«

»

Molar um málfar og miðla 805

Ýmislegt einkennilegt mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (03.01.2012). Þar var sagt frá vatnstjóni í húsi í Reykjanesbæ með þeim orðum að sjóðandi heitt vatn hefði lekið um húsið. Betra hefði verið að segja að sjóðandi heitt vatn hefði flætt um húsið enda var reiknað með að tæki nokkra daga (?) að dæla vatninu út. Hundur beit barn á Akranesi og framkvæmdastjóri Hundaræktarfélags Íslands sagði: Við þurfum að kunna að lesa þessa hunda. Lesa hunda? Skilja eða þekkja hefði verið betra orðalag. Í erlendum fréttum var talað um brothætt ástand í Líbíu. Líklegast aulaþýðing úr ensku fragile situation. Óvissuástand hefði mátt segja, eða að ástandið væri þannig að brugðið gæti til beggja vona. Meðlimir komu og talsvert við sögu í þessari frétt. Þá var sagt frá snjómokstri og gatnahreinsun í höfuðborginni og sagt að um 50 tæki hefðu unnið við snjómokstur. Tækin unnu ekki. Þau voru notuð við snjómokstur og gatnahreinsun. – Þið eigið að geta gert betur en þetta Stöðvar tvö menn !

Valbjörn sendi eftirfarandi (04.01.2012):,, Í Fréttablaðinu 4.janúar er fjallað um svonefnd Norðurlandalán. Þar segir í fyrirsögn: Hinsti hluti Norðurlandalána greiddur. Væri ekki smekklegra að nota síðasti hluti,eða síðasta greiðsla. Álít að frekar sé talað um ,hinstu kveðju, eða í hinsta sinni.” Rétt athugað, Valbjörn. Molaskrifari hnaut einnig um þetta. Einnig hefði mátt segja: Norðurlandalánin endurgreidd. Norðurlandalánin greidd að fullu.

Í Ríkissjónvarpinu eiga menn undarlega erfitt með að viðurkenna að rangt hafi verið farið með. Leiðrétting sem lesin var í kvöldfréttatíma (04.01.2012) var efnislega svona: Maðurinn sem rætt var við heitir Árni og er Jónsson og er beðist velvirðingar á því. Samkvæmt orðanna hljóðan er verið að biðjast velvirðingar á því að maðurinn heiti Árni og sé Jónsson ! Af hverju er ekki hægt að viðurkenna að rangt hafi verið farið með nafn mannsins? Undarleg vinnubrögð. Ekki í fyrsta skipti sem við heyrum svona. Í rauninni var þetta alls ekki leiðrétting.

Sumum fréttamönnum virðist alveg fyrirmunað að nota orðalagið í fyrra sumar. eða í fyrra vetur. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps og sjónvarps (04.01.2012) var sagt fjórum eða fimm sinnum síðasta sumar. Hvar er nú málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ? Þá var líkla tönnlast á því að makríllinn væri kominn á Íslandsmið til að vera! Hann kemur til að láta veiða sig, þótt ekki sé það kannski ætlun hans. En Molaskrifari sættir sig alltaf illa við að talað sé um að eitthvað sé komið til að vera. Of enskulegt.

Bílabúð Benna og sjónvarpsstöðvarnar halda áfram að snúa út úr Ökuljóði Freysteins Gunnarssonar í ósmekklegri sjónvarpsauglýsingu. Enn er spurt: Hvar er Bandalag íslenskra listamanna? Hvar eru Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar ? Mega auglýsingastofur og óprúttnir sölumenn taka hvaða ljóð og lag sem er og snúa út úr því? Molaskrifara finnst þetta mesta ósvinna og segir það hér aftur og enn.

Svo er hér í lokin bein tilvitnun í fréttayfirlitið í sexfréttum Ríkisútvarpsins (04.01.2012): Bolfiskar umhverfis landið éta nú makrílseiði af mikilli lyst. Sjómenn segja maga þeirra fulla af seiðunum. Sérfræðingar Hafró segja flest benda til að tegundin sé komin til að vera. (!)

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt. Ég las bara fyrirsögnina, en það skiptir ekki máli aðfinnslan um notkun orðsins ,,hinsta“ er í fullu gildi eftir sem áður.

  2. Þórir skrifar:

    Varðandi lánin frá Norðurlöndum, þá virðist þú eitthvað vera að misskila hlutina. Það er ekki verið að „endurgreiða“ eitt né neitt. Þeir eru að láta okkur hafa síðasta hluta umsaminna lána.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>