«

»

Molar um málfar og miðla 842

Aftur og aftur er í útvarpsfréttum (13.02.2012) talað um að greiða með þegar átt er við að greiða atkvæði með einhverju, styðja eitthvað eða einhvern í atkvæðagreiðslu.. Þetta er eiginlega óskiljanleg villa. Að greiða með er að borga með.

Fleirtöluorð halda áfram að vefjast fyrir fólki . Í ambögupistli sérstaks slúðurfulltrúa Ríkisútvarpsins í Hollywood (13.02.2012) var talað um þrjú eða fjögur verðlaun , átti að vera þrenn eða fern verðlaun. Í DV (13.02.2012) var sagt í undirfyrirsögn að Rick Santorum hefði unnið þrjár forkosningar í röð. Þrennar forkosningar hefði það átt að vera.

Gunnar Þorsteinsson einn rúmlega 300 starfsmanna Ríkisútvarpsins, titlaður dagskrárstjóri sendi Molaskrifara svohljóðandi kveðju (15.02.2012):
Orðið „reytur“ er skrifað með ypsíloni og það er með ólíkindum að virðulegur vandlætari með meiru skuli ekki hafa hugmynd um það. Fáheyrt! Og hefur DV enga sómakennd? Er það hlutverk þess að vera vettvangur slíkra ritsóða? Hneyksli! Skandall! Þetta er réttmæt og um leið kurteisleg ábending hjá dagskrárritstjóra Ríkisútvarpsins, sem hér talar væntanlega fyrir hönd þessarar þjóðarstofnunar. Í Molum var orðið reytur rangt stafsett. Molaskrifari gerði athugasemd við að dagskrárkynnir Ríkisútvarpsins notaði orðsambandbandið að rugla saman reytum um fólk sem spjallaði saman, ekki fólk sem væri að ganga í hjónaband sem er hin venjubundna merking. Það er engu líkara en dagskrárritstjórinn hafi samið textann sem um var rætt, svo illa bregst hann við. Molaskrifari er annars svolítið hissa á orðfærinu sem notað er í orðsendingum til hans úr Efstaleitinu. Hvort sem um yfirmenn eða undirmenn er að ræða.

DV segir (13.02.2012) frá manni sem þarf að skila bíl sem hann keypti fyrir hrun. Hann er í kröggum og getur ekki borgað af bílnum. Fram kemur að þegar hann keypti bílinn var hann að borga af öðrum bíl og fasteignaláni. Samt keypti hann bíl á 4,8 milljónir og tók fyrir honum 100% myntkörfulán. Nú er allt í óefni og hann er sár út í stjórnvöld en segist samt geta kennt sjálfum sér um. Lilja Mósesdóttir og flokkur hennar vilja að almennir skattþegar borgi 20% af lánum þessa manns sem stefndi sér í skuldir um efni fram. Er það sanngjarnt ?

Aðstandendur undirskriftasöfnunar Ólafs Ragnars Grímssonar um að fá að vera áfram á Bessastöðum í fjögur ár til viðbótar segja að söfnunin kosti 600 þúsund krónur og kostnaður deilist á fimmtán manns. Molaskrifari dregur þetta mjög í efa. Líklegt er að kostnaður við síðuhönnun, öflun léns, tæknilega uppsetningu söfnunarsíðunnar sé að minnsta kosti 500 þúsund krónur að mati þeirra sem til slíks þekkja. Eru þá ótaldar stórar daglegar auglýsingar t.d. á mbl.is og sjálfsagt miklu víðar. Þær eru ekki ókeypis eins og auglýsingarnar í Útvarpi Sögu. En auðvitað birta Ólafur Ragnar og aðstandendur síðunnar alla reikninga þegar upp er staðið í krafti gegnsæis og heiðarleika. Talan 600 þúsund er álíka trúleg og það að Ólafur Ragnar hafi ekki verið hafður með í ráðum þegar söfnunin var sett af stað.

Jón sendi Molaskrifara línu (13.02.2012), nefnir Bláan Ópal og spyr: Myndi molaskrifari álíta sem svo að ,,Stattu upp fyrir sjálfum þér“ teldist til góðrar notkunar á íslensku? Svarið er nei, – en Molaskrifari lítur nú eiginlega á þetta sem grínbull.

Á fréttavef Ríkisútvarpsins (13.02.2012) er sagt frá mannlausum bíl sem fannst í Elliðavatni. Á vefnum segir um bílinn: Ekki er vitað hvernig hann hafnaði ofan í vatninu. Eru ekki yfirgnæfandi líkur á bílnum hafi verið ekið út í vatnið, – nema hann hafi svifið í fallhlíf af himnum ofan?

Sjálfsafgreiðsluverð á bensíni kostar nú … var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (13.02.2012). Verð kostar ekki. Hér hefði bara átt að segja: Sjálfsafgreiðsluverð á bensíni er nú …

Einkennileg er fælni sumra fréttamanna við að segja í fyrra sumar eða fyrra vetur. Þess í stað er sífellt talað um síðasta sumar og síðasta vetur. Í fréttum Ríkissjónvarps (13.02.2012) var sagt: Síðasta sumar var gerð fyrsta rannsóknin …. Molaskrifari er ósáttur við þetta orðalag sem honum finnst óþarflega enskulegt. Molaskrifari heldur áfram að hamra á þessu.

Fín innslög í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (13.02.2012) um líffæragjafir og viðbrögð við hjartastoppi. Sýna ætti þáttinn um hjartastopp árlega. Hið minnsta.

Áskell sendi eftirfarandi (13.02.2012): ,,Fyrr í dag fannst bíll í Vífilsstaðavatni. Frá þessu er sagt á dv.is og meðal annars rætt við mann frá slökkviliðinu. Sá sagði að hans menn hefðu leitað í bílnum sem að sjálfsögðu var „staðsettur“ tíu metra frá bílastæði við Vífilstaðavatn.” Áskell nefnir fleira . Sjúkrabíll hafi verið á staðnum og bíll frá slökkviliðinu. Molaskrifari sér reyndar ekkert athugavert við það. Kafarar frá slökkviliðinu komu á staðinn og fóru að bílnum. Enginn vissi hvort þar væri fólk eður ei. Áskell segir að Ritstjóri dv.is eigi að gera meiri kröfur til þeirra sem starfa hjá miðlinum. – Molaskrifari bætir við, að hann veit að ritstjóri DV vill að blaðamenn hans vandi málfar í fréttaskrifum, en ekki verður við öllu séð á þeim bæ frekar en annarsstaðar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Gunnar Þorsteinsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Í athugasemd minni talaði ég bara fyrir mína eigin hönd, ekki Ríkisútvarpsins. Pistlar þínir eru þarfir og ég lít svo á að þeir eigi að vera skyldulesning allra sem fást við að semja texta eða tala í fjölmiðlum. Hitt er svo annað að þú ert kennari af þeirri gerð sem enginn lærir neitt hjá, fýlutónninn og vandlætingin slík að nemendur hugsa um það eitt hvað hann þú ert leiðinlegur. Oft liggur þér svo mikið á að birta pistla þína að þú mátt ekki vera að því að lesa þá yfir áður og stundum eru þeir morandi í innsláttarvillum. Athugasemd mín við mola númer 841 var vanmáttug tilraun til þess að skrifa í sama dúr og þú gerir oft í pistlum þínum en þú hefur greinilega ekki húmor fyrir því.

    Með bestu kveðju,

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>