Það eru góðar fréttir að Ríkissjónvarpið skuli ætla að opna nýja sjónvarpsrás á næstu misserum þar sem meðal annars verður hægt að sýna íþróttakappleiki án þess að umturna venjulegri dagskrá sjónvarpsins. Samtímis verður mögulegt að sjá svokallað háskerpusjónvarp (Morgunblaðið 25.01.2012). Það er auðvitað mjög frumlegt að kalla þessa nýju rás,,viðburðarás”! Í Molum hefur jafnan verið sagt að sjálfsagt sé og eðlilegt að sýna beint frá íþróttamótum þar sem Íslendingar etja kappi við aðrar þjóðir. Hinsvegar hefur verið lýst miklum efasemdum og andstöðu við það þegar okkur er boðið upp á fjórar til fimm klukkustundir af handbolta dag eftir dag og öll dagskráin sett úr skorðum. Útvarpsstjóri segir við Morgunblaðið: ,,En við skulum ekki gleyma því að um 80% af þjóðinni vilja þetta efni en um 20% eru ekki sérlega spennt fyrir því samkvæmt áhorfstölum”. Það má vel vera að 80% þjóðarinnar vilji horfa á íslenska landsliðið leika gegn erlendum þjóðum. Ekki skal það dregið í efa. Hinsvegar trúir Molaskrifari því ekki að 80% Íslendinga brenni í skinninu að sjá til dæmis Spánverja keppa við Slóvena. Skyldu 80% Íslendinga hafa horft á þessar þjóðir keppa síðdegis í í gær (25.01.2012) ? Molaskrifari efast mjög um það. Gaman væri ef útvarpsstjóri birti okkur áhorfstölur. Molaskrifari bíður þess að útvarpsstjóri sanni mál sit með tölum um 80% áhorf þjóðarinnar á handboltaleiki þar sem Ísland kemur ekkert við sögu.
Hér er alveg dæmalaust illa skrifuð frétt af mbl. is (24.01.2011). Gott dæmi um það að viðvaningur skrifar beint til birtingar, enginn les yfir. Enginn með sæmilega máltilfnningu léti þetta frá sér fara: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/01/24/fjoldi_hofrunga_strandar/ Ömurlegt.
Slysaðist til að lesa (24.01.2012) dálkinn sem Morgunblaðið kallar stjörnuspá. Þar stendur þetta um sporðdreka: Eftir á vermir þú þig við hlýjar minningar sem þú misstir af ??? Sporðdreki skilur þetta eiginlega ekki.
Í fréttum Ríkissjónvarps var (24.01.2012) fjallað um verð eldsneyti og sagt um bíl, – sé hann ekinn fimmtán þúsund kílómetra á ári. Molaskrifari hefði talið eðlilegra að segja, – sé honum ekið fimmtán þúsund kílómetra á ári.
Sér daun leggja af Samfylkingunni segir dv.is í fyrirsögn um Vigdísi Hauksdóttur alþingismann. Merkileg kona sem sér lykt. Hæfileikaríkir eru þingmenn Framsóknarflokksins. Molaskrifari fór í fjósið á Hvanneyri á laugardaginn var og fann þessa fínu fjósalykt, en sá hana hinsvegar ekki. Í fréttinni dylgjar Vigdís Hauksdóttir um húsnæði Samfylkingarinnar,án þess að færa fyrir því rök. Hún er líklega búin að gleyma frægu húsabraski Framsóknarflokksins hér á árum áður. Eða hvað?
Af vef Ríkisútvarpsins (26.01.2012): Bóndi í Reykhólasveit sat fastur í skafli í bíl sínum á veginum að Reykhólum í tæpa 17 tíma á meðan óveðrið geysaði yfir í gærkvöldi og nótt. Óveðrið geisaði. Það geisaði ekki yfir eitt eða neitt. Það var hinsvegar ekki hægt geysast áfram í ófærðinni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
27/01/2012 at 09:08 (UTC 0)
Dæmir sig sjálft.
Snorri Zóphóníasson skrifar:
27/01/2012 at 08:53 (UTC 0)
Er þetta rökrétt ? Skilmálar settir af .
Ef dagsetning á viðburð fellur niður er eigendum miðanna boðin sömu sæti á aðra dagsetningu (ef aðrar dagsetningar eru í boði). Ef eigendur miðanna komast ekki á breytta dagsetningu er þeim boðin endurgreiðsla miða. Beiðnir um endurgreiðslu skulu berast miði.is eigi síðar en 28 dögum eftir dagsetningu viðburðar sem féll niður.