«

»

Molar um málfar og miðla 807

Í fréttum Stöðvar tvö (05.01.2012) sagði fréttamaður og hafði eftir forseta ASÍ að efnahagslegar forsendur samninganna væru að standast ágætlega. Hún er þrálát er-að sóttin. Þarna hefði til dæmis mátt segja að efnahagslegar forsendur samninganna hefðu staðist ágætlega. Í sama fréttatíma var sagt frá miklum rigningum í Evrópu og talað um miklar rigningar þar á slóðum. Málvenja er að segja: … þar um slóðir eða á þeim slóðum.

… en henni hafði kviðið því mjög, sagði fréttakona á Stöð tvö (06.01.2012).Án þess að depla auga. Athugið nú ykkar gang á fréttastofu Stöðvar tvö !

Landafræðin, landafræðin. Í fréttum Ríkisútvarpsins (06.01.2012) var talað um Kleppsjárnsreyki í Borgarfirði. Kleppjárnsreykir eru til. Ekki Kleppsjárnsreykir.

Heimsókn Kastljóss í Kvikmyndasafn Íslands var áhugavert efni (05.01.2012).Þar er unnið gott starf sem ekki hefur verið mikið auglýst. Ríkissjónvarpið gæti gert meira af því að sækja öndvegis efni í Kvikmyndasafn Íslands.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (05.01.2012) var talað um að tapast hefðu kröfur upp á fleiri hundruð milljónir króna. Fleiri en hvað? Eðlilegt hefði verið að tala um mörg hundruð milljónir króna.

Það er sjálfsagt mikill heiður að vera kjörinn íþróttamaður ársins og áreiðanlega er Heiðar Helguson vel að þeirri nafnbót kominn. En einkennilegur er verðlaunagripurinn, eins og eldhúskollur á hvolfi eins og einhver sagði á Fésbók. Í fréttinni af kjörinu (05.01.2012) sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins: Alls tóku tuttugu og tveir meðlimir í Samtökum íþróttafréttamanna þátt í kjörinu. Allsstaðar eru þessir meðlimir að þvælast. Hversvegna ekki tuttugu og tveir félagar í Samtökum íþróttafréttamanna, eða bara :Alls tóku tuttugu og tveir íþróttafréttamenn þátt í kjörinu?
Í þessum sama íþróttafréttatíma sagði fréttamaður: Það virðist ekki liggja fyrir Osasuna að spila gegn Barselóna. Líklega átti hann við að Osasuna gangi ekki vel að fást við lið Barselóna. Það átti hinsvegar ekki fyrir mér að liggja að sjá þessi tvö lið kljást.

Besti brandarinn í nýársávarpi forsetans í ár var að hann skyldi raupa af því að starfsliði forsetaskrifstofunnar hefði ekki fjölgað í rúm 20 ár. Hversvegna hefði starfsliði átt að fjölga? Er ekki hlutverk forsetans óbreytt í stjórnarskrá? En hefur ekki eitthvað fjölgað á Bessastöðum? Hvað skyldi kostnaður forsetaembættisins hafa vaxið vegna aðkeyptrar vinnu og útvistaðra verkefna? Hvað hefur ferðakostnaðurinn aukist? Líklega hefði mátt fækka starfsliði á forsetaskrifstofunni í ljósi þess hve sjaldan forsetinn er á Íslandi. Það verður þó að segja nýársávarpinu til hróss að þar var ekki auðheyranleg málvilla eða villur eins og verið hefur árvisst undanfarin ár. Íslenska hefur aldrei verið hin sterka hlið Ólafs Ragnars Grímssonar. Forsetinn hefur haft góðan prófarkalesara í þetta skiptið. Plús fyrir það.

Ómar E. sendi þetta gullkorn sem hann svo nefnir af dv.is (06.01.20121): „Fórnarlambið var með 33 meiðsli á líkama sínum og þornað blóð á andliti. Það var einnig með brotna tönn,“ sagði saksóknarinn Ruby Selva við réttarhöldin.” Og spyr: Er hægt að þýða þetta verr? 33 meiðsli :), spyr Ómar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þú heldur áfram að rugla. Gagnrýni á rekstur Ríkisútvarpsins er ekki hatur á Páli Magnússyni. Persónulega er mér hreint ekkert illa við Pál. Og gildir þá einu þótt hann hafi notað ljótari munnsöfnuð um mig en nokkur annar hefur gert svo ég viti.Hann er bara ekki réttur maður á réttum stað. Ríkisútvarpið er stofnun sem þjóðin á. Því er illa stjórnað. Dagskráin ber of mikinn keim af því að Ríkissjónvarpið sé amerísk vídeóleiga og íþróttarás. Það hef ég gagnrýnt og mun áfram gera. Svo er það rangt hjá þér að ég hafi fyrstur manna vakið máls á því hve ósmekklegt það var að hafa voðaverkin í Útey í flimtingum í Áramótaskaupinu. Því miður var ég það ekki. Skoðaðu umfjöllun málsins á netinu , til dæmis. Láttu þér ekki detta annað í hug en að norska sendiráðið á Íslandi hafi sagt norska utanríkisráðuneytinu frá umfjölluninni um Úteyjarmorðin í íslenska ríkissjónvarpinu á gamlárskvöld. Það er ekki verið að vekja upp neina milliríkjadeilu þótt vakin sé athygli á vondri dómgreind þeirra sem stjórna Ríkisútvarpinu. Það er bara verið að segja frá staðreyndum.

