Sjálfsagt var að sýna beint frá handboltaleik Íslands og Króatíu í gærkveldi (16.01.2012).Auðvitað. Engar deilur það. En þurfti Ríkissjónvarpið að leggja rúmlega fjórar klukkustundir undir handbolta í gær? Það getur á engan hátt talist eðlilegt þegar um er að ræða skylduáskrift að einni rás í Ríkissjónvarpi. Náðarsamlegast fengum við fjögurra mínútna fréttir klukkan 1900. Í sex fréttum útvarps sagði Broddi Broddason að sjöfréttir sjónvarps yrðu í styttra lagi ! Það var ekki ofmælt. Þetta heitir víst að gegna þjónustuhlutverki sínu með sæmd. Stjórnleysi ríkti reyndar í einar 15 mínútur í útsendingunni meðan beðið var eftir gervihnattasambandi við Serbíu. Á meðan var dauður skjár með ömurlegum undirleik, einskonar sorgarstefi. Engin norræn ríkisstöð, að því er best verður séð, misbýður áhorfendaskara sínum með sama hætti og Ríkissjónvarpið íslenska gerir. Það er ekkert undarlegt þótt talað sé um Ríkissjónvarpið sem íþróttarás, – og ameríska vídeóleigu sé horft til þess hve ríkur þáttur íþróttir af öllu mögulegu tagi og amerískar þáttaraðir og kvikmyndir af ýmsu tagi eru í dagskránni.
Í morgunútvarpi Rásar tvö (16.01.2012) var viðtal við Gísla Tryggvason talsmann neytenda um iðnarsaltsmálið. Hann gerði heldur lítið úr ábyrgð eftirlitsstofnana en meira úr ábyrgð fyrirtækjanna sem notuðu saltið. Það má svo sem nokkuð vera til í því. Umsjónarmaður spurði hvort lög hefðu verið brotin. Talsmaður neytenda sagði að sér skildist að formreglur hefðu verið brotnar. Þegar umsjónarmaður Margrét Marteinsdóttir gekk eftir því hvað talsmaður neytenda ætti við með því að formreglur hefðu verið brotnar. Þá viðurkenndi hann að efnisreglur verið brotnar. Það væri efnisregla að iðnaðarsalti mætti ekki dreifa til matvælaframleiðenda. En það hefði enginn skaði orðið. Getur hann fullyrt það ? Er ekki bannað að nota iðnaðarsalt í matvælaframleiðslu vegna þess að það gæti haft skaða í för með sér. Hver væri annars tilgangurinn með banninu? Ég er hræddur um að slæmt eftirlit eða ekkert eftirlit sé verra en ekkert , sagði talsmaður neytenda.
Skrifað er á dv.is (15.01.2012): Bubbi Morthens ætlar að hætta að versla vörur af Ölgerðinni vegna iðnaðarsaltmálsins. Reynir ritstjóri Traustason þarf að kenna þeim sem þetta skrifaði að nota sagnirnar að kaupa og að versla og skýra muninn á þeim. En hvern fjárann kemur okkur annars við hvað Bubbi Morthens gerir?
Venju fremur mörg málblóm voru í íþróttafréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld (15.01.2012). Blómlegar fréttir, eða þannig. Hér eru nokkur: Nokkuð óvænt úrslit áttu sér stað… Úrslit eiga sér ekki stað. Nokkuð óvænt úrslit urðu, – hefði verið ögn betra. Á hinum enda Bandaríkjanna …. skárra hefði verið að segja til dæmis : Hinu megin í Bandaríkjunum eða á hinni strönd Bandaríkjanna. Tók málin í sínar eigin hendur ….Nægt hefði að segja: Tók málin í sínar hendur. … taka þátt á leikunum, var sagt. Menn taka ekki þátt á leikum. Menn taka þátt í leikum. Nú er farið að ota að okkur amerískum fótbolta í íþróttafréttum. Ekki er líklegt að hér á landi séu margir áhugamenn/iðkendur þessarar greinar. En íþróttafréttamenn hafa ákveðið að þetta skuli þjóðin sjá. Þá verður það auðvitað þannig. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.
visir.is segir að hundaskítur sé út um allt á Selfossi (16.01.2012). Þar sé um að ræða uppsöfnuð lögbrot. Þá vitum við það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
18/01/2012 at 13:57 (UTC 0)
Sammála því að óþarfi sé að sýna beint frá öðrum leikjum en Íslendinga í riðlakeppninni. Þetta er full mikið dekur við handbolta á opinberum fjölmiðli.
