins flokks vera í sérflokki, – eða þannig. Þetta eru óþekkjanleg vinnubrögð, sagði þingmaður Framsóknarflokks í fréttum Ríkisjónvarps (12.12.2011). Hann átti líklega við að vinnubrögðunum sem hann var að lýsa hefði hann ekki kynnst áður. Óþekkt vinnubrögð, vildi þingmaðurinn sagt hafa.

Hversvegna er ekki hægt að hafa borganöfn á veðurkortunum í veðurfréttum Ríkissjónvarpsins?

Molalesandi sendi eftirfarandi (12.122011) í tengslum við að hér var rætt um örnefni: ,,Líklega hefur það farið framhjá þér að Fréttastofa RÚV- Sjónvarps flutti Hrunastað niður í Flóa á dögunum- lesið þannig í þrígang af fréttalesara (PM). En var þó leiðrétt í fréttayfirliti- væntanlega hefur einhver hringt.” Þetta fór framhjá Molaskrifara. Oft er landafræðikunnátta þeirra sem skrifa fréttir ekki upp á marga fiska. Það sama gildir líklega um suma þeirra sem lesa fréttir.

Hvernig slys eruð þið að sjá? Svona spurði fréttamaður Stöðvar tvö lækni á bráðavakt Landspítalans (12.12.2011) . Hann mun hafa átt við hverskonar slys bæri helst að höndum eða hverskonar slys væru algengust.

DV slær því upp að frægur ,,mótmælandi” sem blaðið kallar sé að missa húsið sitt á nauðungaruppboð. Það er auðvitað slæmt. Hann hafi tekið lán ,keypt sér pallbíl og farið í utanlandsferð að sögn blaðsins. Er það ekki svo ef maður tekur lán gegn veði í húsinu sínu og notar lánið til að kaupa pallbíl og fara til útlanda, þá er maður að lýsa því yfir að maður sé reiðubúinn að skipta á húsinu og pallbílnum og utanlandsferðinni ef í harðbakkann slær? Annars veðsetti maður ekki húsið.

Farmiðasalinn Iceland Express auglýsir nú gjafabréf í gríð og erg. Molaskrifari segir ekki annað en að það þarf verulegt hugrekki til að gefa vinum og vandamönnum gjafabréf frá Iceland Express.

Tilviljanir geta stundum verið undarlegar. Fyrr í vikunni beið Molaskrifari þess að horfa á beina útsendingu úr neðri málstofu breska þingsins til að hlusta á breska forsætisráðherrann standa fyrir máli sínu vegna ákvörðunar hans í Brussel nokkrum dögum fyrr. Á meðan vafraði ég um rásir og lenti á bíórás á Astra-hnettinum þar sem John Wayne í Green Berets frá 1968 beið þess ásamt fallhlífarhermönnum að stökkva úr flugvél. Skipti strax á næstu rás. Þar var verið að sýna Objective Burma frá 1945 þar sem Errol Flynn beið þess ásamt fallhlífarhermönnum að stökkva út úr flugvél! Ómerkilegt kannski, en einkennileg tilviljun. John Wayne myndin fær algjöra falleinkum (BOMB) í kvikmyndahandbók Leonards Maltins. Gamla Burmamyndin með Errol Flynn fær þrjár og hálfa stjörnu sem þykir nokkuð gott í þeirri bók. Hvað skyldi tölfræðin segja um þetta?

Hverju á maður að trúa þegar misvísandi upplýsingar berast úr öllum áttum? Fimm þúsund Íslendingar fara til Boston á jólaföstu til að kaupa jólagjafir og hagsmunasamök velja spjaldtölvu (sem kostar 80 – 150 þúsund) jólagjöf ársins. Ekki merki um aukna misskiptingu segir félagsfræðiprófessor í sjónvarpsfréttum (12.12.2011) heldur sé þjóðin í sjálfsmyndarkreppu ??? Molaskrifari játar að hann skilur þetta ekki alveg. Talsmaður Hjálparstofnunar kirkjunnar segir að þeir sem hafi staðið illa standi nú verr. Framkvæmdastjóri OECD (samtök 34 iðnríkja) segir misskiptingu tekna aukast í flestum iðnvæddum ríkjum. Samfélagssáttin sé að byrja að rofna (,,The social contract is starting to unravel” Angel Gurria, Time 19.12.2011). Hverju á maður að trúa?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum við efni þessarar síðu eru vel þegnar en þær eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa. ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sturla Jónsson skrifar:

    Já það besta er að þetta voru sirka 3- 4 miljónir sem voru eftir enn nú vilja þessir !!!!!!!!! menn fá tæpar 15 miljónir Árni Páll hvnær fáum við almeningur afskriftir eins og vinnirnir þínir !!

    Guðni hvað er það þegar maður er búinn að borga 9 miljónir af 12.5 er það ekki að borga skuldir sínar og hver gefur Árna Páli það vald að gera mínnar þúsundir vinnustunda sem fóru í það vinna fyrir þessum 9 miljónum að engu bara spyr ??

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>