Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (16.12.2011) ræddi fréttamaður um daglega neyslu Ísledíka og annar talaði um hamborgarahrygg. Hamborgarhrygg þekkja flestir svo og hamborgara. Hamborgarahrygg er dálitið erfitt að ímynda sér. – Þið eigið að gera betur en þetta!
Egill sendi eftirfarandi (15.12.2011): ,,Ég var að hlusta á Ólaf Pál í Popplandi Rásar 2 nú áðan. Hann átti spjall við ungmenni sem unnu jólalagakeppnina í ár. Ég held að hann hafi byrjað setningar sínar á orðinu: „Heyrðu!“ átta eða níu sinnum í frekar stuttu spjalli. M.a. „Heyrðu, til hamingju með þetta krakkar!“ Þetta er auðvitað út í hött, að jafn reyndur útvarpsmaður geti varla opnað munninn öðruvísi en að segja „Heyrðu“ … aftur og aftur. Þetta þarf að laga!” það er rétt og þetta er frekar einfalt laga, – ef viljinn er fyrir hendi. Egill sendi einnig þetta: „… setti tóninn í golfmótinu“ sagði íþróttafréttamaðurinn í Sjónvarpinu í kvöld. Ég hef nú vanist því að menn gefi tóninn, ekki satt?” Jú, mikið rétt.
Togari keyrir á steikarfeiti er ágætis dæmi um dellufyrirsögn á mbl.is (15.12.12011). Togari knúinn steikarfeiti hefði verið í lagi.
Egill heyrði þetta á Rás tvö í morgun (16.12.2011): „Þið seljið upp á TVO tónleika á klukkutíma,“ bullaði Andri Freyr í morgun og bætti svo við:
„Þá megum við búast við að KEMUR meira.“
Tónleikarnir eru TVENNIR og það má búast við að fleiri ambögur KOMI frá kappanum. Ég held að Andri hljóti að fá fyrstu verðlaun í málvillukeppni Rásar 2.”. Sigurstranglegur. Kannski ætti hann að halda sig við að auglýsa kaffi.
Ármann skrifaði Molum (16.12.2011): ,,Virðingarleysi Andra stjórnanda Virkra morgna á Rás 2 fyrir þjóðmálum og íslensku máli er forkastanlegt. Drengnum virðist fyrirmunað að taka hápólitísk mál alvarlega eða að fjalla um þau svo sómi sé að.
Gaman væri að heyra skoðun molaskrifara á því hvort rétt sé að nota orðið ,,sæmilegt“ yfir meðalmennsku. Í grunnskólum landsins fá nemendur umsögn eftir kvarða sem hefst á ,,sæmilegt“, sem þýðir þá að viðkomandi verkefni var ábótavant. Fyrir ofan ,,sæmilegt“ er alla jafna ,,gott“, þá kemur ,,mjög gott“ og loks ,,ágætt“. Þannig er ,,sæmilegt“ talið lakast og ,,ágætt“ best. Samrýmist þetta máltilfinningu annarra? Ég hefði talið að orðið ,,sæmilegt“ þýddi að sómi væri að einhverju, enda er orðið myndað af þeim stofni. Að nota orðið yfir verk sem er ábótavant eru léleg vinnubrögð. Því ekki einfaldlega að nota ,,lélegt“, hvers vegna þarf að vera að flækja málin með ambögum?” Molaskrifari er sammála því sem Ármann segir um orðið sæmilegur, en bendir á að notkun orðsins sæmilegur í merkingunni, þokkalegur, viðunandi, bærilegur er orðin býsna fastgróin í málinu. Líklega er erfitt að breyta því.
Áskell sendi þetta: „Talsmaður smásölukeðjunnar HMV segir vinsældir plötunnar vera ótrúlegar. Honum grunar að platan verði í efstu sætum vinsældarlistans yfir jólahátíðina.“
Er ekki einfaldast að gefast upp? – Nei, Áskell. Aldrei að gefast upp. Þráast við fram í rauðan dauðann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli. ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jón Sveinsson skrifar:
19/12/2011 at 13:11 (UTC 0)
Fyrirsögn á „Mogganetinu“ í morgun : “ Maður skar sig á púls. “
Spurningin er hvort hann hafi verið að reyna við sjálfsmorð ?
Eðlilega hefði mér fundist “ Maður skarst á púls“ það líkist meir því að þetta hafi verið slys, eða er ekki svo.
Kveðja J.Sv.
kristján skrifar:
19/12/2011 at 11:22 (UTC 0)
„Setja tóninn“. Dæmigerð enskuáhrif eins og að „stíga upp“ (step up) sem íslenskir íþróttalýsendur fóru að apa eftir þeim amerísku.
Í sjónvarpsfréttum í gærkvöld var frétt um snjóbrettastráka á Arnarhóli. Einn þeirra var í jakka eða peysu sem á stóð stórum stöfum: „SHIT ON MY TITS“. Ætli aðstandendur séu ekki bara stoltir af stráknum sínum ?