«

»

Molar um málfar og miðla 800

Það var undarlegt í Spegli Ríkisútvarpsins í kvöld (29.12.2011) þegar rætt var um Norður Kóreu og minnst á bókina Nothing to Envy eftir Barböru Demick, prýðilega bók, að hvorki spyrill né sá sem rætt vart við skyldi geta þess að þessi bók kom út á Íslandi fyrir nokkrum mánuðum. Á íslensku heitir bókin Engan þarf að öfunda. Útgefandi er Bókafélagið Ugla. Þetta er merkileg bók og þakkarvert að hún skuli komin út á íslensku. Molaskrifari mælir hiklaust með henni. Raunar var það álitamál í þessu spjalli í Speglinum um Norður Kóreu hvor vissi minna um landið sá sem spurði eða sá sem sat fyrir svörum.
Skemmtilegt var að sjá í Ríkissjónvarpinu á jóladag nýárstónleika Sinfóníuhljómsveitar Færeyja sem Bernharð Wilkinson hefur komið á legg og til mikils þroska. Bernharð hefur starfað kennt og stjórnað sinfóníuhljómsveit okkar auk þess að hafa verið gestastjórnandi hljómsveita í fjölmörgum öðrum löndum. Hann er færeyskur í aðra ætt, frá Sumba á Suðurey sem er syðsta byggðin í Færeyjum (íb. 3-400) en breskur í hina. Sagði mér einu sinu að hann væri ,,hálfur Sumbingur”. Ekki var verra að heyra í þeim Þóru Einarsdóttur og Gissuri Páli Gissurarsyni sem sungu af alkunnri snilld. Þetta voru fínir tónleikar. Norðurlandashúsið í Þórshöfn hefur verið og er mikill menningarauki í Færeyjum. Bernharð eða Benni eins og íslenskir vinir kalla hann er burðarásinn í tónlistarlífinu í Færeyjum.
Góð var líka myndin um Ragnar Axelsson, RAX, sem er sannkallaður listamaður og hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og elju við að skrásetja menningu norðurslóða, mannlíf og menningu sem er nú á hverfanda hveli. Molaskrifari velti því aðeins fyrir sér hvort ekki hefði mátt gera tvo þætti úr þessu góða efni. Myndin mun nú sýnd víðsvegar erlendis og er það að verðleikum.
Molaskrifara finnst auglýsing Bílabúðar Benna þar sem snúið er út úr Ökuljóði, rússnesku þjóðlagi við ljóð eða texta Freysteins Gunnarssonar jaðra við guðlast, en er reyndar ekki lengur hissa á neinu sem auglýsingadeild Ríkisútvarpsins gerir eða lætur ógert. Stefán Íslandi og Karlakór Reykjavíkur sungu ,,Áfram, veginn …” inni í hjarta hvers einasta Íslendings. Jafnvel líka þeirra sem eru ekki sérstakir tónlistarunnendur. Þessi auglýsing er tónlistarklám. Bílabúð Benna ætti að sjá sóma sinn í að draga hana til baka og hætta að klæmast á þessu fallega lagi og ljóði.
Úr frétt á Mbl.is (19.12.2011): Verkamenn í verksmiðju sem framleiðir leiðslur fyrir rafvirkja voru líka niðurdregnir. Leiðslur fyrir rafvirkja ? Eru það ekki rafleiðslur eða rafmagnsvír? Rafvirkjar vinna meðal annars við að draga rafmagnsvíra í rafmagnsrör. Það er kallað að draga í. Eins gott að þeir voru ekki ídregnir.
Millennium þáttaröðin sem Ríkissjónvarpið sýnir um þessar mundir er með allra bestu krimmum og skiptir þá engu þótt maður hafi lesið bækurnar. Vel gerðir þættir í alla staði. Alltaf er líka gaman að sjá myndir gerðar þar sem maður er svolítið kunnugur staðháttum. Þessvegna bíð ég þess með óþreyju að sjá sjónvarpsþætti eða kvikmyndir byggðar á reyfurum færeyska höfundarins Jógvans Isaksens.
.
Hvað er að hafa þunga sögu á bak við sig einsog þingflokksformaður VG segir við mbl.is (20.12.2011) : „Eins og við öll vitum, þá er þetta mjög sérstakt mál, með mikla og þunga sögu á bakvið sig …”

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Nafnlausar athugasemdir verða ekki birtar. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli og nafnlausar athugasemdir. ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>