«

»

Molar um málfar og miðla 818

Molavin sendi eftirfarandi (18.01.2012): ,,Moggafrétt hefst svo: NN hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Alþjóðalausna hjá Valitor. Starfsemi Alþjóðalausna felst í að bjóða greiðslulausnir á alþjóðlegum vettvangi. Hér hefur Moggi skrúfað frá krana fréttatilkynninga. Ekki er þess getið í fréttinni hvaða fyrirbæri ,,alþjóðlausnir“ er; – var maðurinn ráðinn til þess að koma á heimsfriði? Eða á hann að leysa greiðsluvanda heimilanna um heim allan?
– Og hvernig væri að upplýsa lesendur um það að fyrirtækið Valitor gengur almennt undir nafninu Visa-Ísland?”
Og Molavin bætir við: Í Vísisfrétt segir svo:,, Afhoggið höfuð fannst á göngustíg… Þessi ritháttur – hoggið/afhoggið – virðist hafa blossað upp og þar étur hver eftir öðrum, væntanlega í þeirri trú að þetta sé eitthvað fínna mál en að segja afhöggvið Hvað næst? Eigi skal hogga ?” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (17.01.2012) var talað um skiptar skoðanir á máli. Molaskrifari hallast að því að betra væri að tala um að skiptar skoðanir séu um tiltekið mál fremur en að skiptar skoðanir séu á máli.

Í fréttum Ríkissjónvarps (17.01.2012) var sagt frá tillögu um að daga til baka ákæru á Geir H. Haarde sem stefnt hefur verið fyrir Landsdóm. Sagt var frá atkvæðagreiðslu í fyrra um hvort ákæra skyldi og þá hverja. Ítrekað var talað um að kjósa á móti tillögu. Einnig var talað um að kjósa um málshöfðun. Molaskrifara finnst eðlilega að tala um að greiða aðkvæði með eða móti tillögu fremur en að kjósa með eða móti tillögu og greiða atkvæði um hvort höfða skyldi mál eður ei. Kannski er þetta bara sérviska.

Það var undarlegt orðalag hjá ráðherra í fréttum Stöðvar tvö(17.01.2012) að tala um að linnulaus notkun árum saman á iðnaðarsalti í matvælaiðnaði væri ævintýri líkust, – þ.e. að notkunin skyldi hafa viðgengist svo lengi. Þetta var ekkert ævintýri, en það var eiginlega lyginni líkast hve lengi iðnaðarsalt var notað án þess að nokkur gerði athugasemd.

Í frétt Stöðvar tvö um olíubílinn sem fór útaf í hálku í Hestfirði við Djúp var ýmist talað um að 24 þúsund lítrar af olíu eða bensíni hefðu runnið út í umhverfið. Olía og bensín er ekki það sama.

Þegar textavél bilaði í fréttaútsendingu Ríkissjónvarps (17.012012) bjargaði Bogi Ágústsson sér prýðilega með lauslega þýðingu á því efni frétta sem ekki var á íslensku. Best var þegar hann sagði að Pittsburg væri hreint ekki það krummaskuð sem sumir vildu vera láta !

Nú veit ég að í orðabókinni er sagt að orðið strandaglópur , geti þýtt mann sem er stöðvaður á ferð sinni. Engu að síður felli ég mig ekki við að kalla þá strandaglópa sem sitja í Litlu kaffistofunni ofan Sandskeiðs og komast ekki yfir Hellisheiði vegna ófærðar , eins og gert er á vef Ríkisútvarpsins. Líklega er þetta bar hrein sérviska Molaskrifara. En orðið strandaglópur hefur í mínum huga alltaf átt fyrst og fremst við þann sem missir af skipi eða flugvél og situr eftir með sárt ennið, – kemst hvorki lönd né strönd.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rati, afglapi, kjáni, flón, – segir orðabókin.

  2. Guðbjörg María skrifar:

    Mér finnst þetta ekki vera sérviska. Þetta er alveg rétt. Þýðir glópur ekki fífl?

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Það liggur vitaskuld fyrir eftir orðanna hljóðan að strandaglópur er sá sem glápir á ströndinni eftir skipinu sem er farið. Veðurtepptur maður er ekki strandaglópur; þegar veðrinu slotar heldur hann áfram ferð sinni. Þú ert sem sagt ekki einn um meinta sérvisku í þessum efnum.
    Og minnast má á að í mínu ungdæmi var karl í minni sveit sem þótti nokkuð sérvitur. Það taldi hann reyndar sér til tekna og mun skárra en vera, eins og nágrannarnir, sérvitlaus.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>