Af dv.is (16.01.2012): Laugardagskvöldið 7 janúar var afar slæm færð og mun bílstjórinn hafa verið á keðjur á dekkjum til þess að komast yfir. Af hverju skrifa menn svona? Einfalt hefði verið að segja: Bíllinn var á keðjum.
Meira af dv.is sama dag: Meðfylgjandi myndband af eldsvoðanum sem vegfarandi náði hefur verið sett inn á YouTube og þar má greinilega sjá eldhafið, litlar sprengingar sem verða í mestu bálköstunum og loks þegar slökkviliðið kemur á vettvang. Hér er orðið bálköstur ekki rétt notað. Bálköstur er, segir orðabókin: hlaði af brenni sem kveikja á í eða sem kveikt hefur verið í. Logandi bíll er ekki bálköstur. Eðlilegra hefði til dæmis verið að tala um sprengingar þegar aukinn kraftur færðist í eldinn.
Sumum fjölmiðlamönnum gengur ótrúlega illa að skilja muninn á sögnunum að kaupa og versla og nota þær rétt. Í morgunútvarpi Rásar tvö sagði umsjónarmaður sem var að ræða við vegfarendur um saltmálið: Ætlar þú að versla mat frá þessum fyrirtækjum? Ætlar þú að kaupa mat frá þessum fyrirtækjum vildi hann sagt hafa. Oftast hafði hann þó þetta rétt. Við verslum ekki mat. Við kaupum mat. Í þessum sama morgunþætti talaði umsjónarmaður um ferjuskipið sem strandaði við Ítalíu. Skipið var ekki ferja. Þetta var skemmtisiglingaskip eða skemmtiferðaskip. Hann talaði líka um hafnasögumenn. Átti við hafnsögumenn. Dagskrárstjórar eiga að gera meiri kröfur til starfsmanna sinna um vandað málfar.
Kvikmyndin Listamaðurinn fékk verðlaun fyrir bestu gamanmyndina var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (16.01.2012). Eðlilegra hefði verið að segja að myndin hefði verið valin besta gamanmyndin.
Í fréttum Stöðvar tvö (16.01.2012) var sagt um listsýningu að hún yrði í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Betra hefði verið að segja að sýningin yrði í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.
Úr fréttayfirliti morgunútvarps Ríkisútvarpsins )17.01.2012) um olíubíl sem hafnaði utan vegar í Ísafjarðardjúpi: Óttast er að einhverjir þúsund lítrar hafi lekið út. Hvað þýðir þetta. Óttast er að um þúsund lítrar hafi lekið út eða að nokkur þúsund lítrar hafi lekið út ?
Úr áttafréttum Ríkisútvarps (17.01.2012): … eða gestir í sumarbúðunum Riftúni í Ölfusi sem reknir voru af kirkjunni. Erfitt að skilja hvernig menn geta lesið svona, – og ekki leiðrétt.
Sex matvæli sem þú ættir ekki að borða segir í fyrirsögn á mbl.is (17.01.2012). Þetta er hjákátlegt orðalag. Betra hefði verið að tala um sex matartegundir eins og gert í fréttinni undir fyrirsögninni.
Af visir.is (17.01.2012) Samkvæmt sænska Dagbladet var konan fundin í stofu íbúðarinnar og dóttirin í svefnherberginu. Undarlegt orðalag. Beint lá við að segja: Konan fannst í stofu íbúðarinnar …
Molalesandi sendi Molum þessa frétt í heild og var þeirrar skoðunar að hún væri illa skrifuð. Fréttin er svona
,,Svíar eru slegnir óhug eftir að sænsk, 38 ára gömul kona og átta mánaða gömul dóttir hennar, fundust látnar í íbúð í bænum Arboga í Svíþjóð í gær. Sænska lögreglan rannsakar málið sem morðmál, en sænskir fjölmiðlar hafa ekkert fengið staðfest um hvernig þeim gæti hafa verið ráðinn bani. Samkvæmt sænska Dagbladet var konan fundin í stofu íbúðarinnar og dóttirin í svefnherberginu. Konan mun hafa verið merkt á hálsinum og það er helst þetta merki sem fær lögregluna til að gruna að andlát mæðgnanna hafi borið að með saknæmum hætti. Konan hafði búið við heimilisofbeldi og árið 2010 hafði þáverandi unnusti hennar verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn henni og að hafa hótað henni lífláti.”
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/01/2012 at 21:46 (UTC 0)
Uppábúið rúm ! Ja hérna. Það hefði mátt skila þetta í gamla daga þegar til voru sérstök jólasængurver og koddaver ! Óskiljanlegt að talað skuli um hafnasögumenn opg hestaöfl !
Sigurður Hreiðar skrifar:
18/01/2012 at 19:11 (UTC 0)
Drottinn minn, hvernig hægt er að klúðra þýðingum eins ferlega eins og þessi síðasta tilvitnun út visir.is. Margt sá ég á minni tíð sem mér var fengið til yfirlestrar af þýðingum og þótti margt slæmt þó virtir þýðendur ættu í hlut og svo er að sjá sem framfarir hafi litlar sem engar orðið með þjóðinni á þessari hálfu öld. Er tam. núna að lesa skemmtibókina Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf. Mér skilst að þýðandinn njóti virðingar sem slíkur — en það á hann ekki skilið. Því síður þeir prófarkalesarar sem hleypa slíkum subbuskap í gegn sem þar er sums staðar að finna. Vel má vera að orðin séu flest eða öll á íslensku en það er ekki nóg ef eðlilegrar samröðunar þeirra er ekki gætt. Þess utan talar hann alltaf um kameldýr þegar hann meinar úlfalda. Söguhetjan fer á fínt hótel og gistir í uppábúnu rúmi — og fleira í þessum dúr. — Þetta með uppábúna rúmið flækist nú um allt málfélagið og svo sem fleira því líkt, þar sem staf er skotið inn í að ófyrirsynju, eins og þú raunar nefnir með hafnasögumanninn. Nýlega var afkastageta dráttarvélar mæld í hestaöflum í einhverjum punktur-is miðlinum og alþekkt er hjalið með náttúruleg fyrirbæri.