Molavin sendi eftirfarandi (28.01.2012) : ,,Þetta er orðrétt úr frétt Fréttablaðsins á visir.is. Rétt er að geta þess að fréttin er að öllu öðru leyti vel skrifuð: …lífshættulegan erfðafræðilegan sjúkdóm sem lýsir sér í óstöðvandi blóðnasi. Árangurslausar tilraunir læknanna við að stöðva blóðnasi stúlkunnar, sem er fjögurra ára gömul, voru farnar að valda þeim áhyggjum eftir að blóðnasirinn hafði staðið yfir í rúma viku. Ljóst má vera að enginn les fréttir blaðsins yfir áður en þær eru settar í blaðið eða á Netið. Þarna vantar prófarkalesara.” Rétt er það.
Meira frá Molavin (28.01.2012) : ,,Barnsleg rödd greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Arion banki hefði endurgreitt þeim viðskiptavinum sínum hluta af lánagreiðslum sínum, sem greitt hefðu skilmerkilega af lánum sínum. Það var og.” Mollaskrifar þakkar sendingarnar. Þeim fjölgar barnsröddunum í fréttaflutningi.
Af visir.is (28.01.2012): Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir að skrif Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins um síðustu helgi fela í sér svo mikla mannfyrirlitningu, forheimskun og heift að undrun sætir. Þessi setning felur það í sér að sá sem hana skrifar er ekki vel að sér í íslenskri málfræði. Lagfærð gæti setningin verið svona: Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir skrif Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins um síðustu helgi fela í sér svo mikla mannfyrirlitningu, forheimskun og heift að undrun sæti. Eða: Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir að skrif Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins um síðustu helgi feli í sér svo mikla mannfyrirlitningu, forheimskun og heift að undrun sæti.
Af mbl.is (28.01.2012): Engar blikur eru á lofti um sáttir milli Norður- og Suður-Kóreu. Þetta er nú meiri dellan! Þegar sagt er að blikur séu á lofti er átt við að eitthvað slæmt sé í vændum ,ill tíðindi eða válegir atburðir á næsta leiti. Þarna hefði mátt segja: Ekkert bendir til sátta milli Kóreuríkjanna á næstunni. Í sömu frétt segir: Yfirvofandi hungursneyð má að einhverju leyti skýra af gölluðu og óvirku matardreifikerfi landsins, hækkandi matvælaverðs og viðskiptahömlum vegna kjarnorkuflaugaáætlana þeirra. Vegna þeirrar stefnu alþjóðasamfélagsins að hunsa neyðarástandið sem ríkir í Norður-Kóreu hafa hópar mannréttindasinna tekið málstaðinn upp á sína arma og reynt að finna leiðir til að svara neyðarkalli íbúa landsins. Sá sem svona skrifar um ástandið á Kóreuskaga veit minna en ekki neitt um þróun mála í Norður Kóreu. Það er ekki nokkur leið að taka alvarlega erlendar fréttir í miðli þar sem svona bull er skrifað.
Fyrirsögn á sjónvarpsfrétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (28.01.2012): Kenískar rósir til Danmörku (svo!) Í fréttinni segir fréttamaður: …sterku skordýraeitri er úðað á blómin og starfsfólkið sker þau í engum hlífðarfatnaði. Varla getur þetta nú talist vel að orði komist.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/01/2012 at 13:43 (UTC 0)
Ekki kann ég svar við þessu, Kristján.Stundum virðist útlitið ráða meiru en andlegt atgervi. Stundum er líka rá’ðið fólk til að flytja okkur fréttir sem hefur raddblæ og talanda sem alls ekki hæfir sjónvarpi eða útvarpi. Yfirmönnum eru oft mislagðar hendur þegar að mannaráðningum kemur. Ég bjó í Noregi 1993 til 1998. Sömu þulir eru enn að lesa fréttir, í NRK – nýir hafa líka bæst við. Þar er þess gætt að ráða fólk til fréttalesturs og fréttaöflunar sem ekki er óþægilegra skrækt eða talar með undarlegum áherslum og hrynjandi. Mér er hulið hvað lagt er til grundvallar þegar ráðið er fólk til þessara starfa.
Kristján skrifar:
30/01/2012 at 11:38 (UTC 0)
„Þeim fjölgar barnsröddunum í fréttaflutningi“. Af hverju hefur þetta þróast í þessa átt á Íslandi, Eiður ? Á Stöð 2 eru aðallega krakkar sem eru mjög uppteknir af útlitinu og virðast leggja áherslu á að myndavélin beinist sem mest að þeim sjálfum, þegar frétt er flutt. Meðalaldur fréttamanna í öðrum löndum er miklu hærri en hér, að mér sýnist og reynslan mun meiri.