«

»

Molar um málfar og miðla 810

Molavin sendi eftirfarandi (08.01.2012): ,,Fótbolti.net er, eins og nafnið gefur til kynna, fréttasíða um knattspyrnu á Netinu. Hráþýðingar úr ensku einkenna fréttir síðunnar, eins og t.d. þetta upphaf fréttar rétt í þessu: ,,…var í gærnótt handtekinn, grunaður um að hafa kýlt fyrrverandi kærustu sína eftir rifrildi á næturklúbbi. Þessi 27 ára vængmaður var staðsettur á skemmtistað nálægt Middlesbrough þegar atvikið átti að hafa átt sér stað, en þau eru sögð eiga börn saman. Heimildarmaður Mail Online sagði að þau hefðu lent saman.“ Framhald fréttarinnar er í þessum dúr. ,,gærnótt – vængmaður – staðsettur – lentu saman“ þetta hljómar allt eins og notað sé google translate forritið til að snara fréttum. Það getur varla nokkur lifandi maður verið svona illa að sér í móðurmálinu.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Jú, félagi Molavin það er margsannað að menn geta verið svona illa sað sér í íslensku !

Sömu villurnar eru endurteknar aftur og aftur. Endalaust rugla menn saman eignarfalli orðsins (jarð)göng sem er ganga og eignarfalli fleirtölu kvenkynsnafnorðins ganga sem er gangna. Skýrsla um Vaðlaheiðargöng hefur verið til umræðu í fréttum. Í fréttum Stöðvar tvö (08.01.2012) var talað um rekstur gangnanna, átti að vera ganganna og svo var reyndar talað um þingmenn kjördæmis gangnanna! í yfirliti í lok sexfrétta Ríkisútvarps var notað eignarfallið gangnanna, þegar segja átti ganganna. Annars var þetta rétt í fréttum Ríkisútvarps og Ríkissjónvarps,

Það er góðra gjalda vert að kynna ýmsa viðburði í útvarpsþáttum. Gengið var í kringum Grænavatn í Krýsuvík í tilefni þess að eitt hundrað ár eru í dag (08.01.2012) liðin frá fæðingu dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Gangan var ágætlega kynnt í þætti Sirrýjar á Rás tvö í Ríkisútvarpinu. Það orkar hinsvegar tvímælis þegar einstök fyrirtæki eru valin og kynnt sérstaklega eins og gert var með líkamsræktarfyrirtæki í Grindavík þennan sama morgun. Þar geta umsjónarmenn verið á hálum ís.

Úr mbl.is (08.01.20121): Grjóti var kastað á tvo lögreglumenn, sem stöðvuðu bíl við borgarhlið fríríkisins Kristjaníu í Kaupmannahöfn síðdegis í gær. Málvenja er að tala um að kasta grjóti í fólk, ekki kasta grjóti á fólk.

Kristinn Snæland áhugamaður um íslenskt mál hafði samband við Molaskrifara og benti réttilega á að óþarfi væri að tala um snjóbyl eða snjóstorm ( hrá þýðing úr ensku) þegar við ættum ágæt orð eins og stórhríð og byl. Þá nefndi hann að oft væri orðið stærstur notað þar sem betur færi á að nota annað orð. Til dæmis þegar sagt væri að Japanir væru stærstu loðnukaupendurnir. Ekki heyrði Molaskrifari betur en hér- á- Rúv kona Ríkissjónvarpsins talaði um söngvakeppni Sjónvarpsins sem einn stærsta sjónvarpsviðburð ársins. Kristinn nefndi enn fremur að stundum væri sagt frá Köldukinn norður í Þingeyjarsýslu, en heimamenn töluðu um Kaldakinn., – Kaldakinnn um Kaldakinn, frá Kaldakinn til Kaldakinnar. Kaldi væri hér í merkingunni innnlögn eða hafgola. Molaskrifari þakkar Kristni Snæland þessar ábendingar.

Í fréttum Ríkissjónvarps (08.01.2012) var sagt frá konu sem bjargaðist naumlega úr lífsháska og sagt að hún hefði verið þakklát fyrir lífsbjörgina. Orðið lífsbjörg þýðir matvæli eða fæða. Þarna hefði átt að segja að konan hefði verið þakklát fyrir björgunina, fyrir að henni var bjargað.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. axel skrifar:

    Fotbolti.net er frábær síða fyrir fótboltaáhugafólk. Þeir mættu þó vanda málfarið og þýðingarnar til muna. Sammála því. Hvað er samt að því að tala um vængmenn? Vængmenn hafa verið til í fótbolta frá því ég man eftir mér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>