Úr Fréttablaðinu (26.01.2012): Þá er komið að því sem Baldri og verjanda hans þykir sérstaklega grunsamlegt og þeir sáu sérstaka ástæðu til að ljá máls á fyrir dóminum. Sá sem þetta skrifaði heldur greinilega að orðtakið að ljá máls á þýði að vekja athygli á. Svo er ekki. Að ljá máls á, þýðir hinsvegar að fallast á , leyfa, taka í mál eins og stundum er sagt.
Í fréttum af hörmulegu sjóslysi tala fjölmiðlar (26.01.2012) aftur og aftur um 300 tonna togara sem bát. Það ber ekki vott um mikla málfærni.
Dv.is (26.01.2012): Þurfti lögreglan að stíga á milli og fjarlægja manninn. Á íslensku er talað um að ganga á milli þegar verið er að stilla til friðar. Fast í málinu.
Íslendingar reisa 39 vatnsbrunna í Namibíu segir í fyrirsögn á mbl.is (26.01.2012). Það er alveg nýtt að talað sé um að reisa brunna, og raunar er einnig nýtt að tala um vatnsbrunna. Þarna hefði mátt segja: Íslendingar láta gera 39 brunna eða Íslendingar kosta 39 brunna.
Umsjónarmenn Rásar tvö og Bylgjan stóðu sig vel í ófærðarfréttum að morgni fimmtudags (26.01.2012). Svokölluð ,,fréttadeild” Útvarps Sögu vissi hinsvegar ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Samt eiga menn ekki að tala um að ófært sé um Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli. ( ekki Þrengsl eins og sagt var í tíufréttum útvarps) Þar hefði mátt sleppa Sandskeiðinu. Menn eiga varla erindi um Sandskeið ef Hellisheiðin er ófær.
Það er nýtt og enskættað að tala um fiðrildi í maganum á íslensku (Ríkissjónvarpið 25.01.2012) . Hversvegna ekki að tala um fiðring í maganum , – eins og oft er tekið til orða ?
Heldur dapurlegt fyrir þá sem láta sig málvöndun varða, – bæði á íslensku og ensku að hlusta á umsjónarmann í Kastljósi (25.01.2012) segja við Skota: You are still gonna have … Ekki vandað mál. Annars eru umsjónarmenn Kastljós yfirleitt prýðilega máli farnir , bæði á íslensku og öðrum málum að því Molaskrifari best hefur heyrt.
Hér-á-Rúv konurödd Ríkissjónvarpsins kynnti ný lög til sögunnar í Söngvakeppni sjónvarpsins (25.01.2012) Eitt þeirra heitir Aldrei sleppir mér . Það er eins og þetta sé ófullburða setning. Hvað eða hver, er það sem aldrei sleppir mér?
Um ófærðarfréttirnar sagði umsjónarmaður Virkra morgna á Rás tvö (26.01.2012): … skemmtilegasti dagskrárliðurinn og mest djúsí. Um laugardagskvöldið næsta sagði sá hinn sami: Það er bara á hinn daginn! Og: Ef það er eitthvað lag sem þú vilt heyra þarna úti. Powerballaða, big brother, oh my god og eighties komu einnig við sögu. Íslenskt Ríkisútvarp á að vera á íslensku. Ef umsjónarmenn þessa þáttar kynnu að nota orðið birgir í merkingunni fyrirtæki sem sér öðru fyrirtæki fyrir aðföngum þyrftum við ekki að hlusta á: … vörur eru ódýrari hjá keppinauti en birgja ! Þessi villa gekk aftur í sjónvarpsfréttum (26.01.2012). Þar talaði fréttamaður tvívegis um vörur frá birgja. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur sendi fréttamönnum tölvupóst með leiðbeiningum um notkun og beygingu orðsins birgir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
28/01/2012 at 17:44 (UTC 0)
Ekki kann ég að skýra hvaðan þetta er komið, en mikið er ég sammála þér , Ágústa Ósk.
Ágústa Ósk Jónsdóttir skrifar:
28/01/2012 at 16:13 (UTC 0)
Mér leiðist hvað mikið er talað um :að hrauna yfir einhvern – að drulla yfir einhvern og að einhver sé : aldeilis búinn að drulla upp á bak.
Þetta eru klisjur sem maður sér á hverjum degi og ég er orðin hundleið á því.
Er þetta þýtt úr ensku eða öðru tungumáli ? Það eru ekki mörg ár síðan fór að
bera á þessu í málinu,nú eru þessar setningar endurteknar í flestum fjölmiðlum
á hverjum degi. Væri þarft verk að losa íslenskuna við þessi ósmekklegu orða-
tiltæki. Með kveðju. Á.Ó.J.