Framhaldssaga Kastljóss Ríkissjónvarpsins um starfshætti íslensku bankabófanna verður æ svakalegri. Í gærkveldi (14.12.2011) var það Landsbankinn. Í kvöld væntanlega Glitnir. Takk, Kastljós, fyrir að skýra þetta og setja í samhengi. Ef þetta lið sleppur við refsingar þá er ekkert réttlæti til. Við sjáum hvað setur. Svo þarf að ræða við fólkið sem trúði bófunum fyrir ævisparnaði sínum og tapaði aleigunni. Lífeyrisþegana sem þjónustufulltrúar á prósentum fengu til að taka sparnað sinn af innlánsreikingum og setja í ótrygga sjóði þar sem allt gufaði upp.
Í fréttum Ríkissjónvarps (13.12.2011) var pistill um lítil framlög íslenska ríkisins til íþrótta. Þessi frétt var mjög misvísandi, – jaðraði við fölsun. Þess var nefnilega að engu getið að íslenska ríkið hefur veitt íþróttahreyfingunni og tveimur aðilum öðrum (UMFÍ og Öryrkjabandalaginu) lögverndaðan einkarétt um langa framtíð til að reka lottó og getraunir, einhverja mestu peningavél sem starfrækt er á Íslandi. Íþróttahreyfingin á 46.67% í þessu fyrirtæki og hefur af því tugmilljóna tekjur. Einkaleyfið til að reka þetta jafngildir háu ríkisframlagi. Þessvegna var gefin alröng mynd af stöðu mála í frétt Ríkissjónvarpsins.
Úr mbl.is (15.12.2011): Konur frá Seyðisfirði þurfa að fara yfir tvo hæstu fjallvegi landsins til að fjölga sér,“ sagði Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem býr á Egilsstöðum. Svona orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt áður!
Það eru ekki heiðarleg vinnubrögð hjá fréttastofu Stöðvar tvo þegar fjallað er um fólksflutninga úr landi (14.12.2011) að nota til samanburðar annarsvegar tveggja ára tímabil og hinsvegar þriggja ára tímabil. Út úr því koma auðvitað meira krassandi tölur, en það gefur auga leið að það skekkir myndina.
Egill sendi eftirfarandi (13.12.2011): ,,Þorbjörg Marinósdóttir, sem var víst að senda frá sér þriðju bókina, kom í heimsókn á Rás 2 í morgun og mér blöskraði hve slæmt mál hún talaði.
Dæmi: Tríta mig í útlöndum.
Ég á sko alveg jólatöff í ár.
Trítar sig eitthvað í Danmörku.
Hann er frændi hans Stefán Mána.
Sjitt Og í kjölfarið sagði Andri Freyr: Og þá er komið að Hörpu Jónsdóttir.” Þarna , Egill, er allt á sömu bókina lært.
Úr mbl.is (13.12.2011): Sigmundur Fríðar Þórðarson íbúi á Þingeyri finnst nóg um og leitar nú eigendans. Halló, Moggi ! Eru menn illa fyrirkallaðir þessa stundina ? Það er engu líkara.
Til eru reglur um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu. Reglurnar eru undirritaðar af Páli Magnússyni útvarpsstjóra 1. maí 2008.
Í áttunda tölulið þessara reglna segir,,Öllum sem lúta þessum reglum er óheimilt að taka þátt í auglýsingum, kynningar- eða almannatengslastarfi fyrir aðra en Ríkisútvarpið”. Gott og vel. Molaskrifari sér samt ekki betur en dagskrárgerðarmaður sem nú er með fasta þætti fimm daga vikunnar á Rás tvö komi fram í kaffiauglýsingu fyrir Gevalia kaffi sem sýnd er í sjónvarpinu. (T.d. rétt fyrir seinni fréttir 12.12.2011) Kannski er þetta missýning. Kannski fer Molaskrifari mannavillt. En er það þannig með reglur í Ríkisútvarpinu að þær eru (eins og Málstefna Ríkisútvarpsins) gefnar út og birtar, en alls ekki ætlast til að unnið sé eftir þeim ? Sé þetta rangt er sjálfsagt að hafa það sem sannara reynist, en Molaskrifari sá ekki betur en þarna væri Ríkissjónvarpið að brjóta eigin reglur. Svo mikið er víst að þau ellefu ár sem Molaskrifaði starfaði hjá Ríkisútvarpinu – Sjónvarpi hefði slíkt aldrei verið látið viðgangast. Þeir ágætu menn sem þá héldu um stjórnartaumana hefðu snarlega stöðvað slíkt.
