«

»

Molar um málfar og miðla 822

Í morgunþætti Rásar (23.01.2012) sagði umsjónarmaður: … þegar fólk hittist í eigin líkama ! Líkast til átti hann við það þegar fólk hittist, – einnig hefði mátt segja þegar fólk hittist augliti til auglitis. Í sama þætti var talað um að falla frá ákæru á hendur Geirs H. Haarde. Hér átti ekki að vera eignarfall. Heldur átti að tala um ákæru á hendur Geir H. Haarde. Svo var sagt: Össur gaf lítið fyrir óánægju vegna atkvæði hans. Þar átti orðið atkvæði hinsvegar að vera í eignarfalli: .. vegna atkvæðis hans. Á þessum mánudagsmorgni var líka talað um manninn sem sá tónleikana í Hörpu daginn áður. Líklega hefur hann verið alveg heyrnarlaus sá ! Þá voru hlustendur fræddir á því þennan sama morgun að orðið spa þýddi gufubað á íslensku, – sem er út í hött,sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Spa#Origins_of_the_term . Um forval vegna forsetakaosninga í Bandar´ríkjunum var sagt: Það héldu allir að Mitt Romney væri farinn að taka þetta. Og: … hefur auðkýfingurinn Romney verið legið á hálsi fyrir að greiða lágt hlutfall af tekjum sínum í skatta. Hér átti auðvitað að standa: … hefur auðkýfingnum Romney verið legið á hálsi fyrir … Það er umhugsunarefni fyrir stjórnendur Ríkisútvarpsins hvort ekki sé rétt að setja suma umsjónarmenn fastra þátta í námsleyfi, – og gera þeim að læra íslensku. Þó ekki væri nema til að kenna þeim undirstöðuatriði og einföldustu beygingar íslenskrar tungu, – og tala ekki um að fólk hittist í eigin líkama. Í þessum morgunþætti stóðu þeir fyrir sínu Kristinn R. Ólafsson í Madrid og Gísli Einarsson í Borgarnesi, – að venju.
Úr mbl.is (23.01.2012) Talið er að um níutíu hvalir liggi nú strandaðir á ströndinni í Farewell Spit á Nýja Sjálandi eftir að vöðuna rak á land. Í fréttum annarsstaðar kemur fram að þetta eru grindhvalir (e.pilot whales) Vöður slíkra hvala eiga það til að synda upp í fjöru og deyja þar yfirleitt drottni sínum. Enginn kann að skýra þetta fyrirbæri. Það er rangt að tala um að vöðuna hafi rekið á land. Færeyingar reka hinsvegar grindhvalavöður á land. Það er allt annað mál.
Gamall líkbíll steypti stömpum í Kömbunum. Góð fyrirsögn (23.01.2012) á mbl.is.
Kósí hnútastund segir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (23.01.2012). Enn og aftur er auglýst eftir svokallaðri málstefnu Ríkisútvarpsins. Orðið kósí er ekki íslenska.
Fjölmiðlar hampa mjög formanni svokallaðra Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundir sem samtökin boða til eru yfirleitt auglýstir rækilega í ýmsum þáttum Ríkisútvarpsins. Þessi formaður fagnaði því sérstaklega í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu þegar ráðist var að alþingismönnum við þingsetningu og kastaði í þá eggjum og ýmsu lauslegu. Ítrekaði meira að segja ánægju sína, þegar fréttamaður ítrekaði spurningu sína. Árásin á þingmenn var formanni Hagsmunasamtaka heimilanna sérstakt fagnaðarefni. Þetta viðtal var aldrei flutt aftur.
Mikið fjaðrafok var í næstum öllum fjölmiðlum vegna sextugsafmælis Valgeirs Guðjónssonar sem er ágætur listamaður. Minna var hinsvegar gert úr sjötugsafmæli Helenu Eyjólfsdóttur sama dag og er hún þó hreint ekki síðri listamaður en Valgeir. Helena hefur glatt þjóðina með söng sínum síðan hún var táningur. Hún fer vel með texta og er með bestu dægurlagasöngkonum okkar undanfarna hálfa öld og nokkrum árum betur. Henni hefði að skaðlausu mátt sýna svolítinn sóma á sjötugsafmælinu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>