En fyrir utan handbolta er ég ekkert viss um að útsendingar og umfjöllun um aðrar íþróttir hafi aukist svo mikið sem Eiður heldur ítrekað fram. Ég man þá tíð þegar útsendingar frá þýskri, enskri og íslenskri voru vikulegar. Í dag eru ekki reglulegar útsendingar frá einni einustu fótboltadeild í heiminum. Einungis vikulegir þættir um íslenska knattspyrnu á sumrin og svo stutt umfjöllun um aðrar deildir aftast í fréttatímum. Ég man líka þá tíð þegar útsendingar frá frjálsum íþróttum, fimleikum, sundi, pílukasti, skák og ótal öðrum íþróttum voru mikið algengari en í dag.
Vignir Sveinsson skrifar:
17/01/2012 at 23:36 (UTC 0)
Sæll Eiður og þakka þér seinustu samskipti.
Ég er að venju sammála þér um margt. Hvað varðar mig um Bubba? En ég þarf svosem ekkert að lesa það. Það er það dásamlega við vefinn, og fjölmiðla almennt, valið.
Að venju vælir þú því að RÚV sinni þér ekki nægilega vel. Fréttir.. sem reyndar eru aðgengilegar allan daginn á vefnum voru af skornum skammti og flest er frekar ómögulegt.
Svona þegar ég velti því fyrir mér þá hefurðu fallið ansi hratt niður virðingarlistann hjá mér undanfarið. Þú hefur breyst í Gvend gamla í horninu. Náungann sem virtist lifa fyrir að hafa allt á hornum sér. Ég man vel eftir Gvendi. Hann hataði okkur krakkana vegna þess að..tja líklega vegna þess að okkur líkaði lífið.
Hafðu það gott Eiður. Það hlítur að vera erfitt að vera svona pirraður. Held reyndar að þetta sé heilsuspillandi.
Vignir
Alexander Freyr Einarsson skrifar:
17/01/2012 at 22:31 (UTC 0)
Af því þú ert svo mikið fyrir að hafa málfræðina algerlega óviðjafnanlega, þá vil ég koma með nokkrar vinsamlegar ábendingar.
,,Þegar umsjónarmaður Margrét Marteinsdóttir gekk eftir því hvað talsmaður neytenda ætti við með því að formreglur hefðu verið brotnar. Þá viðurkenndi hann að efnisreglur verið brotnar.“
– Þarna á milli átti ekki að vera punktur. Komma hefði verið betur við hæfi.
„Er ekki bannað að nota iðnaðarsalt í matvælaframleiðslu vegna þess að það gæti haft skaða í för með sér.“
– Þarna hefði þótt eðlilegt að setja spurningarmerki.
Eiður skrifar:
17/01/2012 at 22:16 (UTC 0)
Íþróttadeildin sem öllu ræður fær aldrei nóg.
Ari skrifar:
17/01/2012 at 22:09 (UTC 0)
þarna átti að standa „eða“ ekki „ðe“
Ari skrifar:
17/01/2012 at 22:08 (UTC 0)
það er nóg í riðlakeppnum að sýna íslensku leikina í beinni, hina má sýna í upptökum ðe samantektum kl. 23 +
Eiður skrifar:
17/01/2012 at 20:01 (UTC 0)
Nú verða menn – hér á RÚV að svara !
Eiður skrifar:
17/01/2012 at 20:00 (UTC 0)
Íþróttadeildin fer sinu fram. Hvað sem hver segir.
Kristján skrifar:
17/01/2012 at 19:48 (UTC 0)
RUV virðist missa alla dómgreind þegar handboltalandslið karla er í eldlínunni.
En það var helst í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld (17.1.) að textavélin brást enn einu sinni ….hér á RÚV. Var einhver erlend frétt með íslenskum texta í þessum fréttatíma….? Ég veit ekki hvað spænska hundakonan sagði…hér á RÚV. Það var ekki haft fyrir því að fræða okkur, sem ekki skiljum spænsku…..hér á RÚV. Algjör viðvaningsháttur eins og oft áður. Er ekki til einstaklingur í þessum heimi sem getur lagað textavélina….hér á RÚV?
Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:
17/01/2012 at 14:20 (UTC 0)
Tel líklegt að þér – og fleirum – verði ansi oft misboðið næstu daga, enda sýnist mér sem Ríkisútvarpið ætli sér að sýna frá sem flestum leikjum á Evrópumótinu. Leikirnir eru jafnan kl. 17 og kl. 19. Lítið verður því um hefðbundna fréttatíma í bráð.