«

»

Molar um málfar og miðla 828

Molaskrifari þreytist ekki á að minna á að Ríkissjónvarpið okkar er daglegur lögbrjótur með purkunarlausum áfengisauglýsingum. Síðastlið sunnudagskvöld, í auglýsingatímanum á undan Landanum, voru tvær áfengisauglýsingar. Fyrst var auglýstur danskur bjór í auglýsingu frá farmiðasalanum Iceland Express en síðan kom önnur auglýsing fyrir danskan bjór. Leikurinn var svo endurtekinn á mánudagskvöld, með enn meiri tilþrifum.
Af hverju líðst stjórnendum Ríkissjónvarpsins að brjóta landslög dag eftir dag? Eru yfirmenn Ríkissjónvarpsins í stjórnkerfinu bæði blindir og heyrnarlausir? Fer þessi einbeitti brotavilji stjórnenda Ríkisútvarpsins algjörlega fram hjá þeim? Eða er þetta bar partur af landlægu virðingarleysi fyrir lögum og reglum á Íslandi, – virðingarleysi sem kristallaðist í bankahruninu. Skyldi ný stjórn Ríkisútvarpsins gera eitthvað í málinu ? Eða verður hún bara stimpilpúði stjórnenda eins og fyrri stjórn ?
Úr mbl.is (29.01.2012): Menn hafa ekki haft undan að moka úr ám undir Eyjafjallajökli, en gríðarleg vatnshæð hefur myndast eftir leysingar og hláku í gær og nótt. Kann nú enginn lengur hið ágæta orð vatnavextir ? Það getur ekki talist vel að orði komist að tala um að gríðarleg vatnshæð hafi myndast.

Það er slæmt að þurfa að hlusta á það úr þularstofu Ríkisútvarpsins að ljóð Höllu Eyjólfsdóttur Ég lít í anda liðna tíð sé kallaður texti eins og gert var rétt fyrir hádegisfréttir (29.01.2012). Þarna var líklega viðvaningur að verki. Varla er Ríkisútvarpið að apa eftir Útvarpi Sögu sem nýlega kallaði ljóð Davíðs Stefánssonar, Konan sem kyndir ofninn minn, texta. Sögusnillingurinn sem þar var að verki gat reyndar ekki einu sinni farið rétt með heitið á ljóði Davíðs. Eftir öðru þar á bæ.

Eðlilegt er að tala um að kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins hefjist með fréttum klukkan 1900. Hjá Ríkissjónvarpinu er einhver ruglingur í gangi hvað þetta varðar. Hér-á-Rúv konuröddin segir okkur flesta virka daga að kvölddagskráin hefjist, ekki að loknum fréttum, heldur að loknu Kastljósi það er eftir klukkan 2000. Á sunnudögum hefst kvölddagskráin að sögn hér-á Rúv konuraddarinnar klukkan rúmlega 1930. Hverskonar rugl er þetta? Og hversvegna þarf þessi konurödd í uppskrúfaðri tilgerð að segja við okkur 10-15 sinnum á kvöldi Hér-á-Rúv ? Er það til að fullvissa okkur um að ekki sér verið auglýsa dagskrá keppinautarins, Stöðvar tvö?

Lára sendi eftirfarandi: ,,Sá í Morgunblaðinu frá föstudegi pistil þar sem notað var eyrnamerkt beint úr ensku/amerísku! Hvað er að verða um íslenzka málið? Áður hef ég heyrt í talmáli að beðið var í linu!” Þetta síðastnefnda er Molaskrifara nýtt, hrá enska, to wait in line. Hvað er að hinu góða og gegnsæja orði biðröð. Orðið að eyrnamerkja hefur lengi verið notað í íslensku að molaskrifari best veit. Á Alþingi og í stjórnkerfinu hefur í áratugi verið talað um að eyrnamerkja tekjur sem ætlaðar eru til ákveðinni nota eða framkvæmda. Það er svo annað mál að eyrnamerktar tekjur rata oftar en ekki beint í ríkiskassann til almennra nota.

Þakkir til umsjónarmanna Landans í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldum fyrir að vera fundvísir á áhugavert efni víðsvegar á landinu og fyrir að setja það skemmtilega fram fyrir okkur áhorfendur. – Reyndar var dagskrá Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld (29.01.2012) með skásta móti. Innkaupastjórar Ríkissjónvarpsins eru hinsvegar sérfræðingar í að velja þriðja og fjórða flokks amerískt rusl ofan í okkur, einkanlega á laugardagskvöldum. Það er synd því gríðarmikið er til af góðum amerískum kvikmyndum. Þær þurfa ekki endilega að vera glænýjar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Að mati stjórnenda þarf Ríkisútvarpið ekki að fara að lögum.

  2. Kristján skrifar:

    Í sumar verður EM í knattspyrnu og svo sjálfir Ólympíuleikarnir í London. Þá munu bjórflóðgáttir opnast…..hér á RÚV. En auðvitað verður agnarsmátt „Léttöl“ neðst á skjánum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>