Einar Kr. sendi eftirfarandi (10.01.2012): ,,Á dv.is (9.1.2012) er í fréttinni „Bankamaður örmagnast“ fjallað um að stjórnarformaður Lloyds bankans hafi snúið til vinnu eftir að hafa örmagnast í fyrra. Vísað er til fréttaveitunnar Reuters, en þar kemur reyndar fram að hann hafi verið tvo mánuði frá störfum, leiðinda ónákvæmni blaðamanns. Reuters segir manninn reyndar vera „Chief Executive“ eða „Lloyds Boss“, sem á íslensku er forstjóri en ekki stjórnarformaður. Síðan segir: „Hann var þekktur fyrir að [vera] heltekinn af smáatriðum. Nú heitir hann því að breyta vinnulagi sínu og taka við skýrslum frá færri starfsmönnum, en hann tók áður við upplýsingum frá 13 manns.“ Þegar ég las fréttina hugsaði ég um aumingja manninn sem örmagnaðist af því að hann las yfir sig af skýrslum eða tók við of mikið af upplýsingum! Ónei! Hér verður blaðamanni illilega hált á svellinu við að þýða ensku sögnina „report to“ í „að taka við skýrslum“ eða „taka við upplýsingum“. Á Reuters segir „… will change his intensive working style and have fewer people reporting to him than the previous 13.“ Hér hefði betur verið sagt að forstjórinn ætlaði að hafa færri undirmenn eða færri starfsmenn sem heyra beint undir hann. Þetta eru sleifarleg vinnubrögð.” Undir það tekur Molaskrifari og þakka sendinguna.
Herjólfur felldi niður ferð segir í fyrirsögn á mbl.is (10.012012). Herjólfur felldi ekki niður ferð. Ferð Herjólfs var felld niður eins og réttilega er sagt í fréttinni.
Það er eitthvað einstaklega ógeðfellt við sjónvarpsauglýsingu Íslandsbanka og Byrs, – andlitið sem breytist. Jaðrar við óhugnað. Er það kannski ein aðferðin til að laða að viðskiptavini, – eins og auglýsingabullið í Byr um fjárhagslega heilsu þegar sparisjóðurinn var á hvínandi kúpunni ?
Mikið er Molaskrifari ánægður með hve íþróttafréttamenn Ríkissútvarpsins eru iðnir við að segja hvaða knattspyrnustjórar hingað og þangað í veröldinni eru ráðnir og hverjir eru reknir. Allt eru þetta auðvitað heimsfréttir.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (10.01.2012) var sagt frá greiðslu kostnaðar læknisaðgerða vegna gallaðra silikonbrjóstapúða. Fréttamaður sagði: Ríkið greiðir brúsann. Það er fast orðtak að tala um að borga brúsann, ekki greiða brúsann. Engin ástæða til að breyta því.
Ármann sendi þetta: ,,Á dv.is mátti í dag (10/01/12) lesa eftirfarandi texta í frétt: Það er komið fram við sparifjáreigendur eins og óvini ríkisins,“ segir Vilhjálmur Bjarnason framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta sem líkir núverandi skattheimtu sparifés við galdrabrennur fyrri alda. Skattheimta sparifés?! Á árum áður var börnum sérstaklega kennt að fallbeygja orðin ær og kýr. Það væri ekki vitlaust að kenna slíkar fallbeygingar í nýtískufaginu fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands.”” – Molaskrifari tekur undir það og svo vel þekkir hann Vilhjálm Bjarnason að það hvarflar ekki að honum að hann kunni ekki að beygja orðið fé.
Flutningaskip strandaði við Nýja Sjáland og brotnaði svo nokkrum vikum seinna í tvennt á skerinu. Nokkrum dögum síðar sökk afturhluti skipsins. Í fréttum Ríkissjónvarps (10.012012) var sagt að skutur skipsins hefði sokkið. Molaskrifari er ekki sáttur við það orðalag. Hvað segja sjófróðir menn? Skutur getur aldrei náð fram undir miðju skips.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/01/2012 at 16:49 (UTC 0)
Því miður eru núverandi yfirmenn í Efstaleiti búnir að breyta Ríkissjónvarpinu í íþróttarás og ameríska vídeoleigu.
Axel skrifar:
15/01/2012 at 10:50 (UTC 0)
Sammála Gunnari. Það er fáranlegt að halda því fram að ólíkur smekkur kynslóða á sjónvarpsefni tengist óvirðingu með nokkrum hætti. Það þarf asskoti mikin vilja til að miskilja það út úr orðum Gunnars. Gildir þá einu hvert eftirnafnið er.