  2. Vignir Sveinsson skrifar:

    Sæll
    Þakka þér svarið. Ég skammast mín ekkert, enda var þetta bara einlægt svar við furðulegri deilu. Ég byggi mitt álit á nokkrum staðreyndum.
    Sú fyrsta.. þú notar hvert tækifæri sem býðst til að hnýta í Pál Magnússon (ég þarf ekki að rökstyðja þetta, pistlar þínir undarfarin misseri eru næg sönnun.
    Önnur.. Þú varst sá fyrsti .. eftir því sem ég best veit, til að reyna að vekja upp grun um að það hafi verið að gert grín af fórnarlömbum hryðjuverka í skaupi…
    Þriðja.. þú reynir að gera milliríkjadeilu úr málinu, fréttasnápar þefa þetta uppi og þetta berst. Ef ég þekki „pöpúlinn“ rétt þá er sá norski eins og sá íslenski. „Fyrrverandi íslenskur þingmaður segir íslendinga gera grín af fjöldamorðum Breiviks“
    Ég bara spyr, er hatur þitt á Páli Magnússyni þess virði?
    Vignir

  3. Axel skrifar:

    Ástarlisti Eiðs árið 2011

    1. Rúv og Páll Magnússon
    2. Ólafur Ragnar
    3. Útvarp Saga
    4. Íþróttir og íþróttafréttamenn
    5. Dægurmenning

    Það verður gaman að fylgjast með hvaða ástarsambönd eiga eftir að dafna mest árið 2012 – og hvaða nýju neistar eiga eftir að kveikna. Ég spái að ástin á Andra útvarpsmanni fari að kikka almennilega inn. Veltur svolítið á Agli molavini og virkni hans við að hlutsta á rás 2. Æsispennandi tímar framundan.

  4. Eiður skrifar:

    Bull um að ég sé að ,,beita gömlum póltiískum brögðum“ er fáránlegt og út í hött. Ég starfaði hjá Ríkisútvarpnu í ellefu ár. Þessvegna sárnar mér að sjá þessari menningarstofnun illa stjórnað. Mér er ekki persónulega illa við neinn starfsmann Ríkisútvarpsins. Stjórnendur þar á bæ valda ekki hlutverki sínu. Fjölmargir hafa tekið undir að það hafi verið alvarlegur dómgreindarbrestur að hafa voðaverkin í Útey í Noregi hluta af áramótaskaupinu. Aðrir hafa bent á að ósmekklæegt væri að hafa Geirfinnsmálið í flimtingum í Skaupinu. Ég er því sammála. Sjálfur getur þú haft skömm af því að gera mér upp skoðanir og ætlanir.

  5. Vignir Sveinsson skrifar:

    Mig langaði bara að skjóta inn hugleiðingum mínum um hið stóra „áramótsaskaupsmál“ sem þú vaktir upp einn og sjálfur.
    Ég hef alloft skoðað pistla þína og haft gaman af. Þú ert glöggur á málfar en auðvitað hefur skoðanir og gildi. Þú hefur ekki farið í grafgötur með að RUV, Útvarp Saga og Iceland Express séu þér á móti skapi svo ekki sé meira sagt. Finnur þeim flest til foráttu. Það er af sjáfsögðu þinn réttur að hafa skoðun , og ég satt að segja hef svipaðar skoðanir og þú… nema.
    Ég horfði á Skaupið öðru sinni áðan. Ég reyndi að finna móðgunina gagnvart Norðmönnum. Mín niðurstaða er eftirfarandi:
    Þú ert orðinn svo heitur andstæðingur RUV og forstjóra þeirrar stofnunar að þú vilt vekja/grafa upp meint níð/háð til að vekja upp deilur sem hugsanlega gætu vakið upp nægilega mikla umfjöllun til að skaða stofnunina. Ég er algjörlega sannfærður um að þú sért að beita gömlum pólitískum brögðum til að fella andstæðinga. Mér finnst það miður.
    Hafðu þakkir fyrir það sem þú hefur gert vel en skömm fyrir hitt
    vignirj

  6. Eiður skrifar:

    Sæll , Ragnar. Þetta ,,eftir Eiður“ er tæknivilla eða galli sem mér hefur ekki tekist að leiðrétta. Kannski kann einhver sem þetta les að ráða bót á þessu, leiðrétta það. Ég er hjartanlega sammála þér með hversu hjákátlegt það er að tala um að Íslendingar hafi verið kynntir fyrir kartöflunni eða limrunni! Það er alveg út í hött að taka þannig til orða.

  7. Ragnar Böðvarsson skrifar:

    Góðan daginn Eiður. Heldur kann ég illa við að í horninu efst til hægri ofan við pistilinn þinn stendur „eftir Eiður“ Kannski er þetta vegna ólæknandi tæknigalla, en leiðinlegt hjá málfarsrýni.
    Aðalerindið var annað. Einhver bloggari, mig minnir m.a.s. að það hafi verið þekktur og oftast málvís rithöfundur, lét svo ummælt í rabbi um nýútkomna skáldsögu að sr. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal hefði kynnt Íslendinga fyrir kartöflunni. Og rétt áðan var ég að líta í grein eftir Orra Pál Ormarsson um Sigurð Þórarinsson í Sunnudagsmogga. Þar segir að Sigurður hafi kynnt Árna nokkurn fyrir limrunni.
    Upp á síðkastið hef ég heyrt eða séð svona málnotkun víðar, en ekki get ég að því gert að mér finnst þetta ekki aðeins rangt mál, heldur líka alger hugsanavilla sem ég botna ekkert í að menn skuli ekki finna og sjá.
    Þökk fyrir fína pistla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>