Í fréttum Stöðvar tvö (12.01.2012) var sagt: … upptök hans (jarðskjálftans) urðu við borgina … Upptök jarðskjálftans urðu ekki. Þau voru við borgina …
Fréttamaður Ríkissjónvarps sagði í kvöldfréttum (12.ö1.2012) :… helmingur deildarinnar lokar. Hverju ætlar helmingur deildarinnar að loka? Það kom ekki fram. Skárra hefði verið að segja: Helmingi deildarinnar verður lokað.
Dálítið undarlegt fréttamat hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (12.01.2012) að fyrsta frétt í tíu fréttum sjónvarps skyldi vera af innanhússfundi VG um staðgöngumæðrun, – sem var eiginlega engin frétt.
Festu bíla á Hellisheiði, segir í fyrirsögn á mbl.is (13.01.2012). Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að umræddir bílar voru fastir neðan við Litlu Kaffistofuna eða rétt ofan við Sandskeið. Litla Kaffistofan er ekki á Hellisheiði það ættu þeir sem skrifa fréttir mbl.is að vita.
Úr mbl.is (13.01.2012): Hann segir skilning á röskuninni ábótavant … Hér ætti að standa: Hann segir skilningi á könnuninni ábótavant. Einhverju er ábótavant.
Í fréttatímum Ríkisútvarpsins (13.01.2012) var sagt frá bandarískum hermönnum sem migið höfðu á lík talibana sem þeir höfðu drepið. Ógeðfelldur verknaður að ekki sé meira sagt. Ýmis var notað orðalagið kasta vatni, kasta af sér vatni eða míga. Það er ekkert dónalegt eða gróft við að nota sögnina að míga. Í sömu fréttum var ítrekað sagt að starfsfólk ýmissa alþjóðastofnana hefðiþegar verið flutt úr einu húsnæði í annað öruggara. Betra hefði verið að segja að starfsfólk hefði verið flutt í öruggara húsnæði. Í fjögurfréttum þennan dag var sagt frá rannsókn á morðum í Malmö í Svíþjóð og sagt að lögreglan hefði aukið fjölda lögreglumanna á vakt í miðborginni og íbúðahverfum. Betra hefði verið að segja að lögreglumönnum hefði verið fjölgað í miðborginni og íbúðahverfum. Umrædd setning hafði reyndar verið lagfærð í þessa veru í sexfréttum útvarpsins.
Í fréttum Stöðvar tvö (13.01.2012) var sagt: Slitastjórn Glitnis reisir málatilbúnað sinn á þessu. Hversvegna ekki: … byggir málatilbúnað sinn á þessu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
16/01/2012 at 12:36 (UTC 0)
Ætli Tryggvi ætti þá ekki stundum leið til Bessastaða ef Gísli sonur hans settist þar? Þannig mætti slá tvær flugur í einu höggi.
Eiður skrifar:
16/01/2012 at 09:03 (UTC 0)
Biðst velvirðingar. Þarna átti að vera nafn Gísla Tryggvasonar , umboðsmanns neytenda.
Þorvaldur S skrifar:
15/01/2012 at 22:58 (UTC 0)
Og ætli Tryggvi þætti ekki full aldinn fyrir embættið, en á þessu ári verður hann 74 ára? En hann er að sönnu prýðilega ern ennþá!
Eiður skrifar:
15/01/2012 at 21:08 (UTC 0)
Svar við athugasemd frá Ármanni:
Sæll Ármann.
Ekki kann ég við sögnina að ímeila, tala frekar um að senda tölvupóst, tölvuskeyti, tölvubréf. Sögnin að planka finnst mér heldur ekki góð. Þetta plank er stundarfyrirbrigði sem gleymist fljótt ,, – held ég. Sögnin að gúggla að nota google.com eða aðra leitarvél á netinu virðist hinsvegar orðin nokkuð föst í málinu. Hún er svo sem ekkert afbragð en ég er búinn að sætta mig við hana.
Víkverji Morgunblaðsins segir að tugir þúsunda vilji Tryggva Gíslason á Bessastaði. Ég hef ekki heyrt í þeim kór. Hann er sjálfsagt ágætismaður , en ég sé hann nú samt ekki fyrir mér sem forseta. K kv Eiður