N-Kóreumenn drjúpa höfði sagði í fyrirsögn á mbl.is (19.12.2011). Þeir sem eru hryggir eða daprir drúpa höfði, ekki drjúpa. Að drúpa höfði er að vera niðurlútur, beygður af sorg. En um Norður Kóreu verður seint sagt að þar drjúpi smjör af hverju strái. Þegar Molaskrifari var leiddur inn í hið mikla grafhýsi Kim Il Sungs í Pyongyang í nóvember 2003 var þar ekki aðeins fólk sem drúpti höfði heldur grét hástöfum. Var þar sannarlega grátur og gnístran tanna. Ógleymanleg og í senn aldeilis ótrúleg upplifun. – Fyrirsögnin á mbl.is var seinna lagfærð og leiðrétt.
Samkvæmt átaki sem undirritað var í dag, var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (16.12.2011). Það er ekki hægt að undirrita átak. Það er hægt að undirrita samkomulag um að ráðast í átak eða gera átak.
Egill segir (16.12.2011): ,,Einhver góður íslenskumaður þyrfti að taka Jóa Fel í gegn, hvað íslensku varðar. Kenna honum að segja LÍTRI en ekki líter, ÖRLÍTIÐ en ekki dass, DÚNMJÚKT en ekki dúnamjúkt, STÖKKT en ekki krönsí – og svona mætti lengi telja.” Satt segirðu , Egill. Gott orð fyrir það sem á ensku er kallað dash í uppskriftum er skvetta eða smáskvetta.
Það var undarlegt fréttamat hjá Fréttastofu ríkisins í Efstaleiti þegar það var fyrsta frétt í aðalfréttatíma kvöldsins (16.12.2011) að lítil flugvél hefði fest nefhjól í skafli á akstursbraut á Keflavíkurflugvelli. Flugvélin hafði lent heilu og höldnu og var á leið upp að flugstöðinni. Vélin skemmdist ekkert. Það meiddist enginn og vélin hélt áfram ferð sinni til Bandaríkjanna eftir skamma viðdvöl eins og ekkert hefði í skorist. Hver var eiginlega fréttin?
Molaskrifari er ekki sterkur í prósentureikningi. Hann er enn að klóra sér í höfðinu yfir því sem sagt var í fréttum Ríkisútvarpsins (16.12.2011): … síðustu fjögur árin hafa tvö þúsund prósent þjóðarinnar flust af landi brott umfram þá sem komu heim ?????
Okkur bar gæfu til, sagði þingmaður Sjálfstæðisflokks í ræðustóli á Alþingi (16.12.2011). Annar ræðumaður, úr Framsóknarflokki , kom svo í ræðustól á eftir sjálfstæðismanninum og talaði um nýtt fyrirtæki í bransanum. Ekki mikil tilfinning eða virðing fyrir móðurmálinu.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (16.12.2011) var sagt frá því að skólabílstjóra hefði rekið í roga stans er hann sá haförn taka tófu af veginum fyrir framan bílinn. Í fréttayfirliti í lok frétta var skólabílstjórinn orðinn að skólastjóra. Hröð stöðuhækkun það. Fréttaþulir verða að hlusta á sig lesa. Grundvallaratriði.
VJ sendi eftirfarandi (16.12.2011): ,,Á vefnum skak.is má sjá umfjöllun um hraðskákmót kennt við meistara Friðrik Ólafsson og Landsbankann.
Þar segir meðal annars að einungis 80 keppendur geti verið með. Síðan kemur all skrýtin ábending um að mótið sé ,,FULLT“ en hægt að skrá sig á biðlista. Er ekki mót fullskipað? Hefði ég haldið. Gott væri að andans menn vönduðu sig betur.”
Orðið usli þýðir tjón, skaði eða óskundi. Þetta orð var ekki rétt notað í fréttum Ríkisútvarps (17.12.2011) þegar sagt var að framlagning tillögu Bjarna Benediktssonar um að draga til baka landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde hefði valdið usla á Alþingi. Réttara hefði verið að segja að tillagan hefði valdið uppnámi á Alþingi. Hún olli engu tjón eða skaða. Hún kom ýmsum á óvart og kallaði fram sterk viðbrögð. Sterk viðbrögð eru ekki það sama og usli. Skylt er að geta þess að þetta var leiðrétt síðar og þá talað um að tillagan hefði valdið titringi í þinginu sem er ágætlega að orði komist.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli. ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
21/12/2011 at 09:47 (UTC 0)
„Þágufallsmyndin, stóli er einnig til og ekki verri !“
Hér verð ég að styðja Eið, enda styð ég hann til allra góðra verka þótt ég telji að einstaka sinnum, – en ekki oft svosem -, fari hann ögn fram úr sér sem títt er um hugsjónamenn. Stóll beygist eins og kjóll. Hjá tilvitnaðri síðu Árnastofnunar er beyging kjólsins sömuleiðis án i-s í þágufalli. Þó liggur ljóst fyrir að orðasambandið „að svipta e-n kjóli og kalli“ er enn notað og þykir gott.
Eiður skrifar:
20/12/2011 at 10:06 (UTC 0)
Molalesandi nefndi: Konungi var steypt af stóli. Samkoman fór fram á Arnarhóli.
Brynja skrifar:
20/12/2011 at 09:33 (UTC 0)
Takk fyrir góðar ábendingar, Eiður!
Eiður skrifar:
20/12/2011 at 08:08 (UTC 0)
Þágufallsmyndin, stóli er einnig til og ekki verri !
Margrét skrifar:
19/12/2011 at 23:26 (UTC 0)
Molaskrifari góður! Þar sem þér hefur í gegnum tíðina orðið þó nokkuð tíðrætt um þingmenn og ræðustólinn þeirra langar mig að benda þér á að þeir sem þar standa hverju sinni eru í ræðustól – ekki ræðustóli. (Ræðustóll um ræðustól frá ræðustól til ræðustóls.)
http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=r%C3%A6%C3%B0ust%C3%B3ll