Molalesandi sendi þetta: ,,Fyrir nokkru varstu að fjalla um einhver hafði sagt á Ólafsvík sem þú taldir rangt.
Það er til regla í íslensku um hvort maður notar forsetninguna á eða í þegar
víkur eiga í hlut. Sé víkin á suður eða vesturlandi er notað í, sbr. td. í
Vík í Mýrdal, í Keflavík, í Reykjavík, í Ólafsvík og í Bolungarvík.
Forsetningin á er aftur á móti notuð þegar víkin er á norður eða
austurlandi, sbrl á Hólmavík (Strandasýsla er á norðurlandi þótt af mannavöldum hún hafi verið sett í Vestfjarðakjördæmi á sínum tíma), á
Húsavík og á Breiðdalsvík svo einhver dæmi séu tekin.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Ekki er þessi regla nú algild. Hann veit ekki betur en sagt sé í Vöðlavík og í Njarðvík.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli. ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/12/2011 at 22:52 (UTC 0)
KÆrar þakkir fyrir þetta góða bréf, Einar. Þessu er mikilvægt að halda til haga.
Einar skrifar:
15/12/2011 at 21:14 (UTC 0)
Ég hef heyrt þessa reglu sem Molalesandi vísar til, þ.e. hvort maður notar forsetninguna á eða í þegar víkur eiga í hlut. Gott ef hún kom ekki frá fyrrum fréttahauki á fréttastofu Ríkisútvarpsins um áratugaskeið, sem jafnframt er kunnáttumaður um staðhætti.
Hann sagði að ef maður hugsaði sér að lína væri dregin á landakorti frá sunnanverðum Ströndum í suð-austur að Öræfum, þá fengju víkur neðan línunnar forsetninguna í, sbr. í Skjaldarvík, í Trékyllisvík, í Grunnavík, í Aðalvík, í Bolungarvík, í Hænuvík, í Kollsvík, í Breiðavík, í Ólafsvík, í Keflavík, í Njarðvík, í Grindavík, í Vík í Mýrdal, o.s.frv. En víkur ofan við línuna fengju forsetninguna á, sbr. á Kúvíkum, á Djúpavík, á Hólmavík, á Grenivík, á Húsavík, á Breiðdalsvík. Þessi regla hefur reynst mér vel. En við vitum að engin regla er án undantekninga, eða „undantekningin sannar regluna“, sbr. í Vöðlavík og í Njarðvík á Austfjörðum eins og þú bentir á Eiður, einnig í Haganesvík, í Krossavík (við Vopnafjörð) og eflaust eru fleiri dæmi.
Oft veltir maður fyrir sér hvort nota á forsetninguna á eða í um sjávarpláss sem draga nafn sitt af viðomandi firði, t.d. á Norðfirði eða í Norðfirði, á Ólafsfirði eða í Ólafsfirði. Þetta er eflaust misjafnt eftir staðháttum, en sami fréttahaukur sagði mér að oft væri reglan sú að þéttbýlið svo og hafflötur fjarðarins sjálfs tækju forsetninguna á, en sveitin forsetninguna í. T.d. töluðu Norðfirðingar um íbúana í Norðfirði, þegar talað væri um sveitina, en um íbúana á Norðfirði þegar talað væri þéttbýlið. En ég viðurkenni að þetta hef ég ekki kynnt mér til hlítar.