«

»

Molar um málfar og miðla 815

Eins og Molaskrifari nefnir stundum á Mogginn það til að vera skemmtilegur, en stundum er það líklega óvart. Víkverji veltir fyrir sér hugsanlegum forsetaframbjóðendum (14.01.2012) og segir: Forréttindastéttirnar hafa til þessa haft sína talsmenn í æðsta embætti þjóðarinnar. Nú er röðin komin að okkur neytendum og því skorar Víkverji á Gísla (innskot – Tryggvason talsmann neytenda) að svara kalli kórs tugþúsunda almennra Íslendinga. Molaskrifari er líklega orðinn alveg heyrnardaufur. Hann hefur ekkert heyrt til þessa tugþúsunda þjóðkórs almennra Íslendinga sem vilja Gísla Tryggvason á Bessastaði. Gísli er sjálfsagt mesti sómamaður sem gæti sinnt þessu embætti vel. En hvar er kórinn, hvar getur maður heyrt í þessum tugþúsundum? Hvar hafa þær látið til sín heyra ? Svo ætlast Moggi til að vera álitinn alvörublað! Kannski á þetta bara að vera brandari.

Í lok fréttatíma Ríkissjónvarps (13.01.2012) kynnti fréttaþulur mynd frá sædýrasafninu í Minsk þar sem tveir höfrungar og tveir hvítir hvalir una glaðir við sitt, eins og það var orðað. Ekki varð betur séð en hvítu hvalirnir sem svo voru nefndir væru mjaldrar eða hvítingar.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (14.01.2012) var sagt frá strandi stórs farþegaskips við Ítalíu var ítrekað talað um strandbáta. Molaskrifara er ekki alveg ljóst hverskonar bátar það eru. Kannski bara venjulegir smábátar?

Oftar og oftar heyrir maður talað um síðasta sumar. Að minnsta kosti tvisvar í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (14.01.2012). Er búið að banna fréttamönum að segja í fyrra sumar? Eins og búið er að banna þeim að nefna Ríkisútvarpið á nafn? Hvað segir málfarsráðunautur um síðasta sumar og síðasta vetur?

Dæmalaust er þetta góður texti af mbl.is (14.01.2012) : „Á meðan við sigldum á eðlilegum siglingarhraða þá rákumst við á kletta,“ sagði Fracesco Schettino, skipstjóri skipsins við ítalska fjölmiðla í dag og bætti við „Samkvæmt sjókortinu okkar þá hefði átt að vera nægilega mikið vatn undir okkur.“ Ekki verður annað sagt en að þetta sé snilld !
Pressan.is (14.01.2012) Fyrirsögn: Sorglegt ef Landlæknir hafi komið í veg fyrir að Jens skrifaði bréfið – 75 konur ætla í mál . Betra hefði verið: Sorglegt ef landlæknir kom í veg fyrir ….
Þolmyndarnotkun á að forðast í fréttaskrifum þegar unnt er. Þolmyndarnotkun getur valið því að merking verður óljós. Í fréttum Stöðvar tvö (15.01.2012) var sagt: … en bíllinn hennar var hirtur af Lýsingu aðfaranótt föstudags. Hér er óljóst hvort bíllinn var fjarlægður frá Lýsingu eða hvort Lýsing hirti bílinn Af efni fréttarinnar var þó ljóst að Lýsing lét hirða bílinn.
Margrét Tryggvadóttir alþingismaður þurfti að leiðrétta umsjónarmann Rásar tvö í morgunútvarpi í morgun (16.01.2012) er hann sagði að Alþingi yrði sett í dag. Margrét benti réttilega á að Alþingi hefði verið sett í haust en fundir hæfust að nýju í dag eftir jólahlé. Þáttastjórnendur eiga að vita betur.
Molaskrifari heyrði og sá aðeins hluta af Söngvakeppni sjónvarpsins (14.1.2012). Náði laginu Mundu eftir mér eftir Gretu Salóme Stefánsdóttur. Sem var gott og vel flutt. Ólíkt hinum karakterlausu formúlulögum sem annars hafa einkennt þessa þætti undanfarin ár. Ekki spillti glæsilegur búningur flytjanda (höfundar). Annað hvort nær þetta lag mjög langt eða því verður fljótlega kastað fyrir róða af því að það er ekki samkvæmt formúlunni. Brynja kynnir komst vel frá sínu og smekklega. Gott að vera laus fatafígúruganginn sem stundum hefur fylgt þessu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>