Metnaðarfull var hún sannarlega dagskrá Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöldið (04.02.2012). Að loknum fréttum var sýnd ævintýramynd fyrir börn og unglinga, þá endurunnið efni úr Söngvakeppni sjónvarpsins og svo þriðja flokks amerísk bíómynd sem vefurinn Internet Movie Database gefur einkunnina 6,4 (af 10,0 mögulegum). Loks tók við endursýnd kvikmynd. Þetta er með ólíkindum vegna þess að það er auðvelt að gera svo miklu betur. En þetta er það sem Ríkissjónvarpið býður okkur. Sumir geta horft á erlendar stöðvar. Margt aldrað fólk og þeir sem hafa úr litlu að spila geta ekki leyft sér þann munað og hafa því ekkert annað en þennan þunna þrettánda sem Ríkissjónarpið býður upp á laugardagskvöldi.
Nýlega (28.0001.2012) skrifaði Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins grein í Morgunblaðið sem var að mest tilvitnanir í eitthvað sem ,gáfaður og góðviljaður sjálfstæðismaður hafði sagt við hann og voru ummælin mestmegnis níð um ritstjóra Morgunblaðsins. Sem opinber embættismaður í stafni stofnunar sem mikilvægt er að sæmileg sátt ríki um valdi útvarpsstjóri leiðina alkunnu ólyginn sagði mér og lagði svo út af því. Hallur Hallsson, rithöfundur og blaðamaður (einn vitringanna sem með reglulegu millibili færa áhorfendum sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN bull,ergelsi og pirru) svarar grein útvarpsstjóra í Morgunblaðinu (03.02.2012). Hann notar sömu aðferð og útvarpsstjórinn og talar í gegnum virtan og sanngjarnan sf-mann sem hann kallar reyndar líka lýðræðiskrata. Sama aðferðin, – ólyginn sagði mér. Ekki verður annað sagt en að þetta sé merkileg umræða.
Úr mbl.is (03.02.2012): Dómstóll í Kambódíu, sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna, hefur synjað beiðni Kaings Gueks Eavs, sem er betur þekktur sem Duch, og dæmt hann í lífstíðarfangelsi. Duch var einn af helstu böðlum Rauðu kmeranna í Kambódíu. Lesandi spyr: Hverju var synjað, um hvað var beðið ? Von er að spurt sé, – það kemur hvergi fram. Líklega var það náðunarbeiðni.
Guðbrandur sendi Molum eftirfarandi (03.02.2012): Guðrún Tinna Ólafsdóttir dóttir Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og eiginmaður hennar Karl Pétur Jónsson stjórnmálafræðingur eignuðust tvíbura, stúlku og strák í nótt. Það sérstaka átti sér stað að börnin fæddist öðru hvoru megin við miðnætti og eiga því sitthvorn afmælisdaginn. Ja, hérna , blessuð börnin fæddust öðru hvoru megin við miðnættið. Ekki að spyrja að snilldinni hjá þeim á visir.is. Nýbökuðum foreldrum er óskað til hamingju með tvíburana.
Gerð skoðanakannana er orðin atvinnugrein á Íslandi. Nær daglega flytja fjölmiðlar okkur fréttir af nýjum skoðanakönnunum um nánast allt milli himins oj jarðar. Svo leggja fjölmiðlar og fjölmiðlamenn út af niðurstöðum þessara kannana , – hver á sinn veg eftir því sem talið er henta hverju sinni. Stundum er miðað við alla þá sem spurðir voru, hvort sem þeir tóku afstöðu eða svöruðu, þegar úrslitin eru túlkuð. Stundum er aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu. Allur gangur er á því hvernig spurningar eru orðaðar, stundum er spurt leiðandi spurninga til að kalla fram ákveðin svör. Molaskrifari getur ekki að því gert að honum finnst þetta vera orðið hálfgert rugl, og er hann þá ekki að tala um samkvæmisleikinn sem Útvarp Saga setur á svið daglega og kallar skoðanakönnun. Sá leikur á ekkert skylt við skoðanakönnun. .
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/02/2012 at 09:10 (UTC 0)
Þakka þér ábendingarnar, Hallgrímur. Auðvitað á útvarpsstjóri ekki að vera með upphafsstaf og rétt er það að komman er á villigötum.
Hallgrímur skrifar:
06/02/2012 at 00:13 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Fyrst langar mig að beina til þín spurningum út frá pistl þínum:
Er rétt að stafa útvarpsstjóri með hástaf eins og þú gerir í grein þinni?
Er þetta rétt notkun á kommu? „…eitthvað sem ,gáfaður og góðviljljaður…“ og „…niðurstöðum þessara kannana , – hver á sinn veg…“
Ég hef mjög gaman af því að lesa pistlana þína. Ég furða mig æði oft á stafsetningar- og málfarsvillum sem blaðamenn og pistlahöfundar í prentmiðlum og vefmiðlum leyfa sér að senda frá sér. Það er full þörf á umræðu og ábendingar um þessi mál.
Kveðja,
Hallgrímur Jónsson