«

»

Molar um málfar og miðla 844

Ummæli Jóns Sigurðssonar forstjóra Össurar um íslensku krónuna á Viðskiptaþingi hafa vakið verðskuldaða athygli, enda stórfrétt. Jón Sigurðsson hefur stýrt þessu glæsilega og öfluga fyrirtæki af snilld. Jón sagði efnislega : Íslenskan krónan er ónýtur gjaldmiðill. Hún er fíllinn í stofunni. Við eigum að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. Þeir sem vilja það ekki skulda okkur skýringu á afstöðu sinni  Vissulega fréttnæm ummæli. Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins (16.02.2012) er viðtal við Jón í tilefni af ræðu hans. Fimm dálka fyrirsögnin er um að óvild mæti erlendum viðskiptamönnum á Íslandi! Ónýt krónan er í undirfyrirsögn með smáu letri. Þetta segir okkur lesendum margt um það hvernig fréttamati Morgunblaðsins er stýrt. Í sama  Morgunblaði er grein eftir Ragnar Arnalds fyrrum formann Alþýðubandalagsins og fjármálaráðherra. Ragnar segir: ,,Áróðurinn fyrir upptöku evru er af pólitískum rótum runninn, jafnt hér á landi sem á meginlandinu og byggist ekki á hagfræðilegum rökum”. Er þá forstjóri Össurar kominn út í pólitík? Ég held ekki. Ég velkist hinsvegar ekki í vafa um það hvor sé marktækari  þegar rætt er um gengi og gjaldmiðilsmál,  forstjóri Össurar eða fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins.

 

Algenga villu mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld (15.02.2012). Þar var sagt: … eins og sést á myndbandinu var engu til sparað. Hér hefði verið rétt að segja: Var ekkert til sparað. Ekki horft í kostnaðinn. Hinsvegar er sagt: Var engu til kostað, ekki lagt í neinn kostnað. Í sama fréttatíma var sagt um dóm Hæstaráttar: … verður að endurreikna öll gengistryggð lán aftur. Hér hefði nægt að tala um að endurreikna öll gengistryggð lán. Nema búið hafi verið að endurreikna lánin áður. Í fréttum Ríkissjónvarps var réttilega talað um að reikna þurfi lánin upp á nýtt.

 

Fréttavefurinn visir.s segir frá jarðarför söngkonunnar Whitney Houston. Bæði í fyrirsögnum og texta er talað um jarðaför: ..að ekki sé óskað eftir veru hans við jarðaför söngkonunnar. Útför, jarðsetning heitir jarðarför. Með erri. Hjá grönnum okkar í Færeyjum heitir jarðarför jarðarferð.

 

Lesandi sendi Molum línu (15.02.2012) og segir: ,,Mig langar að vekja athygli þína á einstaklega illa skrifaðri og óskiljanlegri frétt á mbl.is.

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/02/14/ein_skammvin_stroka_inn_a_kynfaeri/ Molaskrifari undrast reyndar þennan ítarlega fréttaflutning, sem næstum má kalla smjatt.

 

Fréttavefurinn visir.is segir frá innbroti í Ljósmyndaskóla /16.02.2012): Tjónið er á milljónum króna.  Hér hefði átt að segja til dæmis: Tjónið nemur milljónum króna.

 

Mbl.is skýrir frá því að hestamenn hyggist mótmæla hækkun fasteignagjalda á hesthúsum. Þar segir /16.02.2012): Hefur meðal annars komið til umræðu að efna til hópreiðar eftir Miklubraut og Hringbraut og niður að Alþingi. Það myndi augljóslega hafa mikil áhrif á umferðina ef 300 til 500 knapar færu fetið á hestum sínum á miklum álagstíma. Hér er fréttin:  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/02/16/hestamenn_aforma_motmaelareid/.

Nú er spurt: Hversvegna vilja hestamenn hefna sín á saklausum borgurum og trufla þá við að komast leiðar sinnar, – fólki sem ekkert hefur með álagningu fasteignagjalda að gera? Valda umferðartöfum sem geta gert lögreglu, slökkviliði og  sjúkrabílum erfitt fyrir að komast leiðar sinnar ? Ekki verður annað sagt en að þetta sé hreint ótrúlega heimskuleg hugmynd. Hestamenn eru hér á villigötum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>