Fótbolti er vinsælt áhugamál og tómstundaiðja á Íslandi. Það sýna til dæmis tölur um iðkendur á Íslandi. Það sýna líka vikulegar flettingar á fotbolta.net svo einhver dæmi séu tekin. Það er því fullkomlega eðlilegt að sagðar séu fótboltafréttir í stuttu máli undir lok fréttatíma Rúv. Það er reyndar afar mótsagnakennt að halda því fram að það sé hlutverk Rúv að hafa einungis á dagskrá það sem fellur að geðlagi ,,þorra“ þjóðarinnar.
Eiður skrifar:
14/01/2012 at 19:52 (UTC 0)
Það er því miður ómögulegt að skilja skrif þín á annan veg en að þú sért að gera heldur lítiðúr eldri borgurum. En hvernig í ósköpunum á ég að vita eitthvað um þín fyrri störf? Þú lætur ekki svo lítið að skrifa undir fullu nafni. Þú segir mig ekki sýna íþróttum neinn skilning þegar ég furða mig á fjölda frétta um knattspyrnustjóra sem ýmist eru reknir eða ráðnir víðsvegar í veröldinni. Ég held mig við það að slíkar fréttir séu ekki fréttir fyrir þorra fólks á Íslandi. Ættu kannski heima í sérstökum íþróttaþáttum, – ekki almennum fréttum. Þú sakar mig um ósvífni og dónaskap. Það er mikil kurteisi og hógværð af þinni hálfu.
Gunnar skrifar:
14/01/2012 at 18:35 (UTC 0)
Ekki skil ég Eiður hvernig þér dettur í hug að snúa þessu upp í það að ég beri ekki virðingu fyrir eldri borgurum! Þvílík ósvífni og dónaskapur. Að segja að ég líti niður á eldri borgara?! Þú hefur ekki hugmynd um minn bakgrunn eða hvað ég geri Eiður. Ættir að skammast þín fyrir lágkúruleg svör.
Og það að segja að amma horfi á leiðinlegt sjónvarpsefni hefur ekkert með það að gera að ég líti niður á eldri borgara. Þvílík firra Eiður Guðnason. Það er mín skoðun. Ég og amma mín erum ekki alltaf sammála um hlutina og höfum gaman að karpa um hitt og þetta. Ég heimsæki ömmu mína reglulega og við erum í góðu sambandi. Bið þig um að sýna mér virðingu. Maður sem hefur gegnt þeim embættum ætti að hafa vit á því að tala til fólks af virðingu.
Inngangur minna skrifa var sá að ég var að benda á misjafnar þarfir neytenda. Ég skil vel þarfir eldra fólks sem horfir á þætti sem yngri fólkið horfir ekki á. Ég sýni því skilning. Þú aftur á móti sýnir íþróttum engan skilning miðað við skrif þín um knattspyrnustjórana.
Eiður skrifar:
12/01/2012 at 20:03 (UTC 0)
Fréttir af siglingum Herjólfs eru liður í þeirri almannaþjónustu sem Ríkissjónvarpið er skyldugt að veita. Ríkisútvarpið er ekki hafið yfir gagnrýni, – þeir eru fleiri en þú heldur sem finnst íþróttadeildin ráða alltof miklu um dagskrá Ríkissjónvarpsins. Af hverju gerir þú lítið úr ömmu þinni með því að segja að hún hafi gaman af arfaslöku sjónvarpsefni? Hvað er arfaslakt sjónvarpsefni ´æi þínum augum? Allt sem ekki tengist fótbolta? Það er engu líkara en þú lítir niður á eldri borgara, – berð allavega ekki mikla virðingu fyrir þeim.
Gunnar skrifar:
12/01/2012 at 17:56 (UTC 0)
Ég er íþróttaáhugamaður. Ég hef áhuga á knattspyrnu. Mér þykir áhugavert að heyra hinar ýmsu íþróttafréttir. Ég tel að endalausar fréttir af því að Herjólfur geti ekki siglt vegna veðurs ekkert rosalega spennandi. Sumir hafa aftur á móti áhuga á því.
Smekkur fólks er misjafn. Sumir kvarta yfir hlutunum. Aðrir ekki. Þú ert í fyrri hópnum.
Ég neyðist til að horfa á arfaslakt sjónvarpsefni á RÚV sem þú hefur eflaust mikinn áhuga á. Amma mín hefur einnig gaman af slíku efni. Ég skil að þarfir neytenda eru misjafnar. Mér dettur ekki til hugar að ætlast til að íþróttir séu alltaf í sjónvarpi þrátt fyrir íþróttaáhuga minn.
Ekki neikvæðni Eiður og um leið ekki vera of þröngsýnn. Slíkt fer ekki fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
Bestu kveðjur,
Gunnar