«

»

Molar um málfar og miðla 829

Í fréttaheimi engilsaxa mundi fréttatilkynning forsetaembættisins um svokallaðan leiðangur (sic!) forsetahjónanna til Suðurskautslandsins vera kölluð á ensku an extensive exercise in name-dropping. Þar þykir það nefnilega ekki fínt að slá um sig með nöfnum fræga fólksins, alveg vinstri , hægri eins og segir í auglýsingunni til að upphefja eigin persónu og sýna hvað maður sjálfur er merkilegur að þekkja allt þetta fræga fólk. Fréttatilkynningin : http://www.forseti.is/media/PDF/2012_01_30_Sudurskaut.pdf snýst öll um nöfn fræga fólksins, eins og Al Gores sem nú er reyndar aðallega frægur að endemum. Heldur einhver maður í alvöru að þó þetta þotulið stoppi í þrjá, fjóra daga á Suðurskautslandinu að það höndli einhvern nýjan sannleika um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar ? Halda menn að þeir verði einhvers vísari Ólafur og Al Gore? Öldungis ekki. Ferðin snýst fyrst og fremst um að auglýsa eigið ágæti. Sem slík verður hún sjálfsagt afar vel lukkuð. En hvað skyldi þetta ævintýri þeirra hjóna kosta íslenska skattgreiðendur? Fróðlegt væri að vita það.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (30.01.2012) var talað um Ölfusforar. Þetta svæði heitir Ölfusforir. Oft vantar upp á þekkinguna hjá fréttaskrifurum þegar kemur að íslenskum örnefnum.

Nafnlaus Staksteinahöfundur Morgunblaðsins skrifar um þá Pál Magnússon útvarpsstjóra og Þorvald Gylfason prófessor (30.0.2012) og kallar þá vel uppalda kratíska ráðherrasyni. Hvað koma feður þeirra málinu við? Ekkert. Nákvæmlega ekkert. Ekki frekar en þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallaði um Þorstein Davíðsson lögfræðing og sá sérstaka ástæðu til að geta þess að hann væri sonur Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Feðurnir eiga ekki að gjalda fyrir meintar syndir eða afglöp sona sinna. Dæmigerð íslensk umræðuhefð.

Í fréttum Stöðvar tvö sagði ungur fréttamaður að ammóníak hefði sloppið út í andrúmsloftið (30.01.2012) Þess var ekki getið hvort það hefði náðst.

Lesandi sendi Molum eftirfarandi (30.01.2012): ,,Hvað ætli sjúklingur hafi verið að gera á skíðum?—-sjá mbl.is í dag Neyðarflutningsmaður frá Slökkviliði Akureyrar lagði af stað með í sjúkraflug með sjúkraflugvél Mýflugs kl. 06:30 í gærmorgun. Vélin flaug frá Akureyri til Chambery í Frakklandi til að sækja sjúkling sem slasaðist á skíðum.”. Sjúklingurinn hlýtur að hafa laumast út af sjúkrahúsi og skellt sér á skíði !

Af mbl.is (30.01.2012) … og samþykkti konan að segja sögu sína gegn nafnleysi. Varla verður sagt að þarna sé vel að orði komist.

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi á hrós skilið fyrir að kveða upp úr um það í Morgunblaðinu (01.02.2012) að það sé algerlega úrelt hugmynd að fjarlægja Reykjavíkurflugvöll og styðja afstöðu sína sterkum rökum. Vonandi tekst honum að sannfæra flokkssystkini sín sem sum hver eru haldin þráhyggju varðandi Reykjavíkurflugvöll. Flugvöllurinn er ekki aðeins flugvöllur Reykjavíkur. Hann er flugvöllur alls landsins. 101 lið Samfylkingar mætti líka muna það.

Bogi Ágústsson bjargaði sér flott og fagmannlega þegar bilun eða tækniklúður kom upp í kvöldfréttum (30.01.2012). Bogi kann þetta. Reyndastur allra á fréttastofunni.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>