Molalesandi sendi eftirfarandi úr mbl.is (14.02.2012): ,,Á mbl.is er fjallað um orðaskipti Steingríms J. og Sigmundar Davíðs. Þar er klaufalega komist að orði í niðurlangi stuttrar fréttar. Þar segir: ,,Hann segir að ekki hafi verið ætlunin að ummælin heyrðust í hljóðritun eða kæmust í fjölmiðla.“ Betra hefði verið að segja: Hann segir að hvorki hafi verið ætlunin að ummælin heyrðust í hljóðritun né þau kæmust í fjölmiðla.” .
Jóns Þórarinssonar tónskálds og fyrrum dagskrárstjóra í Ríkissjónvarpinu var fallega minnst í Kastljósi (15.02.2012) svo sem verðugt var. Egill Eðvarðsson er smekkmaður. Kynnir hefði þó mátt sleppa því að kalla ljóð Halldórs Laxness texta eins og nú er orðið næsta algengt að gera.
Aftur og aftur sér maður leikskólamálið að klessa á þegar bíl er ekið á annan bíl eða eitthvað annað. Þetta er úr dv.is (14.02.2012): Konan sem ók bifreiðinni reyndi að flýja af vettvangi en ekki vildi betur til en svo að hún klessi (klessti) á kyrrstæða bifreið.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (12.02.2012) var sagt frá kjöri nýs formanns sambands ungra framsóknarmanna. Efnislega var sagt að formaðurinn hefði verið kjörinn með 32 atkvæðum eða um helmingi fylgis. Hér hefur líklega verið átt við helming greiddra atkvæði því eins og þetta var orðað er það ekki skiljanlegt. Einhverra hluta vegna er þessi fréttatími ekki aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins. Þegar reynt er að hlusta á hann birtist eftirfarandi á skjánum: ,,Ef til vill er dagskrárliðnum ekki lokið eða þá að upptakan er ekki lengur aðgengileg.” Dagskrárliðnum er löngu lokið og upptakan hefur aldrei verið aðgengileg.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (14.02.2012) var fjallað ( enn einu sinni ) um hlutabréfakaup lífeyrissjóðanna og sagt að hlutabréf sem urðu verðlaus eða verðlítil að bréfin hafi orðið að gjalli. Ekki kannast Molaskrifari við þetta orðalag. Hinsvegar er talað um að einhver verði að gjalti , verði orðlaus, fallist hendur gefist upp.
Kristinn H. Gunnarsson fv. alþingismaður skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið (15.02.2012):Kviksyndi lýðskrumsins tefur endurreisn. Kristinn segir m.a.; Ef ósanngjarnt er að sá greiði sem keypt hefur hús eða önnur lífsgæði og hefur notið þeirra, er þá sanngjarnt að annar greiði sem ekkert hefur fengið af þeim gæðum?Þeim fjölgar sem taka undir þessa firringu og hætta sér út í það kviksyndi sem leiðir af því að skilja í sundur áhættu og ábyrgð svo og ávinning og kostnað. Það flögraði að Molaskrifara hvort kveikjan að grein Kristin hefði verið Silfur Egils sl. sunnudag þar sem Sighvatur Björgvinsson og Guðmundur Gunnarsson með eftirminnilegum hætti afhjúpuðu lýðskrumara (verkalýðsforkólf af Akranesi og varaformann Liljuflokksins) sem velta vilja skuldum yfir almenning. Af hverju eiga sumir að sleppa við að borga 20% af skuldum sínum, ern aðrir ekki? Þeirri spurningu er aldrei svarað. Báðir stóðu skrumararnir halaklipptir eftir.
Í gær (15.02.2012) fékk Molaskrifari stóryrtan tölvupóst og athugasemd við Mola frá Gunnari Þorsteinssyni dagskrárritstjóra Ríkisútvarpsins okkar allra. Hann kallaði Molaskrifara ritsóða með meiru. (Sjá athugasemdir við Mola 842) Það er svo sem í góðu lagi. Gunnar hefur rétt til að hafa hvaða skoðun sem er á Molaskrifara. Það er hans mál. Hann segist hafa skrifað athugasemdina í eigin nafni, ekki í nafni Ríkisútvarpsins. Molaskrifari efast um það. Athugasemdin var send frá netfangi Gunnars hjá Ríkisútvarpinu, um póstþjón þess (gunnar@ruv.is) , nær örugglega úr tölvu í eigu Ríkisútvarpsins og á skrifstofutíma. Ef starfsmenn Ríkisútvarpsins vilja skattyrðast við fólk úti í bæ ættu þeir að minnsta kosti að gera það utan vinnutíma, á eigin tölvu og í eigin tölvupósti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/02/2012 at 08:49 (UTC 0)
Ég vissi nú reyndar ekki af þessu ,,netfang þitt mun ekki sjást“. Viðurkenni það. En starfsmaður Ríkisútvarpsins ohf, hlutafélags í eigu almennings, sem notar tölvu og tölvupóst vinnuveitenda sín til að senda fólki úti í bæ skammarbréf getur varla haft nokkuð á móti því að netfang hans sé birt. Ég hélt reyndar að Ríkisútvarpið ohf hefði reglur um einkanotkun starfsmanna á tölvupósti í nafni Ríkisútvarpsins. Gunnar Þorsteinsson getur skammað mig að vild , ég er ekki að kvarta undan því, en hann á þá að gera það úr tölvunni sinni , frá sínu netfangi og utan vinnutíma síns hjá Ríkisútvarpinu.
Jón H. Brynjólfsson skrifar:
16/02/2012 at 22:27 (UTC 0)
Þar sem menn skrifa athugasemdir stendur „Netfang þitt mun ekki sjást“. Þess vegna finnst mér athyglisvert að þú sérð ástæðu til að birta netfang Gunnars Þorsteinssonar (ferð raunar rangt með það, sýnist mér, en látum það vera). Þú ættir kannski að breyta þessu með netfangið – gætir til dæmis haft það: Netfang þitt mun ekki sjást nema Molaskrifara mislíki það sem þú skrifar.