Gott var að heyra réttilega talað um þrenn verðlaun í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudagsmorgni (19.02.2012) þegar sagt var frá verðlaunaveitingum á kvikmyndahátíð. Það er hinsvegar óþarfi að tala um kvikmynd sem svokallað docudrama, – myndin er leikin heimildamynd.
Skrifað er á pressan.is (18.02.2012): Ekki eru þó allir sáttir, en einn skóli hefur gengið svo langt að banna börnum að borða nesti sem ekki mæta ákveðnum stöðlum. Nesti er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Þessvegna er ekki hægt að um mörg nesti.
Í Sunnudagsmogga (19.02.2012) er opnuauglýsing þar sem segir: Viðtal við Egill Arnar Birgisson… Auglýsingahöfundar ættu að láta prófarkalesa það sem þeir láta frá sér fara. Auglýsingar með málvillum vekja ævinlega vantrú og tortryggni hjá Molaskrifara.
Nýlega var í útvarpsfréttum talað um Norsku tölfræðistofnunina. Þar var væntanlega átt við norsku Hagstofuna sem á norsku heitir Statistisk sentralbyrå. Eitthvað var það málum blandið þegar í fréttum Ríkisútvarps (19.02.2012) var fjallað um strand ítalska skemmtiferðaskipsins Costa Concorida og talað um innsiglingu. Innsigling kom ekkert við sögu. Skipið steytti á skeri þegar siglt var of nærri landi á leið framhjá eyjunni Giglio . Í fréttinni var einnig sagt að skipstjórinn hefði staðið sig illa við strandið. Molaskrifari hefði ekki tekið þannig til orða.
Formaður Hagsmunasamtaka heimilann ruglaði saman hugtökunum , heimili og hús (íbúð, fasteign) í Silfri Egils (19.02.2012). Það er hægt að veðsetja hús. Það er ekki hægt að veðsetja heimili. Þessi kona, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna er Molaskrifara minnisstæð fyrir það hve einlæglega hún gladdist yfir því að ráðist skyldi á Alþingismenn við setningu Alþingis 1. október síðastliðinn. Það gerði hún í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins. Formaðurinn er nú daglegur gestur í fréttatímum fjölmiðla. Aldrei er þó um það fjallað hverskonar samtök þetta eru, hvað þau eru fjölmenn, hvenær og hvernig stjórn þeirra var kjörin. – Undarlegt var að heyra Baldur Óskarsson segja í Silfrinu að þjóðin þurfi Ólaf Ragnar áfram á Bessastöðum svo hann geti skipt sér af kvótamálum , stjórnarskrármálum og aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu. Baldur má þó eiga það að hann kom grímulaust fram fyrir hönd Ólafs Ragnars Grímssonar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar