«

»

Molar um málfar og miðla 830

Molaskrifara var svolítið um og ó, þegar hann heyrði að ræða ætti við Eirík Inga Jóhannsson sem bjargaðist einn fjögurra úr áhöfn togarans Hallgríms sem sökk vestur af Noregi. Afar viðkvæmt og vandmeðfarið. En hann eins og sjálfsagt mikill hluti þjóðarinnar sat límdur við skjáinn í meira en klukkutíma. Einstök frásögn, einstakur maður. Segi menn svo að mannslitið, andlit manns sem hefur eitthvað að segja sé ekki gott sjónvarpsefni. Það getur verið magnaðast sjónvarpsefni sem um getur. Eins og hér var. Þessu gleymir enginn. Þetta var ekki viðtal, heldur eintal. Þannig átti það líka að vera. Sigmar Guðmundsson sýndi góða dómgreind með því að hafa þetta eins og það var, – vera sjálfur til hlés og sýna þetta óstytt. Takk fyrir það, Sigmar og takk umfram allt Eiríkur Ingi fyrir það hvernig þú deildir reynslu þinni með okkur. Sannkölluð hetja.

Úr mbl.is (31.01.2012): Söluferlið er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem sýnt geta fram á fjárfestingagetu að upphæð 100 milljónir króna auk viðeigandi þekkingu og reynslu af fjárfestingum og rekstri, segir í tilkynningu frá Landsbankanum. Hér ætti að standa: … auk viðeigandi þekkingar og reynslu …

Molavin sendi eftirfarandi (01.02.2012): Mbl.is: ,,… þegar togarinn Hallgrímur strandaði undan ströndum Noregs.
Skyldi blaðamaðurinn hafa heyrt af því þegar skipið sökk 150 sjómílur vestur af Noregi?” Mbl.is leiðrétti þetta víst eftir skamma stund, en undarlegt engu að síður eftir allt sem búið er að segja og skrifa um þetta hörmulega sjóslys.

Á Alþingi í dag (31.01.2012) talaði einn af þingmönnum Framsóknarflokksins gegn því að hér á landi giltu sömu reglur um innflutning gæludýra eins og gilda í öllum löndum Evrópu ( Við erum svo sérstök!). Hann sagði : … sjúkdómar geta færst milli landa og ollið gríðarlegu tjóni. Sögnin að olla er nú komin á þing !

visir.is (31.01.2012) : Ég trúi á ástina, svaraði Jennifer spurð hvernig henni gengur að vinna með fyrrverandi eiginmanni sínum, Marc Anthony, í latneskum sjónvarpsþætti. Og nú er spurt: Hvað er latneskur sjónvarpsþáttur ? Tala menn ekki örugglega latínu í slíkum þáttum ?

Í fréttum Stöðvar tvö (31.012012) var talað um andstæðinga byggingu mosku. Andstæðingar einhvers. Raunar var þetta bæði sagt og skrifað. Hefði átt að vera andstæðinga byggingar mosku. Þá var einnig talað um kæru vegna vörslusviptingu. Hefði átt að vera kæru vegna vörslusviptingar. Kæru vegna einhvers.

visir.is (31.01.2012): Tugir háhyrninga sáust í dag við brúnna í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi. Með nokkurri velvild mætti ætla að orðmyndin brúnna væri innsláttarvilla. Svo er þó ekki villan kemur tvisvar sinnum fyrir í þessari stuttu frétt. Háhyrningarnir sáust við brúna. Sjá: http://www.visir.is/tugir-hahyrninga-i-kolgrafarfirdi/article/2012120139771

Áskell sendi þetta (31.01.2012): ,,Í frétt á visir.is segir: Jón Arilíus segir að í kjölfarið hafi komið í ljós að sjósöfnun hafi orðið í skipinu …
Ég játa að orðið „sjósöfnun“ kom mér á óvart”. Þú ert ekki einn um það, Áskell. Hvílíkt bull.

Hér-á-rúv konurödd Ríkissjónvarpsins sagði áheyrendum í gærkveldi (01.02.2012) að Halloween væri þakkargjörðarhátíð í Bandaríkjunum er hún var að kynna myndaflokkinn desperate Housewives , sem Sigurður Hreiðar kallar svo ágætlega Hamslausar húsmæður. Það er betra að sleppa kynningum en að fara með svona vitleysu. Halloween (Hrekkjavaka 31.okt. 2012) er eitt. Þakkargjörðarhátíð (Thanksgiving er í Bandarikjunum 22. nóvember 2012)) er allt annað. Þetta vita raunar býsna margir.

Leiðarar Morgunblaðsins eru oft skemmtilega skrifaðir en stundum undarlega lausir við að hafa minnstu tengsl við veruleikann eða daglegt líf almennings á Íslandi. Í leiðara Morgunblaðsins á þriðjudag (31.01.2012) segir: ,, … samfelldur áróður ríkisstjórnarliðsins og hinna þekktu hlaupadrengja þess á ólíklegustu fjölmiðlum nær ekki árangri í blekkingariðju nema um skamma hríð. Fólkið í landinu finnur á eigin skinni hvernig lífsskilyrðin þróast.
Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt með verkum sínum að hún er versti kosturinn.”
Í Vefmoggga, mbl.is sama dag er frétt þar sem greint er frá því að kannanir gefi til kynna að almenningur hér á landi sé bjartsýnni en áður. Þar segir: Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu frá fyrri mánuði og eru landsmenn því nú jákvæðari en í fyrri mánuði varðandi bæði mat á núverandi ástandi og mat á efnahagslífinu almennt. Svona geta nú fjölmiðlarnir verið skrítnir á stundum ! Hér er frétt mbl.is í heild.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/01/31/bjartsyni_landsmanna_eykst/

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. spritti skrifar:

    Hann er sannkallaður afreksmaður hann Eiríkur Ingi og erfitt að ímynda sér þessar aðstæður þó að maður hafi verið til sjós sjálfur. Maður finnur til með fjölskyldum hinna sem létust.

  2. Eiður skrifar:

    Þakka sendinguna: … sömu reglur og gilda … væri betra. Rétt er að tala um að skila árangri. Sammála.

  3. Jón Brynjólfsson skrifar:

    Mig langar að benda á tvennt í þessum pistli. Þú segir „…giltu sömu reglur um innflutning gæludýra eins og gilda í öllum löndum Evrópu…“ Sömu eins og? Þetta finnst mér skrítið en ekki þori ég að fullyrða að þetta sé rangt.

    Í leiðara Morgunblaðsins, sem þú vitnar í, er talað um að samfelldur áróður nái ekki árangri í blekkingariðju. Það finnst mér enn skrítnara. Áróður skilar kannski árangri en nær honum varla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>