Það þóttu talsverð tíðindi þegar ákveðið var í Bretlandi að svipta fyrrverandi aðalbankastjóra Royal Bank of Scotland aðalstign fyrir skömmu. Hann hafði verið aðlaður fyrir störf sín að bankamálum þegar bankabólan blés sem mest út. Hún sprakk og breska ríkið þurfti að leggja bankanum til milljarða sterlingspunda. Það er kannski ekki rétt að líkja íslensku fálkaorðunni við aðalstign. En fjölmargir útrásarvíkingar sem seinna reyndust ótíndir bankabófar og fjárglæframenn fengu fálkaorðuna þegar meðvirkni forseta Íslands var í hámarki og þessir menn voru tíðastir gestir í kvöldverðarboðum forsetahjónanna á Bessatöðum. Þegar fálkaorðan og bankabófarnir áttu í hlut var forsetinn eins og barn með brjóstsykurspoka. Fálkaorðunni var dreift , vinstri hægri eins og segir í sjónvarpsauglýsingunni.
Hvernig væri nú að þessir menn sem komu þjóðinni næstum á vonarvöl yrðu látnir skila orðunni? Þeir eiga ekki að fá að spóka sig með fálkaorðuna hvorki erlendis né hérlendis. Þannig verðum við að athægi. Það að veita þeim fálkaorðuna er þegar búið að gengisfella þetta heiðursmerki íslensku þjóðarinnar. Orðunefnd á að taka á sig rögg og krefjast þess að forseti Íslands láti þessa menn skila íslensku fálkaorðunni. Þeir áttu hana aldrei skilið. Þetta var allt misskilingur hins meðvirka meðreiðarsveins.
Í Ríkisæútvarpinu (18.02.2012) var talað um um … aðalhlutverkið í leikriti Strindbergs Faðirinn. Hér hefði Að mat Molaskrifara átt að segja: … aðalhlutverkið í leikriti Strindbergs Föðurnum. Sama dag var í fréttum talað um að fremja sjálfsmorðstilræði. Var átt við að fremja sjálfsmorð og bana fleirum í leiðinni? Ekki alveg skýrt.
Að vinum er ég ríkur, er haft eftir afmælisbarni í Morgunblaðsinu (17.02.2012). Molaskrifari hallast að því að þarna hefði afmælisbarnið átt að segja: Af vinum er ég ríkur.
Í fréttum hefur talsvert verið fjallað um yfirvofandi eða væntanlegan brottrekstur forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna upplýsinga sem hann er sagður hafa látið undir höfuð leggjast að gefa árið 2001 eða fyrir ellefu árum. Það orkar tvímælis og er mjög huglægt mat þegar Fréttastofa Ríkisútvarpsins ítrekað talar um að það sem gerðist fyrir ellefu árum hafi gerst fyrir fáeinum árum. Í huga Molaskrifara eru ellefu ár ekki fáein ár. Þrjú eða fjögur ár væru fáein ár.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
21/02/2012 at 10:43 (UTC 0)
Þakka þér, Einar Friðrik. Eiður tekur þetta til sín.
Einar Friðrik skrifar:
21/02/2012 at 09:26 (UTC 0)
Sæll Eyður, ég má til með að benda á þegar athugasemdir þínar eru rangar. Í þessu tilfelli minnist þú á afar vel mælt mál afmælisbarns Morgunblaðsins sem segir „Að vinum er ég ríkur“ sem er hárrétt. Rangt er hjá þér að segja „Af“ þegar talað er bæði um ríkur eða auðugur. T.d. er rétt að segja „Áin er auðug að fiski“ og „Hann var ríkur að fé“.
Þú getur flett þessum athugasemdum mínum upp á bls. 11 og 12 í bókinni Handbók um íslensku sem kom út nú um jólin sem áhugavert væri fyrir þig að glugga í.
Annars fínir og áhugaverðir pistlar hér hjá þér Eyður sem áhugavert er að lesa og vert er að þakka fyrir.
Með kveðju
Einar F.
Eiður skrifar:
21/02/2012 at 08:47 (UTC 0)
Höfundur er Steingrímur Thorsteinsson .
Magnus G. Bjornsson skrifar:
21/02/2012 at 00:53 (UTC 0)
Ordur, titlar, urelt thing
eins og daemin sanna,
notast oft sem uppfylling
i eydur verdleikanna.
(hofundur er mer othektur)
Arnbjörn skrifar:
20/02/2012 at 11:15 (UTC 0)
Óbeygð einkunn er vandmeðfarin.
Flestir eru sammála um að hún eigi við í eftirfarandi dæmi:
‘Í skáldsögunni Sjálfstætt fólk lætur HKL …’
Samkvæmt orðum pistilsins er hins vegar annað uppi á teningnum þegar sama einkunn er í öðru sæti:
‘Í skáldsögu Halldórs Laxness Sjálfstæðu fólki er lesandinn …’