Þessi ágæta sending barst frá Molavin í byrjun vikunnar (10.01.2012):
,,Sennilega fer lítið fyrir tilsögn inni á ritstjórnum íslenzkra fjölmiðla um þessar mundir. Til starfa kemur nú kynslóð, sem hefur ekki vanizt því svo mjög að lúta tilsögn en hefur önnur verkfæri í farteski sínu; Netið og Google. Við bætist svo metnaðarleysi þeirra ráðamanna, sem þar eru fyrir, og eru ekki vakandi og sofandi yfir fréttamennskunni né kröfuharðir á málfar í fjölmiðlum sínum. Þetta, ásamt vaxandi tilhneigingu til þess að notast við hreinar orðabóka- eða google-þýðingar á erlendum hugtökum og litlum vilja til þess að nota uppsláttarrit eða heimildir, hefur nú mótandi áhrif á málfar þjóðarinnar.
Tvö dæmi um þetta er að finna í Netmogga dagsins; annars vegar frétt um að skipt verði um ,,starfsmannastjóra“ í Hvíta húsinu í Washington – hitt tilkynning um Netvarpsþætti blaðsins um fólk, sem hefur ,,komið úr skápnum.“ Það fyrra er beinlínis röng þýðing, þar sem embættið ,,Chief of Staff“ er notað yfir æðsta embættismann bandaríska forsetaembættisins, er ekki það sama og ,,Director of Human Resources.“ Ella væri viðeigandi að nota þýðinguna ,,mannauðsstjóri“, sem nú virðist vera orðin útbreidd enskuþýðing á Íslandi. Að opinbera samkynhneigð sína var til skamms tíma almennt kallað hér á landi ,,að koma úr felum,“ enda hafði það fólk flest lifað hálfgerðu felulífi. Þess í stað er orðin venja að nota ensku orðabókaþýðinguna um skápinn; að koma úr skápnum – ,,coming out of the closet.“
Eins og margt annað, er síðari þýðingin ekki beinlínis röng, en hún endurspeglar tiltekna uppgjöf í meðferð móðurmálsins; uppgjöf fyrir enskri tungu. Fyrri þýðingin er hins vegar alröng, villandi upplýsingar sem hljótast af því að fréttamenn eru ekki starfi sínu vaxnir.
Við sjáum það daglega að enskur fréttatexti er hráþýddur og birtur á Netmiðlum eða í blöðum og hvorki haft fyrir því að koma honum í sómasamlegt íslenzkt frásagnarform né reynt að beita þeim mörgu brögðum íslenzkrar tungu, sem gera texta fallegan eða hrífandi. Mér skilst að þetta megi allt saman rekja til þess að móðurmálskennsla er á undanhaldi í skólum og ekki gerðar sömu kröfur til kennara og fyrr. Svo uppsker hver sem hann sáir.” Molaskrifari þakkar góða sendingu.
Úr hádegisfréttum Ríkisútvaps (12.01.2012): Tæplega þriðjungur alls þorskfiskafla landsins var landað á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Hversvegna lesa reyndir menn svona ambögu ? Þetta átti að vera: Tæplega þriðjungi … var landað.
Margir eiga sífellt í erfiðleikum með orð sem aðeins eru til í fleirtölu eins og göng. Viðmælandi fréttastofu Ríkisútvarpsins (12.01.2012) ræddi um jarðgöng fyrir norðan og talaði um þrjú göng. Hefði betur sagt: Þrenn göng.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
14/01/2012 at 13:58 (UTC 0)
Man ekki til þess að ég hafi lagt orðionu ,,ritari“ lið í þessu efni. En stundum hefur verið talað um ,,yfirmann starfsliðs Hvíta hússins#, en það er svo sem klúður líka.
Jón skrifar:
14/01/2012 at 13:28 (UTC 0)
Notkun orðsins „starfsmannastjóri“ fyrir „Chief of Staff“ hefur áður verið til umræðu. Ef ég man rétt vildi Molaskrifari nota „ritari“ en það er nú einu sinni frátekið. Því starfi gegnir Anita Decker. Molavinur hefur e.t.v. á takteinum rétta orðið, það hefur hingað til ekki fundist. Eina leiðin út úr þeim vandræðum er annaðhvort að nota „ráðuneytisstjóri“ eða þá „starfsmannastjóri“ og bæta við að það sé eitt valdamesta embættið í Hvíta húsinu að forsetanum frátöldum. Í frétt RÚV var þetta gert: „Embætti starfsmannastjórans er um margt valdamikið og hann gegnir til dæmis mikilvægu hlutverki í samskiptum Hvíta hússins við Bandaríkjaþing.“