Eftirfarandi bréf barst Molum frá Einari Kr. Jónssyni vegna fréttar á mbl.is (05.01.2012):
„Rétt tæplega 200 skjálftar voru staðsettir af jarðskjálftasviði Veðurstofu Íslands í síðustu viku ársins 2011. Langflestir þeirra litlir. Langflestir skjálftarnir sem mældust á Suðurlandi urðu undir Húsmúla, þar voru 43 skjálftar staðsettir, langflestir undir einum að stærð en sá stærsti mældist 1,5 stig. Eru þetta heldur færri skjálftar en mælst hafa síðustu vikur. Þá voru fjórir skjálftar staðsettir nærri Nesjavöllum, einn nærri Klambragili og einn við Ölkelduháls. Aðeins níu skjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga en samtals voru 24 skjálftar staðsettir á eða úti fyrir Norðurlandi. Þar af voru þrír skjálftar staðsettir á Þeistareykja-Kröflusvæði og einn í Fljótunum. Ríflega 60 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, og dró því nokkuð úr virkni þar miðað við síðustu vikur. Þar af voru 13 staðsettir vestan Goðabungu, tveir við Hafursárjökul og 45 innan öskjunnar. Fimmtán skjálftar voru staðsettir á Torfajökulssvæði.“
Eftir fyrsta lestur var ég hugsi yfir því hvað þetta þýddi, t.d. „Rétt tæplega 200 skjálftar voru staðsettir af jarðskjálftasviði Veðurstofu Íslands í síðustu viku ársins 2011“ og átta sinnum til viðbótar „voru jarðskjálftar staðsettir“ hér og þar. Var einhver sem fór með jarðskjálftana og staðsetti þá þar? Af hverju að nota óskiljanlega þolmynd undir áhrifum enskunnar („earthquakes were located“) í stað þess að nota miðmynd, sem ekki er til í ensku, og segja að skjálftar hafi mælst eða greinst. Er ekki það sem átt er við? Eða er átt við upptök skjálftanna? Í fyrstu setningunni á germyndin miklu betur við, þ.e. „Jarðskálftasvið Veðurstofu Íslands greindi tæplega 200 skjálfta í síðustu viku ársins 2011“.
Ég er reyndar hræddur um að meinið hér liggi ekki hjá blaðamanni heldur af vef Veðurstofunnar. Þar hafa jarðskjálftar „verið staðsettir“ alls 13 sinnum í stuttri umfjöllun um sama mál, í stað þess að hafa mælst eða greinst. Mun betur færi á því að einfalda fréttina, stytta og gera þjálli, t.d. svona:
„Jarðskjálftasvið Veðurstofu Íslands greindi tæplega 200 skjálfta í síðustu viku ársins 2011, langflesta litla. Langflestir skjálftarnir á Suðurlandi urðu undir Húsmúla, alls 43 og flestir undir einum að stærð en sá stærsti mældist 1,5 stig. Eru þetta heldur færri skjálftar en mælst hafa síðustu vikur. Þá mældust [eða greindust] fjórir skjálftar nærri Nesjavöllum, einn nærri Klambragili og einn við Ölkelduháls. Aðeins níu skjálftar mældust á Reykjanesskaga, en 24 á eða úti fyrir Norðurlandi, þar af þrír á Þeistareykja-Kröflusvæði og einn í Fljótunum. Ríflega 60 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, og dró því nokkuð úr virkni þar miðað við síðustu vikur. Þar af mældust 13 vestan Goðabungu, tveir við Hafursárjökul og 45 innan öskjunnar. Fimmtán skjálftar mældust á Torfajökulssvæði.“
Molaskrifari hefur engu við þetta að bæta, en þakkar Einari kærlega fyrir bréfið..
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
MArgrét Brynjólfsdóttir skrifar:
14/05/2013 at 23:31 (UTC 0)
Sæll – langaði að vekja athygli á eftirfarandi setningu:
“ Steingrímur andaðist fyrir skemmstu eftir heilsubrest“
Mér finnst þetta sérkennilega orðað.
Kveðja
Margrét