Árás Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á opinbera starfsmenn úr ræðustóli Alþingis er líklega einsdæmi. Ögmundur sagði: „Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma, viku eftir viku eftir viku, mánuð eftir mánuð eftir mánuð, út til Brussel þar sem menn halda til á kostnað ríkisins.
Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir. Fleiri ferðir, fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast. Það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu.“ Ögmundur var að tala um starfsmenn ríkisins, stjórnarráðsins og opinberra stofnana. sem vegna starfa sinna þurfa að ferðast til Brussel. Ögmundur Jónasson er fyrrverandi formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hann var að ráðast á fyrrum félaga sína. Þetta var eiginlega árás úr launsátri vegna þess að opinberir starfsmenn eiga ekki aðgang að ræðustóli þingsins eins og Ögmundur, alþingismaður og ráðherra. Með orðum sínum er Ögmundur Jónasson að grafa undan trausti almennings á stjórnkerfinu.
Ögmundur segir að opinberir starfsmenn fari til Brussel, til að fá ,,fleiri ferðir,fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga”. Lítum aðeins nánar á þetta. Opinberir starfsmenn fara ekki til Brussel að eigin frumkvæði. Þetta eru vinnuferðir. Þeir opinberu starfsmenn sem ég þekki og þurfa að sækja fundi í Brussel eru fyrir löngu búnir að fá nóg af slíkum ferðum. Búnir að fá upp í háls, eins og þar stendur. Brusselferðirnar eru kvöð en ekki keppikefli. Upphæð dagpeninga ákveður sérstök ferðakostnaðarnefnd. Þeim er skipt í daghluta og næturhluta. Séu menn burtu í tvær nætur og þrjá daga fá greitt vegna tveggja nátta og tveggja daga. Af dagpeningum greiða menn hótel ,fæði, leigubíla og ferðir til og frá flugvöllum. Leigubíll til flugvallarins úr miðborg Brussel kostar um sex þúsund krónur. Tólf þúsund krónur farnar þar. Leigubíll í flugstöðina á Miðnesheiði frá Reykjavík kostar 13 þúsund snemma að morgni. Tuttugu og sex þúsund krónur farnar þar. Líklega er hægt að sleppa með kringum tíu þúsund krónur með því að taka leigubíl og flugrútuna báðar leiðir.
Ögmundur er ráðherra. Hann fær 2/3 af fullum dagpeningum. Hann fær þar að auki greiddan gistikostnað án tillits til þess hvað hótelið kostar. Hann er keyrður og sóttur til Keflavíkur. Hann fær endurgreiddan allan kostnað vegna dvalar sinnar erlendis. leigubíla o.þ.h. . Ráðherrar hafa sjálfir sett þessar reglur. Ögmundur nýtur þarna hlunninda sem áreiðanlega eru talsvert umfram útlagðan kostnað. Í ljósi þessa verður árás hans á opinbera starfsmenn enn lúalegri. Hann hefur örugglega ekki borgað með sér í frægri ferð á samgönguráðstefnu í Mexíkó Sem auðvitað var afar brýn.
Ég var lengi ríkisstarfsmaður. Ein fyrsta utanferð mín á fund erlendis var á vegum Sjónvarpsins á fund í Stokkhólmi. Líklega 1968. Dagpeningar voru þá miðaðir við launaflokka. Fréttamenn voru í lágum launa flokki. Dagpeningarnir voru 110 sænskar krónur. Gisting á hótelinu þar sem fundurinn var haldinn (miðlungshótel í miðborginni, Eden við Stureplan, minnir mig) kostaði 95 krónur. Ég hafði samband við hagsýslustjóra og spurði: Á maður ekki að borða í ferðalögum til útlanda? Á maður að hafa með sér nesti? Á maður að borða pylsur úti á horni? Á maður að borga með sér ? Þessi ágæti embættismaður, sem nú er löngu horfinn af heimi, hugsaði sig um stundarkorn og sagði svo: ,,Þú verður bara að klóra þig einhvern veginn fram úr þessu Eiður minn”. Það gerði ég.
Ögmundur Jónasson á að skammast sín og biðja opinbera starfsmenn afsökunar.
Skildu eftir svar