«

»

Molar um málfar og miðla 806

Molavin sendi þetta: ,,Stormurinn, sem reið yfir í gærnótt… sagði í kvöldfrétt á Stöð-2. (5.1.12) Á fréttakonan þar við storminn, sem reið yfir í nótt eða í fyrrinótt? Ég kannast ekki við orðið gærnótt. Kannski er þetta angi af því barnamáli, sem hefur rutt sér til rúms á fréttastofum. Er enginn fullorðinn á vakt?’’ – Nei, Molavin. Það hefur greinilega enginn fullorðinn lesið þessa frétt áður en henni var dembt yfir okkur. – Svo hefði líka verið eðlilegra að tala um storminn sem gekk yfir eða bara storminn í fyrrinót eða nótt.

Það er undarlegur ósiður og ókurteisi við okkur sjónvarpsáhorfendur að segja ekki frá því í dagskrárkynningu að verið sé að endursýna efni. Prýðilegur þáttur sem var sýndur á jólum Trompeteria í Hallgrímskirkju var endursýndur í kvöldagskrá miðvikudaginn 4. janúar. Ekkert nema gott um það að segja. Fínn þáttur. Þess var hinsvegar ekki getið í kynningu kvölddagskrár að þátturinn hefði verið sýndur áður. Hversvegna getur Ríkissjónvarpið ekki sagt okkur satt og rétt frá ? Það var ekkert að því að sjá þennan þátt aftur en Ríkissjónvarpið á ekki láta eins og verið sé að frumsýna hann. Það er ekki heiðarlegt.

Molaskrifari sá lungann úr þættinum Innherjaráni (Inside Job) sem Ríkisásjónvarpið sýndi (04.01.2012). Þarfaverk að sýna þetta. Það var rauður þráður í þættinum hvernig kerfisbundið afnám alls eftirlits með banka- og fjármálastofnunum ekki síst í Bandaríkjunum leiddi til hrunsins. Hvernig frjálshyggjupostularnir (og raunar fleiri) skelltu skollaeyrum við öllum aðvörunum, sáu engin viðvörunarljós eða létu sem þeir sæju þau ekki og töldu að markaðsfrelsi og markaðurinn mundi stýra þessu öllu á besta veg. Um þetta margir skrifað t.d. Jeffrey Sachs. Þennan þátt ætti að endursýna, – ekki seint á kvöldi heldur snemma kvölds og efna til umræða að sýningu hans lokinni.

Það er líklega rétt sem einhver benti á fésbók að í Áramótaskaupi var of mikið af tilvísunum í efni á Stöð tvö sem við sem ekki nennum að kaupa alla þá sápu sem þar er í boði skildum ekki. Nú verður Skaupið endursýnt laugardaginn 7. janúar. Fróðlegt verður að sjá hvort verstu smekkleysurnar eins og tilvísunin til voðaverkanna í Útey og vísun til Geirfinnsmálsins verða þá fjarlægðar. Það ættu ráðamenn Ríkisútvarpsins að gera, hafi þeir snefil af sómatilfinningu.
Merkilegt var hinsvegar að lesa um það í DV (06.01.2012) að Ríkisútvarpið skyldi hafa hringt til Sendiráðs Noregs á Íslandi til þess að útskýra að menn hefðu ekki meint það sem sagt var í Skaupinu um voðaverkin í Útey. Þetta hefði alls ekki verið grín heldur eitthvað allt annað. Mennilegra hefði samt verið að óska eftir fundi með sendiherra Noregs vegna málsins.
Allir sem skilja íslensku skildu hvað sagt var í Skaupinu. Það var Ríkisútvarpinu til skammar eins og Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari réttilega segir í Morgunblaðinu (06.01.2012). Norski sendiherrann brást hinsvegar við símtalinu úr Efstaleiti af eðlislægri kurteisi eins og hans var von vísa. En Norðmenn hljóta að hugsa sitt. Kannski vorkenna þeir okkur svolítið að hafa svona Ríkisútvarp.

Úr dv.is (04.01.2012) … útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson sem hefur tekið sér mánaðarfrí frá útvarpsþættinum vinsæla Virkum morgnum til að taka upp nýjan sjónvarpsþátt. Það er vissulega gott hjá Ríkísútvarpinu að verðlauna þá sem skara fram í málfari eins og margir hafi bent á í þessum Molum að Andri Frey geri með sínum hætti. Nú fær þessi snillingur í meðferð móðurmálsins að njóta sín í sjónvarpi í þáttum sem hann af lítillæti kennir við eigin persónu. Molaskrifari leggur til að á undan þessum sjónvarpsþáttum verði sýnd kaffiauglýsingin þar sem þessi dagskrárgerðarmaður kemur fram.- þrátt fyrir skýlausar reglur sem útvarpsstjóri hefur sett um að dagskrárgerðar- og fréttamenn komi ekki fram í auglýsingum. Það væri mjög við hæfi og í samræmi við það að reglur séu bara til að brjóta þær.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>