«

»

Molar um málfar og miðla 826

Orðavin sendi Molum eftirfarandi (27.01.2012): ,,Ég er alveg sáttur við að nota íslenzka orðið ,,streita“ sem þýðingu á enska orðinu ,,stress“. Og mér finnst skiljanlegt að fólk, sem verður fyrir áfalli, finni fyrir streitu vegna þess. Og, þótt mér þyki orðið ,,áfallastreita“ ekki fallegt, þá get ég sætt mig við það. En hvað í ósköpunum þýðir orðið ,,áfallastreituröskun“? Þýðir það að skemma álagið, sem varð vegna áfallsins? “ Molaskrifari játar að orðið áfallastreituröskun vefst einnig fyrir honum og hann kann ekki að skýra það.

Í heilsíðuauglýsingu frá veitingahúsinu Perlunni í Fréttatímanum (27.01. – 29.01.2012) er talað um uppskriftina af humarsúpu Perlunnar. Molaskrifari hallast að því að þarna ætti að tala um uppskrift að en ekki uppskrift af.

Ófærð og ógöngur á Hellisheiði er ágæt fyrirsögn í Mogga (28.01.2012).

Rétt er að vekja athygli á grein Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors í Fréttablaðinu og á visir.is (27.01.2012): http://www.visir.is/baendasamtokin–riki-utan-rikisins-/article/2012701279985 Bændasamtökin telja sig samkvæmt þessu ekki þurfa að fara að fara að lögum landsins og eru svo sannarlega ekki á neinu flæðiskeri stödd. Líklega kemur senn í ljós að það er enginn búmaður sem ekki kann að berja sér.

Yfirstjórn Ríkisútvarps fær heldur betur fyrir ferðina hjá höfundi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í Sunnudagsmogga (29.01.2012). Bréfið er að hluta tilvitnun í grein í netmiðlinum Vefþjóðviljanum. Því verður ekki neitað að bréfritari og Vefþjóðviljinn (sem er nú ekki alltaf marktækur) hafa mikið til síns máls, því illa er nú komið fyrir þessari áður merki þjóðarstofnun. Búið er að bannfæra orðið Ríkisútvarp og fyrrum formaður stjórnar Ríkisútvarpsins talaði í blaðagrein ævinlega um Ríkisútvarpið sem félagið. Ekki má lengur nota orðið Ríkis- og þetta er ekki stofnun eins og verið hefur í áratugi heldur félag. Stundum er reyndar engu líkara en Ríkisútvarpið sé rekið sem einskonar einkahlutafélag æðstu stjórnenda. Í Reykjavíkurbréfi segir um Ríkisútvarpið: ,,… stofnun sem orðin er óskiljanlegur blendingur ríkis- og einkahlutfélags, þar sem búið er að tryggja að almenningur hefur ekki í raun neina aðkomu að” Enn fremur segir í Reykjavíkurbréfi. ,, … þá viðurkenna stjórnendur þess aldrei mistök. Ef þeir svara gagnrýni er það oftast með skítkasti og skætingi”. Það þekkir Molaskrifari reyndar mæta vel. Lýsandi dæmi um þetta er einnig að finna í grein eftir útvarpsstjóra í laugardagsblaði Morgunblaðsins (28.01.2012). Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. virðist hafa það meginhlutverk að stimpla ársreikninga og klappa æðstu stjórnendum lof í lófa.

Mbl.is (28.01.2012) Dráttarbáturinn Magni var kallaður út í gær eftir að tilkynning barst um að gamla varðskipið Þór væri lausbundið við bryggju í Gufunesi. Lausbundið? Var skipið bara ekki að losna frá bryggjunni? Fyrirsögnin var: Lausbeislaður Þór kallar á aðstoð !

Af hverju leggur Morgunblaðið blessun sína yfir orðið þingkona ? Ég leyfi mér að fullyrða að í ritstjóratíð Bjarna Benediktssonar hefði þetta orð aldrei komist inn á síður Morgunblaðsins. Þingmenn Kvennalistans bjuggu þetta orðskrípi til á sínum tíma. Vildu ekki heita þingmenn. Bjarni Benediktsson sagði í þingræðu að samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri væru konur menn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    http://www.landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4588

    Í F-kafla ICD10 eru margar skemmtilega orðaðar raskanir. Það sem áður hét áfallastreituröskun heitir núna „streituröskun eftir áfall“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>