Það gefur til kynna ítök íþróttadeildar í dagskrárstjórn Ríkissjónvarpsins að gamalt íþróttaefni skuli endursýnt á besta tíma á þriðjudagskvöldum allan desember og svo er því hótað að allt efnið verði endursýnt á gamlársdag. Þetta er með ólíkindum.
Molaskrifari vék að því í Molum gærdagsins (793) að Ríkisútvarpið bryti sínar eigin reglur, reglur sem útvarpsstjóri hefur staðfest hátíðlega með undirskrift sinni. Þessar reglur kveða á um að dagskrárgerðamenn stofnunarinnar komi ekki fram í auglýsingum. Nefnt var dæmi. Annað dæmi er að Egill Helgason kemur fram í auglýsingu um nýja bók Braga Kristjánssonar. Hvorki hef ég á móti bókinni, Braga né Agli, nema síður sé. En það á að virða reglur. Þessi auglýsing er brot á reglum sem Ríkisútvarpið hefur sjálft sett. Það er miklu hreinlegra að afnema reglur í stað þess að brjóta þær í augsýn allra. Nemið reglurnar úr gildi, eða farið eftir þeim. Það er bara um tvennt að ræða. Það er engu líkara en þessar reglur hafi verið settar til að sýnast, – ekki til að fara eftir þeim. Ágætis dæmi um stjórnsýsluna í þessari sameiginlegu stofnun okkar landsmanna.
Stundum heyrist ranga nefnifallsmyndin talva yfir það sem með réttu heitir tölva og beygist: t0lva,tölvu, tölvu, tölvu. Á vísindavefnum er stutt grein um þetta eftir dr. Guðrúnu Kvaran: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=1013
Lesandi spurði (13.12.2011): ,,Veist þú hvað er veituþrýstingur er ???
Ég heyrði þetta í aulýsingu á rás 1
Ég þekki vatnsþrýsting,gufuþrýsting,háþrýsting og láþrýsting og flr.
En veituþrýstingur er það er það þrýstingur á Orkuveitu Reykjavíkur???”
Molaskrifari heyrði þessa auglýsingu og hnaut einnig um þetta orð. Líklega var átt við þrýsting í neysluvatnskerfi eða vatnsveitu þess bæjarfélags sem auglýsingunni var beint að.
Hér er stundum vikið að málfari alþingismanna. Molaskrifari heyrði stuttan kafla úr ræðu Vigdísar Hauksdóttur (14.12.2011) þingmanns Framsóknarflokksins. Hún sagði: … ágætt að skipta um skoðun og berjast fyrir réttum málstaði. Og : …hafði hann fengið sínu fram. Kannski þarf þingflokkurinn að ráða málfarsráðunaut.
Heimir Bergmann sendi (15.12.2011): ,,Ég er yfir mig hissa svo ekki sé meira sagt á virðingarleysi fréttastofu ríkissjónvarpsins. þetta er eini, EINI, frétta miðillinn sem sýndi hvorki minningu Jónasar Jónassonar, né Ólafs Tryggva Þórðarsonar þá virðingu að nefna einu orði er þeir voru jarðsungnir.
Þarna eru gengnir miklir sómamenn,báðir þjóðþekktir og báðir skilið eftir djúp spor hjá RÚV.
Stöð 2, Vísir.is, mbl.is, dv.is minntust þeirra en ekki ruv. Hvað veldur???”. Molaskrifari svarar: Dómgreindarbrestur.
Það vantar ekki hógværðina hjá prófessor Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Hann bloggaði nýlega: Ég mæli með þætti, sem sýndur verður á ÍNN í kvöld kl. 20.00. Þetta er viðtalsþáttur Björns Bjarnasonar við mig, …!
Frétt Stöðvar tvö (14.12.2011) um ferðalög opinberra starfsmanna var dæmi um óvönduð vinnubrögð. Allur tónn fréttarinnar var að gera ferðalög og samskipti við önnur lönd og stofnanir tortryggileg. Fréttamaður gerði því skóna að ferðalög til Belgíu væru einkum vegna viðræðnanna um aðild að ESB. Ef grannt er skoðað kæmi örugglega í ljós að ferðalög til Brussel voru mjög tíð áður en aðildarumsóknin kom til sögunnar, m.a. vegna EES og vegna þess að viðum erum bundin af óteljandi reglum ESB . Þessi frétt var dæmi um ómerkilegan fréttaflutning og alveg í sama anda og fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar alþingismanns sem er á móti útlöndum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum við efni þessarar síðu eru vel þegnar en þær eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli. ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
28/12/2011 at 15:54 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir hlýja kveðju, – bestu jóla og nýársóskir.
Eiður skrifar:
28/12/2011 at 15:52 (UTC 0)
Ekki hann Ómar, minn!
Jón Sveinsson skrifar:
28/12/2011 at 15:47 (UTC 0)
aðeins smá viðbót við fréttina um Ómar.
….“hann er þá trúlega alveg á felgunni“
Jón Sveinsson skrifar:
28/12/2011 at 15:43 (UTC 0)
Óska þér gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þökk fyrir molaskrifin þíon.
En nú í dag var þessi fyrirsögn á mbl.is „búið að stela dekkjunum af Ómari“
Það var búið að stela dekkjum undan bíl hans.
Kveðja Jón Sv.