«

»

Molar um málfar og miðla 823

Purkunarlaust auglýsir Ríkissjónvarpið bjór rétt fyrir kvöldfréttir klukkar sjö (24.01.2012). Getur enginn í stjórnkerfinu stöðvað þessa ósvinnu? Það er bannað að auglýsa áfengi. Það breytir engu þótt orðið léttöl birtist í sekúndu eða tvær á skjánum eftir að þar er lengi búin að vera mynd af Tuborg bjórflösku. Af hverju líðst stjórendum Ríkisútvarpsins þetta?

Í hverjum fréttatíma Ríkissjónvarpsins á fætur öðrum eys Svavar Halldórsson úr brunni fjármálaspillingarinnar á Íslandi og færir okkur nýjar fréttir af framferði bankabófanna. Síðast var það (24.01.2012) flutningur milljarða úr Landsbankanum í Straum , – sömu eigendur að stærstum hluta – eftir lokun og rétt fyrir hrun. Þessi brunnur virðist því miður næstum ótæmandi, en áfram með smjörið, Svavar. Takk.
Margir fjölmiðlamenn skilja ekki muninn á því að kjósa og greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í nefndir og ráð. Atkvæði eru greidd um lagafrumvörp og tillögur. Eftirfarandi er af mbl.is (23.01.2012) : Aðrir þingmenn Samfylkingarinnar kusu með því að þingsályktunartillagan yrði tekin af dagskrá Alþingis. Þarna hefði átt að standa: Aðrir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með því að þingsályktunartillagan yrði tekin af dagskrá Alþingis. Í Kastljósi (24.01.2012) talaði kynnir um að kjósa um breytingar á stjórnarskrá. Þar hefði átt að tala um að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskrá. Útvarp Saga spyr hlustendur í síbylju hvort þeir séu búnir að kjósa í dag. Þá er átt við hvort hlustendur hafi greitt atkvæði í samkvæmisleiknum sem stöðin kallar skoðanakönnun. Einfalt, en torskilið sumum samt.
Molaskrifari fellir sig illa við sífellt tal um að flytja Reykjavíkurflugvöll. Það er ekki hægt að flytja flugvöll.(Stöð tvö 24.01.2012) Það er hægt að gera nýjan flugvöll eða breyta flugbrautum frá því sem nú er.
Í útvarpsfréttum (23.01.2012) var talað um að vera við öllu viðbúinn. Þetta var svo endurtekið samdægurs í sjónvarpsfréttum. Hér er of í lagt. Nægt hefði að segja: Vera viðbúinn öllu eða vera við öllu búinn.
Kristján Már Unnarsson fréttastjóri Stöðvar tvö er óravegu á undan starfsbræðrum sínum þegar kemur að fréttum um olíuleit og rannsóknir hér í norðurhöfum. Hann hefur sérhæft sig á þessu sviði og frá honum koma áhugaverðar fréttir um olíumál á norðurhjara , – fréttir sem aðrir fjölmiðlar sinna lítt eða ekki.
Bresku sakamálaþættirnir um rannsóknarlögreglumanninn Foyle sem DR1 sýnir um þessar mundir á mánudagskvöldum eru með því allra besta sem Bretar hafa gert á þessu sviði og hafa þeir þó gert margt vel.
Það er ekki að spyrja að snillingunum sem skrifa fréttir á vefmiðilinn pressan.is. Hér er dæmi um snilldina (24.01.2012): Klámmyndafyrirtæki berst nú um hylli 27 ára konu sem sagði frá því í síðustu viku að hún væri með tvö sköp.
Sjónvarpsfréttir hófust ekki á réttum tíma mánudaginn 23. janúar. Það var vegna handbolta. Seinkunin var ekki tilkynnt og ekki var beðist velvirðingar á seinkuninni eins og alvöru sjónvarpsstöðvar gera. Þetta þarf greinilega ekki að vera svo nákvæmt. Kurteisi gagnvart áhorfendum þykir ekki sjálfsögð hjá þeim sem stjórna Ríkissjónvarpinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>