Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (14.12.2011) var sagt oftar en einu sinni að Obama forseti Bandaríkjanna hefði þakkað hermönnum fyrir hugrekki sitt í Írak. Í morgunfréttum daginn eftir var búið að lagfæra þetta og þá sagt að Obama hefði þakkað hermönnunum fyrir frammistöðu þeirra í Írak.
Það er undarlega röklaus hugsun þegar Framsóknarþingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir heldur því fram í sjónvarpsviðtali (14.12.2011) að búslóð í 20 feta gámi hljóti af sjálfu sér að vera minna virði en búslóð sem flutt er í 40 feta gámi milli landa. Verðmæti búslóðar fer auðvitað ekki eftir stærð umbúðanna heldur því hvað er í búslóðinni.
Úr mbl.is (15.12.2011) ..var um liðna helgi sýndur á MBS sjónvarpsstöðinni í Japan en þar spilaði Ísland stórt hlutverk. Það er ekki boðlegt í miðli sem vill vanda málfar að tala um að spila hlutverk. Á íslensku er talað um að gegna mikilvægu hlutverki. Í leikarar fara með hlutverk eða leika hlutverk í leikritum.
Kilja Egils Helgasonar er jafnbesta efnið í Ríkissjónvarpinu.
Valbjörn sendi þetta (14.12.2011) : ,Eru dómsmál vinnanleg ? Svo sagði Árni Páll ráðherra á Rás 2 núna rétt áðan. Eru þau þá líka tapanleg?. Er hægt að taka dómsmál eitthvað? Er ekki nær að segja að fara með dómsmál heldur en að taka þau. T.d til annara landa ellegar annara dómsstóla. Hallgrími var tíðrætt um það í sama þætti. Bætti svo um betur, talaði um annað móment í málinu. Sá stórt skilti utan á húsi í dag. Frá Byko. Þar stóð Jólatréssala. Einhvern veginn finnst mér réttara að segja ,,Jólatrjáasala“. Er ekki viss,en þitt álit væri vel þegið.” Sammála þér um jólatrén. Einfalt væri að segja: Jólatré til sölu. Jólatré seld hér.
Það var dálítið einkennilega til orða tekið þegar sagt var í fréttum Ríkissjónvarps (14.12.2011) að fjöldamorðinginn í Liége í Belgíu hefði verið þögull maður. Betra hefði verið að segja að hann hefði verið fálátur eða fáskiptinn.
Ármann sendi þetta: ,,Í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun (15.12.2011) var rætt við stúlkur sem standa fyrir viðburði sem þær kalla ,,kvír jól“, sem líklega er skírskotun til enska orðsins queer. Hvers vegna þær telja sig þurfa að skemma jólaviðburð með enskuskotnu heiti er mér hulin ráðgáta. Betra hefði verið að nota orðalag á borð við ,,hinsegin jól“ eða ,,öðurvísi jól“. Það tók þó steininn úr þegar ein þeirra sagði að þó að sér væri annt um eitthvað þá væri öðrum e.t.v. ,,anna“ (borið fram addna) um annað. Atviksorðið annt stigbreytist ekki enda væri það þá lýsingarorð. Þetta ætti hvert mannsbarn að vita. Mér þótti sorglegt að heyra þessa afbökun á málinu í morgunsárið.” Molaskrifari er Ármanni sammála.
Lesandi sendi þetta (15.12.2011): … að samkomulag hefði náðst á milli Pétur Brynjarsson, skólastjóra Gerðaskóla… Eitthvað vantar þarna upp á vandvirknina.
Mjaltavél Ríkissjónvarpsins lætur ekki að sér hæða. Á dögunum lýsti Molaskrifari ánægju sinni með að Dans, dans , dans dekri sjónvarpsins á laugardagskvöldum væri nú lokið. Þessi ánægja var byggð á tálvonum. Sjónvarpið heldur áfram að tutla þetta efni í kvöld. Enn er ósvarað spurningum Mola um hvað þessi dagskrárgerð hafi kostað. Engin svör, enda kemur okkur þetta víst ekkert við að mati stjórnenda Ríkisútvarpsins. Bankaleynd gildir í Efstaleiti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli. ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiríkur Rögnvaldsson skrifar:
17/12/2011 at 19:59 (UTC 0)
Ég sé ekki hvað er athugavert við orðalagið „þakka hermönnum fyrir hugrekki sitt“. Sambærilegt orðalag er alvanalegt í fornu máli, t.d. í 5. kafla Laxdælu: „Það líkaði henni allvel og þakkaði honum stórmennsku sína.“ Í nútímamáli er vissulega venjulegra að nota þarna persónufornafn en samt fráleitt að fordæma afturbeyginguna.
Svo er það ekki rétt að „annt“ sé atviksorð – það er lýsingarorð í hvorugkyni og stigbreytist vissulega (sem það gæti reyndar gert líka þótt það væri atviksorð). Hins vegar er miðstigið ekki „anna“ heldur „annara“.
Sigurður Karlsson skrifar:
17/12/2011 at 19:46 (UTC 0)
Íslensk orðabók segir að „annt“ sé lýsingarorð og miðstigið sé „annara“. Má alveg halda því til haga þótt það breyti því ekki að „addna“ hljómar frekar „kvír“…