Enginn hefur lýst sprengjunum á hendur sér, var sagt í sjöfréttum Ríkisútvarpsins (20.1.2012) og á vef Ríkisútvarpsins um sprengjur sem sprungu í Londonderry á Írlandi. Þetta er auðvitað óhæft orðalag. Menn lýsa ekki sprengjum á hendur sér. Í áttafréttum útvarpsins var búið að lagfæra þetta og þannig tekið til orða að enginn hefði lýst árásunum á hendur sér sem er ágætt og eðlilegt orðalag. Í áttafréttum var sagt að óvíst væri hvort tillagan um að draga til baka ákæruna gegn Geir H. Haarde yrði samþykkt og kynni það að ráðast af því hvaða þingmenn yrðu viðstaddir atkvæðagreiðsluna! Gefur það ekki auga leið ?
Molavin sendi eftirfarandi (20.01.2012): Bresk yfirvöld reyna nú að svipta móðurinni forræði yfir dótturinni. Stundum er erfitt að gera sér grein fyrir hvort atvinnufjölmiðlafólk sé haldið þágufallssýki, kunni ekki móðurmálið eða sé einfaldlega svona óvandvirkt. I þessu tilviki er það hugsanlega hið síðast nefnda í ljósi þessarar málsgreinar undir lok fréttarinnar: Móðirin hefur verið dæmt í 18 mánaða fangelsi fyrir framferði… Sjálfsagt rétt til getið, Molavin.
Í fréttum Stöðvar tvö (20.1.2012) var í inngangi fréttar sagt að Bjarni Benediktsson hefði í dag flutt tillögu á Alþingi um að fallið yrði frá málshöfðun á hendur Geir H. Haarde,fyrrverandi forsætisráðherra. Fréttamaður sagði hinsvegar réttilega að Bjarni hefði mælt fyrir tillögunni á Alþingi í dag.
Að hafa eitthvað undir höndum er að hafa eitthvað í fórum sínum, hafa eitthvað í sínum vörslum. Í fréttum Ríkissjónvarps (20.01.2012) var talað um að hafa undir höndunum reikninga. Það er ekki að hafa reikninga í sínum vörslum. Það er beinlínis að orðanna hljóðan að vera með reikninga undir höndunum ! Skopteiknari gæti teiknað góða mynd af manni eða konu með reikninga undir höndunum.
Molalesandi benti réttilega á að c fréttir á dv.is eru oft hörmulega illa skrifaðar, – sjá (20.01.2012) http://www.dv.is/frettir/2012/1/17/sodaskapur-i-midborginni-napoli-hvad/ Hér er talað um að grenndargámar séu brimfullir af sorpi. Kannast einhver við enska orðið brimful , – barmafullur. Takið ykkur á dv.is menn.
Við ásamt þjóðinni treystum ekki ríkisstjórninni fyrir þeim samningum sem er verið að víla og díla með úti í Brussel, sagði hinn orðhagi þingmaður Framsóknarflokksins Vigdís Hauksdóttir á Alþingi í morgun (19.01.2012). Enginn metnaður til að vanda málfar í ræðustóli þingsins. Vigdís Hauksdóttir virðist eiga erfitt með að halda sig við íslensku. Í dv.is (19.01.2012) er haft eftir henni: … því ég sem lögfræðingur, nýútskrifaður, hef ekki þolinmæði til að sitja undir svona meðvirkni og bulli sem maður sér við fyrsta lestur að er bara „crap,““ segir Vigdís og er ekkert af skafa utan af því. Enska orðið crap þýðir saur, skítur eða rugl , della. Það eru gömul sannindi og ný að þeir sletta mestri ensku sem minnst kunna í því ágæta tungumáli.
Einn mesti ambögusmiður ljósvakans fær sérstaka þætti í Ríkissjónvarpinu sem hann af einstöku lítillæti kennir við eigin persónu og kallar Andraland. Hér-á-Rúv konan sem kynnir dagskrá Ríkisútvarpsins lofsyngur þessa þætti fyrirfram og segir um bögubósann: … lendir í hinu ýmsu klandri. Það var og ! Hvar er eiginlega þessi málstefna Ríkisútvarpsins ?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/01/2012 at 17:07 (UTC 0)
Er þetta bara ekki eftir öðru þar á bæ ?
Jón G skrifar:
22/01/2012 at 15:22 (UTC 0)
Útvarpsleikhúsið flytur nú leikgerð Egils sögu. Hér er á ferðinni túlkun höfundar, norska leikskáldsins Mortens Cranner, á þessari frægu Íslendingasögu.
Þýðingu leiktexta gerði Ingunn Ásdísardóttir og Þórarinn Eldjárn þýddi ljóðin og leikstjóri er Erling Jóhannesson.
Gat leikstjóranefnan ekki leiðrétt amböguna sem fram kemur í leikgerð þessa norska leirskálds. Alkunna er að Egill var þrevetur er hann orti sína fyrstu vísu (31. kafli) og datt í það með afa sínum. Norski tossinn segir hann hafa verið þrettán vetra og þessu er hreytt purkunarlaust í íslendinga og jafnvel vísunni breytt! Mér sárnra að Eljárn skuli leggja nafn sitt við svona óhæfu. Þurfum við ólæsa norðmenn til að rústa arfleið forðfeðranna? Var þetta kannski vísitölubættur aldur? Grínlaust: Þetta eyðilagði sjálfan kjarna sögunar um ofurmennsku Egils og alla ánægju af þessari svonefndu leikgerð, sem á heima á öskuhaugnum! Ruv setur niður! http://www.encyclopedieyggdrasil.fr/Encyclopedie_Yggdrasil,_lencyclopedie_vivante_du_monde_viking/Sagasintegrales/Saga%20d'Egil.pdf